Fyrrverandi bassaleikari METALLICA stofnar nýja hljómsveit
Fyrrverandi bassaleikari METALLICA stofnar nýja hljómsveit
Jason Newstead, sem á sínum tíma plokkaði bassastrengina með rokkrisunum í Metallica, situr ekki auðum höndum þessa dagana því hann hefur nú stofnað nýja hljómsveit og starfar þar með í tveimur rokksveitum á sama tíma.
Newstead vandaði ekki fyrrverandi félögum sínum í Metallica kveðjurnar þegar hann hætti í sveitinni á sínum tíma, sagðist aldrei hafa verið tekinn inn í sveitina sem fullgildur meðlimur. Hetfield og félagar vildi hins vegar meina að Newstead hefði aldrei gefið sig almennilega að Metallica, hefði alltaf verið með hliðarverkefni í gangi og ljóst má vera að manninum leiðist það talsvert að sitja og stara út í loftið.
Newstead hefur verið að spila með hljómsveitinni Voivod og vakið þar nokkra athygli og nú hefur hann stofnað nýja hljómsveit sem fengið hefur nafnið Heard of Elements. Þetta er tríó, skipað Newstead, Carl Coletti og manni sem heitir því skemmtilega nafni Roy Rogers. Líklegt má telja að tónlistin sé af rokkkvísl tónlistartrésins, en heyra má sýnishorn af því sem sveitin hefur upp á að bjóða á heimsíðunni www.chophouserecords.com.
tekið af…http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2832673&e342RecordID=10283&e342DataStoreID=2832215