WACKEN METAL BATTLE - ICELAND - 17. og 18. apríl. Þungarokksviðburður ársins! HLJÓMSVEITAKEPPNIN WACKEN METAL BATTLE - Á ÍSLANDI

17. apríl - Pre-Party - upphitunarkvöld - kl 21:30 - 18 ára aldurstakmark

18. apríl - Keppniskvöld - kl 18:00 - Ekkert aldurstakmark


Í ár verður í fyrsta sinn haldin á Íslandi undankeppni fyrir alþjóðlegu hljómsveitakeppnina Wacken Metal Battle. Wacken er nafnið á litlum smábæ í Norður-Þýskalandi sem á hverju sumri umturnast í einn allsherjar risa þungarokksbæ þegar Wacken : Open : Air hátíðin er haldin. Fyrstu helgina í ágúst þjarka þar inn fyrir bæjarmörkin 70.000 gestir hvaðanæva úr heiminum til að hlusta á kanónur þungarokksins spila. Í ár er svo komið að hátíðin verður haldin í 20. skiptið og því verður mikið um dýrðir.

Á síðustu árum hafa skipuleggjendur hátíðarinnar gefið fjöldanum öllum af ungum og efnilegum hljómsveitum tækifæri til að koma og spila á þessari hátíð. Í því skyni settu þeir á laggirnar hljómsveitakeppnina Wacken Metal Battle árið 2004. Sigursveit keppninnar hlýtur m.a. að launum hljómplötusamning fyrir allan heiminn, magnara, trommusett og fullt af öðrum græjum og auðvitað heiðurinn af því að spila að ári fyrir mörg þúsund manns á mun betri stað í prógramminu. Þeim er auk þess boðið að spila á hinum ýmsum undankeppnum næstu Metal Battle keppni út um allan heim!

Í ár mun 21 þjóð halda undankeppnir í sínu landi. Sigursveit hvers lands fyrir sig fær svo þátttökurétt í lokakeppninni sjálfri á Wacken hátíðinni í ágúst.

Fyrirkomulag keppninnar - erlend aðkoma
Hljómsveitir sendu inn umsókn um að fá að vera með, og fór sérstök nefnd yfir umsóknirnar og valdi 7 sveitir til að taka þátt í keppninni. Einungis eitt keppniskvöld verður haldið, ólíkt öðrum hljómsveitakeppnum sem farið hafa fram hér á landi.

Í keppninni sjálfri mun dómnefnd sjá um að velja sigurvegara en í henni verður m.a. blaðamaður frá einu stærsta metal-tímariti Evrópu, Aardschok magazine. Aukinheldur er sá aðili með sitt eigið bókunar- og umboðsskrifstofufyrirtæki, sem sér um að bóka tónleika fyrir fjöldann allan af hljómsveitum sem eiga leið um Benelux löndin á tónleikaferðalögum sínum. Einnig sér fyrirtækið hans um skipulagningu eins stærsta rokkfestivals Hollands, Arnhem Metal Meeting.

Sannarlega kanóna hér á ferð og það er því ekki annað hægt að segja en að vera þessa manns hér er mikill fengur fyrir þær sveitir sem hann á eftir að berja augum. Möguleikar sveitanna til að láta á sér kræla á einum stærsta markaði þungarokks í heiminum, Evrópu, munu ekki gera neitt annað en að aukast.

Wacken Open Air
Wacken er stórglæsileg hátíð, þar sem aðbúnaður, aðstaða, öryggi, almenn framkvæmd og utanumhald er til fyrirmyndar. Það kom því ekki á óvart að hátíðin hlaut Live Entertainment Awards verðlaunin í flokknum Festival of the Year í Þýskalandi í fyrra. Slíkt er sérlega eftirtektarvert í ljósi þess að um 500 tónlistarhátíðir eru haldnar í landinu á ári hverju. Það hefur verið uppselt á þessa hátíð síðan 2006 og fyrir hátíðina í ár var svo komið að það var þegar orðið uppselt á hana um síðustu áramót - heilum 7 mánuðum áður en hátíðin er haldin (fyrstu helgina í ágúst).

Einn stærsti þungarokksviðburður ársins! - Upphitunarpartíi bætt við
Til þess að gera þetta að enn stærri viðburð en þegar er, verður haldið sérstakt pre-party daginn fyrir keppnina, eða 17. apríl. Þar koma saman 5 af frambærilegustu þungarokkssveitum landsins til þess að hita upp fyrir keppnina daginn eftir. Sjálf undankeppnin verður s.s. haldin 18. apríl.

Það er líklega ekki vanmat að segja að þessi viðburður, þ.e. þessi helgi í heild sinni, sé einn stærsti þungarokksviðburður ársins (sem ekki inniheldur erlenda artista), ef ekki sá stærsti. Það er ekki á hverjum degi sem íslenskar þungarokkssveitir munu koma fram á Wacken Open Air, virtasta og stærsta þungarokksfestivali heims eins og verður einmitt afleiðing þessarar keppni.

Tímasetningar og staðsetning
Upphitunarkvöldið og keppnin verður haldin á Dillon Sportbar, Trönuhrauni 10 í Hafnarfirði.

Wacken Metal Battle Pre-Party kvöldið
Föstudaginn 17. apríl
Húsið opnar 21:30 - Byrjar 22:30
18 ára aldurstakmark (ekki 20!)
Miðaverð: 1000 í forsölu - 1.300 við hurð

01:15 - CHANGER - http://www.myspace.com/changermetal
00:30 - AGENT FRESCO - http://www.myspace.com/agentfresco
23:50 - MUNNRIÐUR - http://www.myspace.com/munnridur
23:10 - IN SIREN - http://www.myspace.com/insireniceland
22:30 - CARPE NOCTEM - http://www.myspace.com/carpenoctemiceland

Wacken Metal Battle - keppniskvöld
Laugardaginn 18. apríl
Húsið opnar 18:00 - Byrjar 18:30
EKKERT aldurstakmark
Miðaverð: 1000 í forsölu - 1.300 við hurð

21:30 - DIABOLUS - http://www.myspace.com/diaboliciceland
21:00 - SEVERED CROTCH - http://www.myspace.com/severedcrotch
20:30 - PERLA - http://www.myspace.com/musicperla
20:00 - GONE POSTAL - http://www.myspace.com/gonepostalmetal
19:30 - CELESTINE - http://www.myspace.com/celestinemusic
19:00 - BENEATH - http://www.myspace.com/beneathdeathmetal
18:30 - WISTARIA - http://www.myspace.com/wistariatheband

Þetta eru sannarlega þungavigtarsveitir í íslensku þungarokki og því verður fróðlegt að sjá hver þessara sveita verður fulltrúi Íslands á Wacken 2009.

Forsala aðgöngumiða: http://www.midakaup.is
Resting Mind concerts