ROTTING CHRIST Í MÁLI OG MYND(BÖND)UM Rotting Christ Logo

Í tilefni af tónleikatvennu kappanna hér á landi í ágúst þá er hér umfjöllun um feril þeirra og ætla ég að stikla á stóru yfir það helsta sem þeir hafa unnið sér til frægðar ásamt stuttum umfjöllunum um plöturnar þeirra sem nú eru orðnar 10 talsins.

Sveitin var stofnuð í Aþenu í Grikklandi árið 1987 af bræðunum Athanasios (Sakis) Tolis á gítar/söng og Efthimios (Themis) Tolis á trommum ásamt Jim Patsouris sem mundaði bassann, en þeir birtust þá undir sviðsnöfnunum Necrobutcher, Necrosauron og Mutilator.

Rotting Christ 1991

Fyrstu 2 árin sem sveitin æfði spiluðu þeir einskonar death/grindcore og út láku nokkur demó og split með böndum frá sama svæði. Þetta telja þeir sjálfir ekki til raunverulegra útgáfa þar sem þetta er tekið upp á æfingum og því segja þeir að sveitin hafi í raun orðið til árið 1989 þegar „Satanas Tedeum“ demóið þeirra kom út. Á henni eru töluverð áhrif frá forsprökkum Black Metalsins, sveitum á borð við Bathory og Venom með occult/gothic áhrif frá Celtic Frost og urðu þar með í kjölfarið einir frumkvöðla „Second wave of Black Metal“ stefnunnar.

Statanas Tedeum Cover
Passage To Arcturo Cover

Þróun mála í Noregi á þessum árum hafði ekki fram hjá þeim og það kom klárlega í ljós með tilkomu „Passage To Arcturo“ EP plötunnar árið 1991 er þeir tóku skrefið að fullu inn í svartmálminn, þó má segja að Rotting Christ hafa ávallt verið í jaðrinum á þeirri stefnu þar sem occult/gothic áhrifin hafa ávallt verið til staðar.

Thy Mighty Contract Cover

Fyrsta stóra plata Rotting Christ, „Thy Mighty Contract“ kom út í nóvember 1993, heilu ári eftir að upptökum hennar lauk. Deathlike Silence útgáfufyrirtæki Øystein (Euronymous) Aarseth úr Mayhem, hafði sýnt mikinn áhuga á að gefa plötuna út, en morðið á honum í ágúst 1993 varð til þess að þeir skrifuðu undir samning við Osmose Productions í Frakklandi sem þá hafði bönd eins og Immortal, Marduk, Blasphemy, Samael og Impaled Nazarene á sínum snærum.

Magus Wampyr Daoloth (George Zaharopoulos aka Morbid) úr Necromantia tekið að sér hljómborðsskyldur og bakraddir í sveitinni fyrir upptökur á „Thy Mighty Contract“ en á henni mótast klárlega þeirra eigin stíll innan svartmálmsins. Norsku sveitirnar voru á þessum tíma búnar að þróa sinn eigin stíl þar sem keðjusagarriff og hraðir og hráir taktar (í hræðilega vondu soundi ), réðu ríkjum en Rotting Christ sóttu í stað þess áhrif úr heavy metalnum í gítarriffin sín og melódíur sbr. „Transforming All Suffering Into Plagues.“ Hljómborðsleikur Magus færði svo tónlistinni þeirra þau occult/gothic áhrif sem einkennir þá enn í dag. Þess má einnig geta að við upptökur á þessarri plötu og „Non Serviam“ þá var notast við trommuheila sem að mínu mati koma á engan hátt niður á gæðum tónlistarinnar.

Platan hlaut virkilega góðan hljómgrunn meðal svartmálms- og dauðarokksaðdáenda víða og setti Rotting Christ í fararbrodd grísku svartmálmssenunnar ásamt Necromantia og Varathron. Þrátt fyrir það þá hlaut hún aldrei vinsældir á borð við norska svartmálminn og telst enn „cult“ plata í senunni. Þetta var fyrsta platan sem ég eignaðist með sveitinni árið 1994 en hana fann ég í verslun Voices of Wonder í Osló sem einmitt dreifðu útgáfum Deathlike Silence. Hún fékk töluverða spilun hjá mér og er enn ein af mínum uppáhaldsplötum þrátt fyrir að ég hafi meiri mætur á nýrra efni þeirra.

Í kjölfar útgáfunnar þá fóru þeir af stað í fyrsta raunverulega Svartmálmstónleikaferðalagið „Fuck Christ Tour“ ásamt Immortal og Blasphemy sem einnig voru á samningi hjá Osmose og var sú tónleikaferð afar umdeild þar sem fjölmargir tónleikagestir enduðu á sjúkrahúsi sökum þess að skera sig og afskræma á ýmsan hátt.

Non Serviam Cover

Uppúr sauð í samstarfi Osmose og Rotting Christ skömmu seinna og kom því önnur plata þeirra „Non Serviam“ út á gríska Unisound Records sem komu með besta tilboðið árið 1994. Plötunni var ruslað gegnum upptökuferilinn sem orsakar, (að mati Rotting Christ), ófullnægjandi hljóðblöndun þrátt fyrir að unnendur svartmálmsins, að mér meðtöldum gefi henni afar góða dóma. Hún ennfremur undirstrikaði áherslubreytingar í tónlist þeirra í átt að meiri black/gothic stíl en þó á hún kraftmikla svartmálmsslagara eins og „The Fifth Illusion.“ Titillag plötunnar er líka oftast tekið sem lokalag tónleika þeirra enn í dag. Unisound klúðraði algerlega promotion á plötunni og héldu fjömargir aðdáendur sveitarinnar vestanhafs sem þeir höfðu eignast eftir „Thy Mighty Contract,“ að hún hefði hreinlega lagt upp laupana þar sem platan var aldrei fáanleg þar þangað til The End Records endurútgaf hana árið 2006. Þrátt fyrir það þá ferðaðist Rotting Christ fyrir tilstilli Sakis til Mexíkó í apríl 1995 þar sem yfir 2000 aðdáendur mættu á tvenna tónleika þar. Undrandi á þessu viðmóti Unisound þá tóku þeir upp ný lög á demó sem þeir sendu til bæði Nuclear Blast og Century Media. Century Media bauð þeim 6 plötu samning sem skrifað var undir. Er þarna var komið hafði Magus sagt skilið við sveitina þar sem hann átti ekki samleið tónlistarlega með Rotting Christ lengur.

Triarcy Of The Lost Lovers Cover

„Triarchy Of The Lost Lovers“ kom út í ágúst 1996 og var tekin upp af Andy Claasen úr Holy Moses. Í fyrsta sinn ferðaðist sveitin erlendis til að taka upp og Themis spilaði inn trommurnar í stað trommuheila sem nýttur var við á upptökur 2 síðustu platna. Á þessarri plötu fjarlægja Rotting Christ sig enn frekar frá svartmálmsuppruna sínum yfir í black/gothic stílinn án þess þó að missa „aggression“ úr músíkkinni. Á tveggja mánaða tónleikaferð sveitarinnar ásamt Samael og Moonspell um sumarið var Sakis einn á ferð sökum þess að Jim og Themis komust ekki með sökum persónulegra ástæðna. Jim hafði átt í verulegum persónulegum vandamálum heima fyrir ásamt því að plötubúð hans, Metal Era í Aþenu, var farin að taka verulegan toll af tíma hans en það leiddi endanlega til brotthvarfs hans úr sveitinni. Meðal þeirra sem í förum var með sveitinni sem sessionleikarar, var gítarleikari að nafni Kostas Vassilakopoulos, sem svo ráðinn var í kjölfarið sem annar gítarleikari sveitarinnar. Þeir spiluðu í 14 löndum á ferðalaginu, komu fram á Out Of The Dark Festival með Theatre of Tragedy og Gorefest, hátíðum í Hollandi og Belgíu með Amorphis og Therion, Tékklandi og Póllandi með Immolation og Cannibal Corpse og Hell on Earth í Skandinavíu. Tónleikaferðin var afar vel heppnuð og hróður sveitarinnar aukist til muna. Í byrjun ársins 1997 var svo Andreas Lagios ráðinn sem nýr bassaleikari í þann mund er hafist var handa við að skrifa nýtt efni fyrir næstu plötu.

A Dead Poem Cover

Af mörgum talin mest commercial plata Rotting Christ á þeirra ferli, „A Dead Poem“ kom út í ágúst 1997. Hún var tekin upp og framleidd af Xy úr Samael en hann spilaði einnig á hljómborð á henni ásamt nýjum hljómborðsleikara þeirra að nafni Panayotis. Tvö fyrstu lög plötunnar „A Sorrowful Farewell“ og „Among Two Storms“ komust á vinsældarlista í Grikklandi og gerðu það einnig gott víða um Evrópu. Gamla svartmálmslógó sveitarinnar er látið víkja fyrir nýju „gothic“ letri og platan fékk víða hljómgrunn meðal þungarokksunnenda utan dauða- og svartmálmssenunnar. Sviðsnöfnin voru einnig látin fjúka þar sem þau pössuðu engan veginn inn í nýjar áherslur sveitarinnar. Allt þetta fór mikið fyrir brjóstið á eldri „die-hard“ aðdáendum sem fannst að Rotting Christ hefði yfirgefið rætur sínar í svartmálminum. Margar perlur eru á þessarri plötu að mínu mati ásamt fyrstu 2 lögunum, til að mynda titillagið „A Dead Poem“, „As If By Magic“, „Semigod“ og „Ira Incensus“. Sveitin lagði svo upp í sinn fyrsta headline tour ásamt Old Man‘s Child og Sacramentum og var ferðast um 12 lönd. Seinni tónleikaferð þeirra var svo með Tiamat áður en farið var að huga að næstu plötu. Hljómborðsleikarinn Panayotis sagði starfi sínu lausu síðla árs 1997 og við starfinu tók Georgios Tolias rétt áður en upptökur hófust.

Sleep Of The Angels Cover

Í mars 1999 kom „Sleep of the Angels“ út, Xy var enn við takkaborðið og hann fjármagnaði hana einnig ásamt Sakis. Á þessarri plötu ber örlítið meira á svartmálmi en á „A Dead Poem“ og var hann af symfónískum toga þar sem hljómborðsharmóníur ráða meira ríkjum einnig. Platan er dimm og drungaleg og lagasmíðarnar af rólegri gothic toga. Inn á milli taka þeir þó svartmálmsspretti eins og í „The World Made End“ sem svipar meira til fyrstu platna sveitarinnar. Eins eiga þeir lög á henni eins og „Cold Colors“, „Der Perfecte Traum“ (The Perfect Dream), „After Dark I Feel“ og „Sleep The Sleep of Angels“ sem gera hana að þeirri frábæru þungarokksplötu sem hún er. „After Dark I Feel“ var einnig skotið sem þeirra fyrsta commercial vídeó á ferlinum. Aðdáendahópur Rotting Christ víkkar enn frekar með þessarri útgáfu en henni var tekið vel víða, sérstaklega af þýskum aðdáendum. Í kjölfar hennar lagði Rotting Christ upp í tónleikaferðalag um heiminn, fyrst um Evrópu með Deicide, Ancient Rites, Aeternus og Behemoth og síðan til Bandaríkjanna þar sem ferðast var til helstu borga þar. Eins tóku þeir S-Ameríku fyrir en þar átti sveitin miklu fylgi að fagna, sérlega í Mexíkó, Brasilíu og Kólumbíu.

After Dark I Feel @ YouTube

Khronos Cover

„Khronos“ (sem upphaflega átti að heita Chronos 666), kom út sumarið 2000. Plötuumslag plötunnar ber Krist hálfrotnaðan á krossinum sem skírskotun til nafns sveitarinnar og er hér er við sögu komið hafa Rotting Christ fengið Peter Tägtgren (Hypocrisy) og Abyss Studios í lið með sér. Tónlist hennar tekur mörg spor tilbaka og er svartmálmurinn í fyrirrúmi á henni mörgum eldri aðdáendum sveitarinnar til mikillar ánægju. Magus Wampyr Daoloth hafði samþykkt að koma að gerð hennar sem svo ekkert varð af sökum anna. Hún opnar með hvelli á laginu „Thou Art Blind“ sem er hrátt og hratt og mun þyngra í vöfum en tónlistin á síðustu 2 plötum. Ennfremur eru lög á henni eins og „Aeternatus“ og „Glory Of Sadness“ sem undirstrika þetta afturhverf til upprunans. Á henni er einnig að finna cover af lagi Current 93, „Lucifer Over London“ sem þykir bera industrialkeim í útsetningu þeirra. Mitt uppáhald af henni er þó lagið „Art Of Sin“ sem er í anda „A Dead Poem“ og „Sleep Of The Angels“. Enn var lagt af stað í stórt tónleikaferðalag, en Rotting Christ hafa ávallt verið afar duglegir við að ferðast og hafa þeir spilað á óhefðbundnum stöðum eins og Kólumbíu, Brasilíu, Perú, Möltu, Síberíu, Moldóvu, Mexíkó og Tyrklandi. Með í headlining ferð um Evrópu í þetta skiptið voru Vintersorg, Madder Mortem og Tristania. Sveitin dregur sig svo í hlé frá tónleikahaldi í júlí 2001 og hverfur inn í Stage One Studios, þar sem „Triarchy Of The Lost Lovers“ var tekin upp og Andy Classen fenginn aftur við stjórnvölinn. Næsta 1 og hálfa árið einbeitir sveitin sér algerlega að lagasmíðum og upptökum.

Genesis Cover

Mörgum brá í brún er „Genesis“, áttunda stúdíóplata þeirra kom út síðla árs 2002 en plötuumslagið skartaði gamla svartmálmslógóinu þeirra og yfirbragð plötunnar í heild afar keimlíkt „Thy Mighty Contract“. Skerandi gítarhljómur og hröð svartmálmslög spýttust úr hljómflutningstækjum áheyrenda. Ljóst var öllum sem hlýddu að Rotting Christ voru sannarlega komnir tilbaka í upphafið, extreme svartmálmur af hæsta gæðaflokki. Það má líka segja að á þessarri plötu hafi upphafið af þeirri epísku black/gothic stefnu tónlistar sem þeir skarta í dag hafi orðið til. Platan er hröð og gríðarlega þung, lög á borð við „Daemons“, „Lex Talionis“ og „In Domine Sathana“ eru svartmálmsslagarar en inn á milli koma mid-tempo hausbrjótarnir „Quintessence“, „Nightmare“ og „Dying“. Hún fékk mikinn lofsöng gagnrýnenda víðsvegar í metalpressunni sem margir hverjir voru ekki nógu ánægðir með „Khronos“. Á tónleikaferð sveitarinnar um Pólland árið 2003 var ráðist í að filma tónleika þeirra sem svo voru gefnir út á DVD disknum „In Domine Sathana“. Eftir að tónleikaferð þeirra lauk þá sögðu Georgios Tolias og Kostas Vassilakopoulos skilið við sveitina og stóðu þeir því einungis 3 eftir í hljómsveitinni er lagasmíðar og upptökur hófust af næstu plötu.

Sanctus Diavolos Cover

Níunda plata Rotting Christ, „Sanctus Diavolos“ leit dagsins ljós í september 2004. Hún var tekin upp og fjármögnuð algerlega af Sakis sem nú hafði alfarið tekið við stjórntaumunum ásamt því að hann leikur öll hljómborð á henni einnig. Þar sem svartmálmsaðdáendur höfðu fengið nýja vonarglætu frá sveitinni með útgáfu „Genesis“ þá styrkti þessi plata það enn frekar því hún er án nokkurs vafa ofbeldisfyllsta plata Rotting Christ frá upphafi. Allt frá blóðstorknandi öskri Sakis í byrjun „Visions Of A Blind Order“ að lokatónum hennar eru áheyrendum rennt gegnum hið illa, skornir og skældir skreiðast þeir upp til að anda á milli laga en er jafnharðan steypt í hakkavélina aftur. Lög eins og „Athanatoi Este“, „Thy Wings, Thy Horns, Thy Sin“ og „You My Cross“ undirstrika illskuna í lagasmíðunum, kórsöngur og ambient hljóðgervlar gera þessi lög að hreint gæsahúðarvekjandi meistarastykkjum. „Serve In Heaven“, „Doctrine“ og ískalda industrial lagið „Tyrannical“ sveifla áheyrendum upp og niður allan skalann í extreme metal tónlistinni. Lokahnykkurinn á skífunni, titillagið „Sanctus Diavolos“ er svo uppáhaldslag mitt allra tíma. Drunginn og illskan í lagi, texta og tilfinningu er ólýsanleg. Áður en tónleikaferð þeirra hófst í kjölfar útgáfunnar var George Bokos, gítarleikari grísku gothicmetal sveitarinnar Nightfall fenginn til að toura með þeim. Fyrir þá sem ekki vita þá kemur George Kollias, trommari Nile einnig úr þeirri sveit. Fyrir stafni stóðu stór tónleikaferðalög um Evrópu með meðal annars Vader, Anorexia Nervosa og Lost Soul. Eftir að ég heyrði þetta meistaraverk þá var nokkuð ljóst að erlendis ætlaði ég að sjá þessa sveit í fyrsta sinn. 15. september 2005 náði ég þeim svo í Osló ásamt fyrrnefndum sveitum en Vader voru headliner á þessum tour sem bar nafnið Blitzkrieg3. Er Rotting Christ steig á svið og renndi í „Visions Of A Blind Order“ þá upplifði ég kraftinn í þessu bandi fyrir alvöru í fyrsta sinn. Öll hljómborð eru í dag á playback hjá þeim og færir sveitinni ótrúlega magnað atmosphere og stærð á sviði miðað við önnur bönd úr sama geira. George Bokos var ráðinn sem nýr gítarleikari Rotting Christ í kjölfar tónleikaferðalagsins en ekki mun nýr hljómborðleikari verða ráðinn í sveitina.

Theogonia Cover

Nokkuð ætti Töflubúum að vera orðin ljós hrifning mín af 10. plötu kappanna sem fékk nafnið „Theogonia“ en hún kom út í lok janúar 2007. Ég hripaði upp plötudóm um hana um leið og ég hlustaði á hana í fyrsta sinn og er hann til hér á Harðkjarna. Rotting Christ – Theogonia 2007.

Keravnos Kyvernitos @ YouTube

Síðan ég skrifaði þennan plötudóm hefur platan nánast aldrei farið úr spilaranum mínum og ég staðfesti orð mín hér með að þetta er besta þungarokksplata sem út hefur komið - EVER. Ég fór svo ásamt misfríðu föruneyti til Kaupmannahafnar í mars og sá Rotting Christ í annað sinn. Þar headlineuðu þeir afar magnaða tónleika og sýndu það og sönnuðu að það er fátt í heimi sem skákar þeim við, bæði á sviði og á plasti. Ég hitti þá að máli á tónleikunum og upp kom sú hugmynd að þeir kæmu hingað og spiluðu fyrir okkur Íslendinga. Þar sem það er ROKK að framkvæma og LUMMÓ að naga sig í handarbökin, þá hef ég, eins og komið er fram, boðið þeim hingað og munu þeir spila tvenna tónleika hér í lok ágúst.

Hér er smakk af tónleikunum sem við sáum í Köben.
(Við Gísli erum vinstra megin, fyrir framan Andreas og Agli er á klósettinu)

Athanatoi Este @ The Rock 13.3.2007

Enuma Elish - Turkey Tour April 2007

VERÐUR ÞÚ Á STAÐNUM?!

ROKK!!