Wacken er stórglæsileg hátíð, þar sem aðbúnaður, aðstaða, öryggi og almenn framkvæmd og utanumhald er til fyrirmyndar. Það kom því ekki á óvart að hátíðin hlaut Live Entertainment Awards verðlaunin í flokknum Festival of the Year í Þýskalandi 2008. Slíkt er sérlega eftirtektarvert í ljósi þess að um 500 tónlistarhátíðir eru haldnar í Þýskalandi á ári hverju.
Hópferð á Wacken - Mekka Metalsins í 20 ár!
Wacken 2009 hátíðin er hvorki meira né minna en sú 20. í röðinni og því verður haldið uppá það með pompi og prakt.
RestingMind Concerts hefur haldið utan um hópferð Íslendinga á þessa hátíð síðustu fimm árin þar sem farið er frá Kaupmannahöfn með rútu beint á Wacken svæðið. Árið 2004 nýttu 25 metalhausar sér þessa ferð, 2005 var hópurinn kominn upp í 40 manneskjur, 2006 náði hópurinn 50 manna markinu, 2007 fóru 60 manns með og 2008 fóru 80 metalhungraðar sálir með í ferðina.
RestingMind ætlar að endurtaka leikinn í sumar, enda hafa náðst samningar við veðurguðina um alveg einstakt veður í ágúst - Alveg satt! Um er að ræða hópferð með rútum frá Kaupmannahöfn og beint á Wacken svæðið. Þátttakendur sjá sjálfir um að koma sér til Danmerkur.
Hátíð með um 80 hljómsveitum
Eftirtaldar hljómsveitir eru staðfestar fyrir festivalið núna í ár enn sem komið er, en ballið er bara rétt að byrja, því það verða um 80 sveitir á Wacken og síðustu sveitirnar verða líklega ekki staðfestar fyrr en nokkrum mánuðum fyrir festivalið eins og gengur og gerist með svona festivöl.
AMON AMARTH - Íslandsvinir með meiru!
AXEL RUDI PELL - með Hardline söngvarann Johnny Gioeli í broddi fylkingar.
CALLEJON - Þýskir táningar að spila thrash metal.
CATHEDRAL - Doom goðin koma saman aftur!
EINHERJER - Norsku black/progressive metal víkingarnir.
EPICA - Beauty and the Beast frá Hollandi. Skutla dauðans sér um sönginn.
HAMMERFALL - Ein allra vinsælasta þungarokkssveit Svíþjóðar fyrr og síðar.
IN EXTREMO - Rammstein með sekkjapípum!
KAMPFAR - Norsku black/folk metal heiðingjarnir.
KORPIKLAANI - Finnskur humpa metal í ætti við Finntroll!
MACHINE HEAD - Massametall frá Kanaveldi.
NEVERMORE - Síðasta plata þeirra, This Godless Endevour frá 2006, er mikið meistarastykki.
TRISTANIA - Gothic Beauty and the Beast frá Noregi.
Aldeilis fínt line-up sem dekkar svo til allar tegundir þungarokksins.
Betrumbætt tónleikasvæði og hámarksfjölda tónleikagesta náð
Fyrir hátina 2007 var tónleikasvæðið stórlega betrumbætt þegar aðalsviðin þrjú voru aðgreind betur og þriðja stærsta sviðið, hið svokallaða Party Stage, var flutt á sérsvæði, hinu megin við aðalsviðin tvö. 2008 var þetta skipulag allt bætt enn til muna og svæðið opnað betur og inngöngum á tónleikasvæðið fjölgað og sett á fleiri staði. Einnig datt tónleikahöldurum það snjallræði í hug að bæta við einum risaskjá með sínu eigin hljóðkerfi fyrir utan tónleikasvæðið, þannig að þreyttir metalhausar gátu plantað sér þar, jafnvel með stólana sína, og tékkað á böndum sem þeir kusu ekki að fara í troðninginn fyrir framan sviðin. 2007 gerðist líka að hátíðin náði hámarskfjölda gesta. Uppskar hátíðin svolítin troðning fyrir vikið en 2008 hafði bætt örlítið við fjöldann, en troðningurinn var þrátt fyrir það mun minni vegna breytinga á skipulagningu svæðisins. Frábær þróun.
Ferðatilhögun
Lagt er af stað frá Köben að morgni þriðjudagsins 28. júlí!! Þetta var líka gert 2008 en fyrir það höfðum við lagt af stað á miðvikudeginum. Bæði 2006 og 2007 mynduðust langar biðraðir á þjóðvegunum að Wacken og menn þurftu að bíða í rútum í langan tíma af þeim sökum (sem er svosem ekkert slæmt með kaldar veigar við hönd og metal í græjunum). Slíkt var miklu mun minna af 2008, þar sem fjöldinn allur af fólki var kominn á staðinn þegar á þriðjudeginum þó svo að tjaldsvæðið á Wacken opni ekki formlega fyrr á miðvikudeginum. Wacken skipuleggjendur gerðu undantekningu fyrir okkur og nokkra aðra útvalda og getum við tjaldað í ró og næði strax á þriðjueginum og myndað tjaldbúðir okkar.
Þetta þýðir auðvitað að fólk verður að vera komið til Köben á mánudeginum í síðasta lagi! Brottför frá Wacken er á sunnudeginum, 2. ágúst og áætlaður komutími í Köben er um 20-21 leytið.
Wacken Metal Battle Iceland - Íslenskt band á Wacken 2009
Í fyrsta skipti verður haldin Wacken Metal Battle keppni á Íslandi. Þessi keppni er live hljómsveitakeppni, þar sem sigurhljómsveitin fær réttinn til að spila á Wacken og taka þar með þátt í lokakeppni Metal Battle. 20 þjóðir munu taka þátt í Metal Battle í ár, en sigurvegar lokakeppninnar munu hljóta m.a. hljómplötusamning, trommusett, magnara og annað að launum. Frekari upplýsingar um keppnina er að finna á http://www.metal-battle.com
Verðið
Boðið er uppá einn sameiginlegan pakka fyrir bæði rútuna til Wacken og miðann inná festivalið. Fyrir þá sem þegar hafa tryggt sér miða á festivalið býðst mönnum að panta bara pláss í rútunni. Rútuferðin í Danmörku er skipulögð af Livescenen, og stendur einnig Dönum til boða, þannig að það verða eldhressir Danir með í rútunum til og frá Wacken. Athugið að flugið til Kaupmannahöfn er fyrir utan þennan pakka og á ábyrgð hvers og eins fyrir sig, enda flugframboð þangað mikið og ódýrt fyrir og mismunandi hvað fólk vill vera lengi í Köben fyrir/eftir festivalið.
Innifalið í pakkanum er þetta:
* Miði á Wacken hátíðina (augljóslega ekki fyrir þá sem panta bara rútuferðina).
* Rútuferð frá Köben beint á Wacken svæðið og til baka.
* Grillveisla á þriðjudeginum í tjaldbúðum Íslendinga (fólk kemur með sinn eigin mat á grillið, hægt að kaupa á leiðinni í rútuferðinni þegar stoppað er á landamærum Danmerkur og Þýskalands).
* Partýtjald (áður voru nokkrir sem lögðu í púkk til að kaupa slíkt tjald, en núna verður þetta innifalið). 2007 og 2008 var fjárfest í risa 6 x 9 metra tjaldi sem kom mjög vel að notum. Verður slíkt gert aftur.
* Full Metal Service sem samanstendur m.a. af eftirfarandi:
- Tjaldsvæði og kostnaður vegna rusls.
- Aðgangur að sundsvæði Wacken. Skutla ferjar fólk að Schenefeld sundlauginni.
- Engin takmörkun á þeim mat og drykk sem fólk hefur með sér á tjaldsvæðið.
- Eingöngu græn svæði fyrir tjaldsvæðin.
- Wacken festival límmiði.
- Full Metal Bag, bakpoki sem verður fullur af goodies…
- Geisladiskur (takmarkað upplag)
Verðið sem þetta kostar allt saman er 1900 danskar krónur (DKK). Þetta er hækkun um 100 DKK frá því í fyrra en bara miðinn á Wacken hefur hækkað um 30 Evrur (220 DKK) frá því í fyrra og því er hækkunin samt sem áður mun minni. Það er vegna hagstæðari rútusamninga.
Verðið fyrir bara rútuna er 950 DKK!
Nánari upplýsingar og skráning - deadline 24/12 fyrir öruggan miða!
Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Þorsteini Kolbeinssyni.
MSN: restingmind “at” msn.com
Email: thorsteinnk “at” hive.is (nota það frekar en msn meilinn)
Sími: 557-5599 og 823-4830
Ef menn vilja skrá sig, þá senda menn email á mig með eftirfarandi upplýsingum:
Nafn
Heimilisfang, póstnr og staður
Kennitala
Heimasími og GSM
Email og
MSN login (ef annað en email). Og ég svara um hæl með upplýsingum um hvernig er hægt að borga.
ATHUGIÐ! Vegna gríðarlegrar eftirspurnar í miða á festivalið er rútuferðum tryggðir miðar á festivalið fram til 24.12 2008! Eftir það er staðan skoðuð og ef miðar verða enn eftir eftir það, þá verður auðvitað hægt að panta eftir það.
Þorsteinn
Resting Mind concerts