Ég fór nýlega og keypti mér Coldplay diskinn “Parachutes”. Ég verð að segja, þetta er frábær diskur! Þau ykkar sem eiga hann eru örugglega sammála mér. Textarnir eru ágætir og lögin góð, frekar einföld, en söngurinn er stórkostlegur! Rödd söngvarans (hvað heitir hann eiginlega?) er mjúk og blíð og bætir vel upp það sem ef til vill vantar upp á í lögunum og textunum.
Eins og ég sagði áður eru lögin frekar einföld en ég myndi þó ekki segja að það væri slæmt. Vegna þess að þegar lögin eru einföld einbeitir maður sér kannski meira að því að hlusta á söngvarann og þar sem söngurinn er mjög góður og eftirtektarverður mynda lögin á disknum skemmtilega og eftirtektarverða heild.
Mér persónulega finnst lögin “Don´t panic, Trouble, High speed, Shiver og Parachutes” mjög góð að öðrum lögum disksins ólöstuðum. Það er mjög erfitt að flokka nokkur lög undir skilgreininguna “bestu lögin” þar sem þau eru flest mjög ólík og höfða til mismunandi þátta í manni. Lögin eru öll mjög góð og vel úthugsuð og ég er algjörlega sammála því sem ég heyrði einhversstaðar að diskurinn batnar við hlustun.
En ég er búin að vera að velta einu mikið fyrir mér sérstaklega eftir umræðurnar um “hvað er Metall” hérna á Huga. Undir hvaða tónlistarform flokkast Coldplay? Það væri fínt að fólk sem hefur vit á þessum málum myndi nú leggja hausinn rækilega í bleyti og leggja svo sitt til málanna hér fyrir neðan.

*Veela*