Blackmetalsaga mín Þar sem ég er veikur heima hef ég ekkert annað að gera en að skrifa greinar.

Mig langar að skrifa um ástæður þess að ég byrjaði að hlusta á blackmetal, og hvað fékk mig til þess.

Jæja ef við byrjum einhversstaðar þá gæti ég til dæmis sagt frá því að ég byrjaði strax mjög ungur að hlusta á hardcore og metal. Frændi minn hlustar mikið á þetta og var duglegur við að gefa mér diska og taka mig með á tónleika. Yfirleitt hélt ég á veskinu hans og gemsanum og öllu saman svo hann gæti farið í pittinn. Mér fannst andrúmsloftið í kringum þessa tónlist og tónleikana sem henni fylgdi strax vera mjög heillandi.

Þegar ég var 7 ára keypti ég mér minn fyrsta geisladisk. Ég man nákvæmlega eftir þessu.
Ég fór með mömmu í skífuna í kringlunni og sagði við afgreiðslustrákinn; “áttu eitthvað þungarokk”, og hann glotti.

Hann benti mér á tvær hljómsveitir, ég er búinn að gleyma hver ein þeirra var, en eg giska á að það hafi verið Iron Maiden. Allavega þá keypti ég mér load með Metallica, og hafði mikið gaman af. Hágæða þungarokk, þó svo að margir Metallica aðdáendur hati þennan disk.

Þegar ég var kominn í 7unda eða 8unda bekk, gat ég farið að fara á tónleika sjálfur, og þá fór ég aðallega á hardcoretónleika með böndum eins og I adapt, því að stemningin þar er fáránleg. Miklu meiri heldur en eitthvað vindmylluslamm. Morspittur og stagedive og þvílík innlifun hjá áhorfendum.

Ég man vel eftir einum tónleikum í hinu húsinu, þar sem frændi minn sagði við mig; “Jæja Raggi bíddu þangað til að þú ert orðinn svona 16 ára, þá geturðu farið í pittinn án þess að meiða þig”. Þegar hann var farinn í pittinn setti ég draslið hans í gluggakistuna, klifraði upp á hana og hoppaði beint inn í miðjuna og sleppti mér algerlega. Það var rosaleg upplifun fyrir mig, útrásin var alger!
Eftir tónleikana hrósaði frændi minn mér og ég var mjög stoltur af að þessi uppáhaldsfrændi minn væri ánægður með mig.

Jæja hoppum nú beint upp í 10unda bekk. Þarna var ég byrjaður að hlusta á allskonar metal, búinn að mynda mér skoðanir, og búinn að kaupa mér ýmisskonar diska upp á eigin spítur. Þarna hlustaði ég t.d. mikið á hatebreed og fleiri góða félaga.

Ég hékk hérna á huga eins og núna og gat aldrei skilið fólkið sem talaði um grindcore og black metal. “Hvernig er hægt að fíla svona trommur, bara snerill snerill snerill og ekkert annað, gítarinn spilaður eins hratt og hægt er og oft óskiljanlegur”.

Svona hugsaði ég lengi. En í 10unda bekk rakst ég á hljómsveitina Myrk inni á rokk.is. Þar ákvað ég að prófa nú einu sinni að gefa þessari stefnu innan þungarokks séns og hlustaði á “The spell” allt í gegn einu sinni án þess að hugsa um neitt annað en lagið og passaði mig á að hneykslast ekki strax að laginu. Ég fílaði þetta lag ekkert það mikið þá.

Upp að þessum tíma vissi ég ekki almennilega hvað black metal var. Eftir að ég fór að hlusta á “The spell” á rokk.is (seinna bættist við Nightwinds, sem ég fílaði miklu meira, og In silence), fór ég að pæla í því afhverju menn í black metal hljómsveitum væru að breiða út boðskap sem var á móti öllu því sem stimplað er í okkur frá unga aldri. Á endanum tók forvitnin yfirhöndina.

Ég hafði upp á heimasíðu myrk (www.helviti.com/myrk) og sendi Bjarna (Myrkur) skilaboð um að ég hefði áhuga á að kaupa diskinn þeirra, “Icons of the dark”.

Hann svaraði mér aldrei, emailið hans líklega úrelt, svo ég prófaði að senda email sama efnis á Kobba (aka KobbiMaiden, Gaddur).

Hann svaraði mér strax og ég fór síðan heim til hans og fékk hjá honum diskinn. Ég skrifaðist síðan á við hann í svona 2 vikur eftirá og spurði hann út í allt sem tengdist myrk, og blackmetal almennt. Hvort þeir væru í alvörunni satanískir eða heiðnir og afhverju.

Ég hlustaði á allann diskinn í gegn og þetta var eins og að koma út úr skápnum fyrir mig. Textarnir fjölluðu margir um það sem ég hafði oft hugsað en aldrei þorað að segja. Allt í einu fór ég að fíla þessi blastbeats. Hraður gítarinn varð mér allt í einu innblástur í mínum eigin gítarleik. Þessi tónlistarstefna var sköpuð fyrir mig en ég vissi það ekki fyrr en þá!

Eftir þetta fór ég að hlusta á allann blackmetal af áfergju. Íslenskan blackmetal sérstaklega, þar sem að íslenskur blackmetall finnst mér vera öðruvísi en blackmetall frá öðrum stöðum. Það er einhver andi sem ríkir yfir íslenskum blackmetal, það er að segja ef hann er skapaður af áhuga og ákafa.

Fyrstu mánuðina hlustaði ég aðallega á Myrk, Níðhöggur, Withered (btw farið nú að koma með diskinn á markað), Úlf, Helvíti, og einstaka sinnum á potentiam.

Svo fór ég að feta mig áfram með að kaupa mér diska og sem dæmi má nefna keypti ég carpathian forest og anaal nathrakh diska hjá valda.

Blackmetall er mjög mismunandi. Þú getur hlustað á holocaust black metal eins og Burzum, eða Brutal black metal eins og krisiun. Þeir sem segja að Blackmetall sé allur eins eru eitthvað að misskilja. Prófiði að hlusta t.d. á Xasthur og Krieg og hlustið síðan strax á Myrkskog. Það er mikil fjölbreytni í blackmetal.

Jæja mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því í 10unda bekk. Nú er ég að hefja annað ár mitt í menntó. Ég segi ennþá að íslenskur blackmetall sé bestur (vantar bara meira af honum), en ég á núna nokkuð gott safn af blackmetal. Til dæmis um það sem ég hlusta á í dag þá hef ég verið að hlusta á Keep of kalessin undanfarið, ásamt thy serpent og fleirum. Ég held að ég muni aldrei hætta að fíla Svartmálm.

Ég nenni eiginlega ekki að skrifa meira. Endilega segið frá ykkar skoðunum og sjónarhorni á þessa tónlistarstefnu.
Vó hvar er ég?