Mér finnst þetta einmitt mjög illa rökstutt. Kristnir eru ekki sér kynþáttur. Fólk sem er á móti kristni er ekki á móti kristnum sem kynþætti, heldur er það fólk á móti hugmyndafræðinni. Það skiptir engu hvort kristinn maður sé hvítur eða svartur, það sem er “að” er það að viðkomandi fylgir ákveðinni trú og hugmyndafræði.
Það að vera á móti kristni er heldur alls, alls ekki það sama og að hata alla kristna. Ég hata ekki fólk sem er kristið bara útaf því að það er ósammála mér, eða hefur aðra sýn á lífið. Það væri eins og að hata alla sem fíla ekki metal. Ég get verið mjög ósammála þessu fólki og verið andvígur kristinni trú en það þýðir ekki að ég hati einstaklinga bara útaf því. Ég hætti ekki að hlusta á bönd ef ég kemst að því að meðlimirnir eru ekki trúleysingjar, eins og ég. Ef allir væru sammála væri veröldin leiðinleg.
Kynþáttafordómar eru afleiðing fáfræði, fáfræði veldur stærstum hluta allra vandamála, stríða, deilna o.s.frv. í heiminum. Fáfræði getur verið allt frá einföldum misskilningi milli vina sem veldur rifrildi, til þess að vera kynding undir kynþáttafordóma og hatur. Fáfræði er stærsti óvinur manna og það að metalaðdáendur, rétt eins og allir aðrir, séu á móti þessu er ekkert nema gott mál.
Metall snýst ekki um hatur, þetta snýst um tónlist. Þó að það séu til mörg bönd sem nota þetta tónlistarform til að tjá neikvæðar tilfinningar svo sem hatur, þýðir það ekki að allar þær milljónir manna sem hlusta á metal séu hlaðnir hatri og það sé eina ástæðan fyrir því að þeir hlusti á Metal. Það eru líka til margar gerðir haturs, þó að tilfinningin sé svipuð, þá skiptir það mjög miklu máli hvert hatri er beitt. Hvort því sé beint að auðveldasta takmarkinu, t.d. þeim sem skera sig úr, eða að raunhæfari skotmörkum.
Það sem þú vilt segja, ef ég skil þig rétt, er það að það sé hræsni að styðja andkristni og vera á móti kynþáttafordómum. Þar með ertu að setja þetta tvennt í sama flokk, þú segir að þetta snúist bæði um hatur. Andkristni hjá skynsömu fólki snýst ekki um það að loka augunum fyrir öllu nema satanískum áróðri og hata alla sem tengjast kristni á nokkurn hátt. Það væri mjög skammsýnt. Þetta snýst um það að vera á móti hugmyndafræði sem byggir á fáfræði og styðja upplýsingu fólks. Kynþáttahatarar loka augunum fyrir sannleikanum og sjá það sem þeir vilja sjá, ekkert meira. Það ber vott um mikla fáfræði, þeir neita að sjá sannleikann, að fólk sé eins að innan hvort sem það er svart eða hvítt á litinn. Þetta er s.s. hugmyndafræði sem byggir á fordómum (taktu eftir því sem liggur í þessum orðum, að dæma fyrirfram, s.s. áður en maður veit allt sem maður þarf að vita) og fáfræði. Að styðja baráttu gegn fordómum er að styðja baráttu fyrir upplýsingu fólks.
Þess vegna er fáránlegt að halda því fram að það sé hræsni að styðja andkristni en ekki kynþáttafordóma. Kristni og kynþáttafordómar eiga meira sameiginlegt en andkristni og kynþáttafordómar.
Endless Power? This is Perfect! - Bryan Fury