Rokksöngvarinn Ozzy Osbourne er enn í öndunarvél á sjúkrahúsi eftir vélhjólaslys í Bretlandi. Osbourne, sem er 55 ára, braut átta rifbein, viðbein og hryggjarlið í hálsi. Söngvarinn verður tengdur við öndunarvél næsta sólarhring. Hann fór í aðgerð á Wrexham Park sjúkrahúsinu í gær. Aðgerðin var framkvæmd til þess að lyfta viðbeini, sem var talið liggja á slagæð og hindraði blóðflæði um annan handleggg hans. þá var reynt að stöðva blæðingu í lunga.
Læknar á sjúkrahúsinu segjast gera ráð fyrir að Ozzy nái bata og telja meiðsli hans ekki lífshættuleg. Sharon, eiginkona Ozzy, kom til Bretlands í gær og heimsótti eiginmann sinn á sjúkrahúsinu. Hún hefur ekki viljað tjá sig við fjölmiðla vegna slyssins, að sögn BBC.
Bill Greer, umboðsmaður Osbourne, segir að Ozzy geti ekki lokið við kynningarferð í Bretlandi vegna jólalagsins “Changes”, sem hann syngur ásamt dóttur sinni Kelly. Búist er við því að lagið nái efsta sæti vinsældarlistans í Bretlandi. Ozzy hefur náð vinsældum á ný í Bretlandi og víða um heim eftir að MTV-sjónvarpsstöðin hóf sýningar frá raunveruleikaþætti sem byggir á fjölskyldulífi Osbourne-fjölskyldunnar í Los Angeles.