Ég hef heyrt áður í Stjörnukisa, þannig að ég vissi nokkurn veginn hvað ég átti von á hjá þeim en var ekki alveg sannfærður í kvöld… Eins og þeir voru ekki alveg al lifa sig inn í það sem þeir voru að gera… líklegast var það bara vegna þess hve 22 er lítill staður og frekar lélegur tónleikastaður…
En hvað um það, næstir á svið voru Krít frá Færeyjum. Ég get sagt ykkur það herrar mínir og frúr að Krít voru AWESOME. Spiluðu í 50 mínútur en hefðu hæglega getað spilað miklu lengur og voru meira að segja klappaðir upp (af áhorfendahópi þar sem allir voru líklegast yfir 22 ára).
Ég verð bara að segja að ég hef ekki orðið svona impressed af jafn ungri sveit og þegar ég sá Pain of Salvation spila fyrst. Reyndar er svo að tónlistin sem þeir spila á margt skylt við tónlist PoS, kannski ekki í þyngd, heldur uppbyggingu. Þetta er mjög metnaðarfull tónlist þar sem skiptast á hægir og hraðir kaflar, brutal söngur og clean og jafnvel partar þar sem söngvarinn hvíslar það sem hann syngur (ekki ósvipað Daniel Gildenlow í PoS).
Tónlist þeirra, sem Siggi Pönk lýsti sem “Death/Black” pælingar er svo miklu meira en það. Til þess að taka allan vafa af: Það er ekki snefill af hardcore í þessu og ekki heldur metalcore - Þetta er Heavy Metal all the way! Þetta er melódískt epískt metal, þar sem death/black pælingarnar eru bara ráðandi í hluta af lögunum. Ég satt best að segja á erfitt með að ímynda mér að menn eigi eftir að getað moshað mikið við þessa tónlist (þó eitthvað) en ráðlegg mönnum þess þá heldur að leggja við hlustir og láta tónlistina sjúga vel inn. Það er einfaldlega svo mikið í gangi hjá þeim að tónlistin krefst allrar athygli manns - og verðlaunar manni fyrir.
Krít hefur á að skipa 5 meðlimum, trommur, bassi (5 strengja), gítar/söngur, gítar og gítar/hljómborð. Já, 3 gítarleikarar! Gítarsándið ber sterkan keim af Korn gítarsándinu en tónlistin er þó alls ekki eitthvað nu-metal en minnir svolítið á Tool. Gítarspilið á tónleikunum var magnað á köflum, sérstaklega þegar vinirnir þrír spiluðu allir lead/solo á sama tíma með hinum þunga hljóm sveitarinnar - ótrúlega flott. Gítarleikari nr. 3 brá sér svo af og til yfir á hljómborðið og lagði línurnar fyrir enn fleiri flottar melódíur - virkilega majestic. Það vantaði bara munkachantið til að fullkomna hljóðmyndina… hehe
Ég talaði aðeins við Kidda í Hljómalind á milli laga og eftir showið, þar sem hann sagði mér að tónleikarnir á laugardaginn í Austurbæjarbíói yrði væntanlega tekið upp - hugsanlega með einhverja útgáfu í huga. Djöfull ætla ég ekki að láta mig vanta þar, eins og á morgun í Tjarnarbíó. Ég vænti þess að þið gerið slíkt hið sama!!
Það er alveg ljóst að þegar ég heyri efnið þeirra í annað sinn á þetta eftir að verða enn betra.
Þorsteinn Kolbeinsson
Resting Mind concerts