Þetta var stórglæsilegt kvöld. Alveg einstakt, öll böndin stóðu sig einstaklega vel og já, hljóðið var GEÐVEIKT.
Carpe Noctem: Ég er ekki hlutlaus þar sem 3 meðlimir hljómsveitarinnar eru bestu vinir mínir, en ég get með sanni sagt að þeir eru einhverjir af efnilegustu böndum á Íslandi núna. Lögin sem þeir spiluðu hefðu átt að kalla fram brjálaða pitti og blóðugt slamm, nema það voru svo fáir mættir á þessum tímapunkti. Skálholtsbrenna = uppáhalds lagið mitt.
In Siren: Þetta kvöld var í fyrsta skipti sem ég heyrði í þeim, og ég var mjög hrifin. Hljóðfæraleikurinn frábær og söngvarinn með þessa líka frábæru rödd, en það eina sem ég gæti sagt “neikvætt” er að söngurinn virtist stundum ekki vera að syngja sama lag og hljóðfæraleikararnir voru að spila. Þetta var öðruvísi og virkilega skemmtilegt. Djöfull var fiðluleikarinn líka töff!
Munnríður: Líka í fyrsta skipti sem ég heyrði í þeim og þetta er slammhljómsveit dauðans. Hvert og eitt einasta lag kallaði á slamm og pitt og ég verð að segja að söngvarinn er einn af þeim bestu sem ég hef heyrt í. Ég fílaði það í tætlur.
Agent Fresco: Þvílíkir listamenn. Innlifunin í meðlimum hljómsveitarinnar er stórkostleg, greinilegt hvað þeir algjörlega lifa í sínum eigin tónlistarheimi þegar þeir spila, og söngvarinn fótbrotinn, en náði samt að halda sviðsframkomunni í hámarki. Tónlistin er líka einstök og þeir höfðu fólkið með sér í tónlistinni. Ég ætla mér algjörlega að kaupa diskinn þeirra.
Changer: Hvað getur maður sagt um Changer? Þeir eru alltaf flottir. Ég sá þá samt seinast þegar Egill var enn söngvari og vissi ekki að Atli Jarl var búinn að taka við og hann stóð sig frábærlega.
Ég verð að segja að þetta er eitt besta tónleikakvöld sem ég hef sótt á Íslandi. Þetta var peninganna virði (1300 kall því ég borgaði við hurð) og ég vorkenni þeim innilega sem misstu af þessu. Toppbönd við toppaðstæður.