Þessir Aðventutónleikar fara niður í mínar bækur sem eitt best heppnaða öldurhúsagigg sem ég hef heimsótt, spilað á eða skipulagt. Til að byrja með þá langar mig að þakka Svavari og starfsmönnum Belly's fyrir frábært samstarf og aðstoð við uppsetningu þessara tónleika, þið eruð algerar perlur og þið megið vita það að í framtíðinni þá eruð þið efstir á mínum lista yfir tónleikastaði í Reykjavík. Eins og félagi minn og aðalvitorðsmaður minn í þessu, Siggi Pönk svo réttilega orðaði, þá er alveg svakalega gaman að vinna að svona verkefni með fólki sem er samhuga manni í þessu. Ég var búinn að punkta niður þægilegt tímaplan fyrir þetta allt saman og get staðfest það hér að hvert einasta atriði gekk upp, án nokkurs fáts eða fums ef frá eru talin þessi þrjú skipti sem greininni sló út meðan Gone Postal spilaði, en eftir að við kúpluðum annarri reykvélinni út og einum kastara, þá var þetta til friðs.
Við byrjuðum rót og rigg rétt eftir hádegi í gær, spakir og slakir og í góðum fíling. Dolli Bastard fær alveg überþakkir fyrir að standa í því með mér og eins sáu snillingarnir Raggi Atrum og Stebbi Postal alfarið um trommurigg og voru líka með okkur í rótinu. Ég fékk óvæntan liðsauka í uppsetningu frá góðvini mínum honum Silla Geirdal, sem á kerfið sem notað var við þetta, en hann aðstoðaði okkur við að setja þetta allt saman upp og á hann algerlega heiðurinn af þessu gersamlega frábæra sándi sem var á tónleikunum, ég sá bara um sleðana meðan á gigginu stóð. Ég bara man ekki marga tónleika þar sem hvert einasta band sándaði svona svakalega vel, sex mismunandi bönd og hvert þeirra steig á stokk og hreinlega glansaði! Silli, þú ert mikill höfðingi og átt inni hjá mér óendanlegar þakkir fyrir gærdaginn. Dolli og Kjarri Bastarðar og Stebbi Postal lánuðu svo græjurnar sínar fyrir giggið og reykvélarnar komu einnig frá Bastard.
Ég get engan veginn gert upp á milli framkomu sveitanna sem spiluðu í gær en það var hreint svakalegt að sjá Gone Postal leggja drögin að kvöldinu með hreint ofsalegum látum. Ég hef séð sveitina spila áður, en aldrei með þessu kalíberi. Setlistinn var magnaður og klárlega eru þeir meðal okkar fremstu banda í þessum geira í dag.
Hljómsveitin Dormah vakti áhuga minn er ég sá þá spila á Styrktartónleikunum um daginn og því bauð ég þessum herramönnum að taka þátt í Aðventutónleikunum. Þeir sýndu það og sönnuðu í gær að hér er á ferðinni þyngsta og skítugasta band landsins, án nokkurs efa, mikið djöfull var settið þeirra gott og hlakka ég svakalega til að heyra EP plötuna þeirra.
Bastard menn og efni þeirra þekki ég orðið nokkuð vel og var því afar ánægjulegt að sjá þá skila lögunum frá sér eins og maskínur þarna á sviðinu. Gunni “Þungstígur” Svenn sparkaði bassatrommunni fram á gólf í látunum og Toni sleit E-strenginn á lokatónum síðasta lagsins, slíkur var þunginn og offorsið í bandinu. Dásamlegur old-school metall með tæknilegum flækjum og að heyra Mik þarna í stuði var meiriháttar. Þvílíkur ofurbarki!
Forgarður Helvítis er, eins og flestir ættu orðið að vita, eitt af mínum all-time uppáhaldsböndum. Þeir eru frábærir á sviði og frábærir félagar utan þess og í gær var þeirra sett algerlega á pari við eitt stórkostlegasta performans hjá íslensku bandi sem ég hef séð, en það var þegar Fogginn hitaði upp fyrir Cannibal Corpse á Nasa. Ef ég hefði byggt sviðið upp um 30 cm þarna á Belly's eins og mig langaði að gera, þá er ég 100% viss um að sá gamli hefði stagedive'að á krádið! Það gladdi svo mitt ógeðslega gamla, svarta hjarta að sjá Foggann taka lag eftir Terrorizer, en World Downfall er meðal uppáhaldsplatna minna. Corporation Pull-In var svakalega massíft í þeirra flutningi og ég söng mig svo hásan að ég gat ekki talað í dag.
Morðingjarnir eiga hrós og þakkir skildar fyrir að geta verið með oss í gær en þeir spiluðu fyrr um kvöldið í Keflavík áður en þeir örkuðu í bæinn til að spila á þessum tónleikum. Settið þeirra var æðislegt, eldhresst og skítugt paunkið kom öllum viðstöddum í gott skap og fékk ég meira að segja beiðni frá Bellys um að spyrja þá hvort þeir gætu lengt settið sitt. Eldhressir heiðurspiltar og ánægjulegt að þið gátuð verið með okkur!
Síðasta band kvöldsins, Atrum, hafði ég sérlegan áhuga á að sjá, enda missti ég af þeim á Eistnafluginu í ár svo ég hafði ekki séð þá spila síðan á Andkristnihátíðinni í fyrra. Þeirra tónlist fellur mér afar vel að skapi og það var algerlega mastúrbatískt að sjá sveitina hakka í sig lag eftir lag og skila því til áhorfenda með hreint ofsalegum krafti. Settið þeirra í gær var algerlega magnað og luku tónleikunum á afar viðeigandi og brutal hátt.
Meðlimir hljómsveitanna sem spiluðu í gær, þið fóruð fram úr öllum mínum væntingum og það var frábært að vinna með ykkur. Ég sendi ykkur öllum risastóra heiðursskál og vona að vinna með ykkur öllum aftur í náinni framtíð!
Ég þakka öllum sem mættu til að gleðjast með okkur á þessum upphitunarviðburði fyrir komandi Andkristnihátíð og get ég lofað því að hún verður ennþá stærri og betri!