Nocturnus - 1987 - 1992 Ég skrifaði plötudóma um The Key og Thresholds á Töfluna og þeir urðu heldur ítarlegri en ég í raun lagði upp með, svo mér datt í hug að birta þá hérna líka.

Upphafið + The Key

The Key - Cover

Árið er 1990, dauðarokkið er í algleymingi og sveitir eins og Deicide, Cannibal Corpse, Obituary, Morbid Angel, Death, Morgoth, Pestilence og Entombed hafa tröllriðið þungarokkssenunni svo um munar. Harðskotið dauðarokk úr öllum heimshornum er farið að fanga athygli fjöldans. Á þessum tímapunkti bar einnig á einstaka sveitum sem ákváðu að halda sínar eigin leiðir í dauðarokkinu. Disharmonic Orchestra og Pungent Stench frá Austurríki voru alveg sér á báti í sínum pælingum, Atheist frá Bandaríkjunum komu öllum á óvart með sinni fyrstu plötu, Piece of Time, en þar var á ferðinni afar framsækið dauðarokk þar sem valinn maður var í hverju rúmi og tæknilegir hæfileikar þeirra á hljóðfærin voru settir í forgrunn. Dauðarokkið var tekið að þróast í margvíslegar áttir á þessum tíma og afar spennandi var að heyra í nýjum böndum því margvísleg áhrif og tónlistarlegur bakgrunnur meðlima var farinn að hefja sig upp á yfirborðið.

Enter Nocturnus. Sveitin var stofnuð árið 1987 af Mike Browning, fyrrum trommuleikara og einum af stofnendum Morbid Angel í kjölfar þess að fyrra band hans, Incubus, hafði verið leyst upp. Gino Marino, sem spilað hafði með Browning í Incubus og fyrrum bassaleikari Agent Steel, Richard Bateman voru stofnmeðlimir ásamt Browning en þetta þríeyki hóf lagasmíðar undir nafni Nocturnus. Skömmu síðar var öðrum gítarleikara að nafni Vincent Crowley bætt inn í sveitina. Þetta fyrsta lineup Nocturnus tók upp eitt demó sem gefið var út 1987 sem bar nafn sveitarinnar en skömmu eftir útgáfu þess, hætti Crowley í sveitinni en hann stofnaði hljómsveitina Acheron í kjölfarið. Í stað Crowley, var 18 ára gamall drengur að nafni Mike Davis fenginn í staðinn, en hæfileikar hans á gítarinn þóttu slíkir að hann var kallaður undrabarn. Bateman hætti síðar sama ár til að ganga til liðs við Nasty Savage en þá tók við stutt tímabil þar sem lítið gerðist hjá sveitinni. Með tilkomu Jeff Estes á bassa og hljómborðsleikara að nafni Louis Panzer árið 1988 þá fóru hlutirnir að rúlla á ný. Tónlist hljómsveitarinnar fékk á sig nýjan sci-fi framtíðarblæ sem Panzer skóp með hljómborðunum en það gerði Nocturnus einstaka innan dauðarokkssenunnar á þessum tíma. Síðar sama ár, gerði þetta lineup demóið The Science Of Horror sem nú telst sem alger klassík en það jók hróður og umtal sveitarinnar til muna. Gino Marino hætti í sveitinni árið 1989 og við hans stöðu tók nágranni og æskuvinur Mike Davis, Sean McNenney sem þótti engu síðri gítarleikari en Davis. Með þessa tvo framúrskarandi gítarleikara innanborðs urðu lagasmíðar Nocturnus stöðugt tæknilegri og flóknari sem jók áheyrendahóp þeirra töluvert. Að mestu má þakka vináttu Davis við Trey Azagthoth úr Morbid Angel að Nocturnus fékk samning við Earache í Englandi síðar það ár og hófu þeir fljótt upp úr því upptökur á fyrstu plötu sinni í Morrisound Studios þar sem sjálfur Tom Morris sat við takkana.

Undead Journey
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=18w8LxUC0kU

Fyrsta plata Nocturnus fékk titilinn The Key og kom hún út á því herrans ári 1990. Platan var stútfull af þá óþekktum elementum innan dauðarokksins en heildarþemað var occult/sci-fi, þar sem áhugamál Browning og Davis komu saman í eitt. Gítarparið Davis og McNenney fara hreint á kostum á plötunni þar sem riffin þeirra og sólóspil hreinlega skjóta eldglæringum á köflum í svaðalegu samspili. Hljómborð Panzer demba svo massífu dauðarokkinu ofan í stafrænt hyldýpi í epískum undirleik við gítarana. Trommuleikur Browning heldur að lokum flókinni og afar teknískri tónlist plötunnar á tánum á mjög óhefðbundinn hátt og margir rhythmakaflanna eru afar frumlegir og listavel spilaðir. Það sem fæstir vita hins vegar um The Key er að þetta er concept plata, þar sem rakin er saga vélmennis sem ferðast aftur í tímann til ársins 0 BC í þeim tilgangi að eyða kristinni trú. Textinn við lagið „Destroying The Manger“ ber þess einmitt vitni en þetta lag varð nokkuð umdeilt meðal trúarhópa í Bandaríkjunum í kjölfar útgáfu plötunnar.

Destroying The Manger
Following the North Star shining abright
To a place of the holy birth site
Craving my need to kill the one
Born of the name“Nazarene Son”

Destroy The Manger
DIE~BY~THE~SIGN~OF~THE~KEY
DIE~BY~THE~SIGN~OF~THE~KEY


Now that I have you into my sights, Nazarene child
Pulling the trigger with no reconcile
Blasting away Father, Mother, and Child
Laughing hysterically all of the while

Destroying The Manger
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=WDv431ctlOU

Mike Browning syngur einnig þessa plötu ásamt því að tromma hana, söngrödd hans er afar sérstök en hásir miðjutónar hans passa frábærlega við heildarþema plötunnar. Eins notar hann ískalda og vélræna effekta í sumum söngköflum sem gera frásögnina í textunum enn skemmtilegri og trúverðugri. Einnig má geta þess að Kam Lee, fyrrum söngvari Mantas/Death og þáverandi söngvari Massacre syngur bakraddir á plötunni. Meðan á upptökum á plötunni stóð, átti Jeff Estes við mikinn áfengisvanda að stríða sem kom verulega niður á hans hæfileikum svo það endaði með að Mike Davis spilaði nánast allan bassa á The Key en Estes var rekinn sökum þessa skömmu eftir að upptökum lauk.

The Key náði því að verða smellur innan dauðarokksgeirans þrátt fyrir að vera algerlega einstakt verk innan hans og hefur selst í dag í um 100.000 eintökum á heimsvísu. Lög eins og „Standing In Blood“ og „BC/AD“ (Before Christ/After Death) urðu nánast að instant klassíkerum meðal dauðarokkara og enn í dag eru plötur Nocturnus að heilla nýja kynslóð dauðarokkara líkt og þær gerðu á gullaldarárunum. Fyrir mér hefur Nocturnus ávallt verið sú sveit sem ruddi nýjar leiðir fyrir dauðarokkið og þeirra plötur eru algerlega tímalaus meistaraverk sem munu ávallt vera í hávegum höfð á mínum bæ.

Nocturnus - 1990

Nocturnus Live in Brooklyn 22. mars 1991

Nocturnus - The Key @ Mediafire

Nocturnus - The Key - Front
Nocturnus - The Key - Back

Plötudómur Harðkjarna
Nocturnus - The Key
(1990) - [Skoða]

Thresholds

Thresholds - Cover

Árið 1992 er ásamt 2007 án nokkurs efa besta útgáfuár í sögu þungarokksins samkvæmt mínum kokkabókum. Slíkur var fjöldinn af frábærum plötum sem út kom það árið að það verður seint talið annað en af epískum skala.

Bandaríska dauðarokkshljómsveitin Nocturnus gaf út aðra plötu sína þetta ár sem fékk titilinn Thresholds. Þeir höfðu komið aðdáendum þessarar tónlistarstefnu á óvart með fyrstu plötu sinni, The Key, árið 1990, en hljómsveitin fór sannarlega ótroðnar slóðir með tónlist sinni og opnaði í raun nýjan heim fyrir mörgum okkar. Satanískur vísindaskáldskapur var þeirra þema og dauðarokkið sem þeir skópu var afar framsækið, teknískt, ruddalegt og hljómborðs- og effektablandað út í ystu æsar sem á þeim tíma var nánast óþekkt fyrirbæri. Stofnandi Nocturnus, Mike Browning, sem þá þegar var frægur fyrir að hafa verið fyrsti trommari Morbid Angel, höndlaði upphaflega söngskyldur sveitarinnar og sá um þær á The Key. Nocturnus voru sannarlega brautryðjendur á sínu sviði og það hafa margir hermt eftir þeim síðan.

Aquatica
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=pt7tVSmkenQ

Með útgáfu Thresholds, þá fóru Nocturnus miklu lengra út í vísindaskáldskap en á The Key, Satanisminn sem hafði verið undirtónn hennar var að miklu leiti horfinn úr textasmíðum, sem má að miklu leyti skrifast á að Mike Browning var ekki eins virkur í lagasmíðum sveitarinnar. Sean McNenney og undrabarnið Mike Davis, gítarleikarar sveitarinnar sáu að mestu um lagasmíðar ásamt Louis Panzer hljómborðsleikara, enda er Thresholds miklu framsæknari en forveri sinn í lagasmíðum, hljóðblöndun, textum og heildarþema. Sú ákvörðun var einnig tekin í kjölfar tónleikaferðalags sveitarinnar eftir að The Key kom út að ráða söngvara í sveitina. Ástæðan fyrir því var tvíþætt: Í fyrsta lagi gat Mike Browning þá einbeitt sér algerlega að trommuleiknum, en í öðru lagi sökum þess að Earache lofaði að gera tónlistarmyndband með sveitinni ef þeir fengu sér frontmann. Dan Izzo, sem sungið hafði með hljómsveitinni Tortured Souls, var ráðinn til að sjá um söngskyldurnar, en hann var með mun dýpri og hreinni rödd en Browning sem passaði virkilega vel inn í nýjar áherslur þeirra í tónlistinni.

Alter Reality HAHA!! Ég fann helvítið!! Eina offisjal vídeóið þeirra.
Alter Reality @ Dailymotion

Thresholds er tónlistarlega fullkomin svo margan hátt. Flóknar útsetningar laganna samspilast ótrúlega vel við stórkostlega epískar melódíur og tæknilegur hljóðfæraleikur meðlima, sérstaklega vinna gítarsnillinganna McNenney og Davis bakkað af flóknum taktbreytingum Browning sem á þessari plötu sýnir hreint stórkostlega tilburði, gerir plötuna að því meistaraverki sem hún sannarlega er. Lögin „Aquatica“ og „Subterranean Infiltrator“ hafa löngum verið uppáhaldslög mín með Nocturnus. Þau eru bæði afar teknísk og melódísk en Thresholds býður einnig upp á mun þyngri pælingar, eins og í „Tribal Vodoun“ og „Alter Reality“, þar sem tónlistin dansar upp og niður alla tón- og hraðaskala í afar flóknum útsetningum. Ég hef sagt það áður og ég stend við það, en gítarleikarnir Davis og McNenney, eru ásamt Cerrito og Hobbs úr Suffocation, albesta gítarduo sem dauðarokkið hefur gefið okkur. Gítarleikur þeirra á Thresholds jafnast fyrir mína parta algerlega á við að hlýða á Mark Knopfler og Stevie Ray Vaughan, ekki eingöngu sökum tæknilegra hæfileika heldur set ég samspil þeirra mun hærra, það eru kaflar á plötunni þar sem þeir taka sitthvorar melódíurnar ofan á hvorn annan sem hreinlega lyfta mér úr stólnum af einskærri lotningu. „Arctic Crypt“ er eitt þessara laga og ósjaldan er því skellt á í mínum híbýlum og hljóðstyrkur settur vel yfir það sem eðlilegt telst, nágrönnunum til mikillar ánægju.

Subterranean Infiltrator
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=xk-Oy8Acqvs

Þið sem ekki hafið heyrt þessa plötu, verðið ykkur út um hana sem allra fyrst því hér er á ferðinni einn af hornsteinum dauðarokksstefnunnar, þessi plata er einn af óslípuðum demöntum þungarokksins og mesta furða hvað þungarokkarar þekkja lítið til hennar.

Nocturnus - Thresholds @ Megaupload

Plötudómur Harðkjarna
Nocturnus - Thresholds
(1992) - [Skoða]