mbl.is Forsíða
Innlent | 14.06.2001 | 13:38
Sérstakur viðbúnaður vegna tónleika Rammstein
Hljómsveitin Rammstein kom til landsins í gærkvöldi. Í dag huggðust meðlimir sveitarinnar fara í ævintýraferð um öræfi landsins ásamt fjölskyldum sínum.
Lögregla og slökkvilið verða með sérstakan viðbúnað á tónleikum þýsku hljómsveitarinnar Rammstein í Laugardalshöllinni um helgina. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins verður með fjóra menn inni í húsinu og fyrir utan verður dælubíll og sjúkrabíll með tveimur mönnum í viðbragðsstöðu. Lögregla verður einnig með töluverðan viðbúnað, að sögn Árna Vigfússonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns.
Þetta er meiri viðbúnaður en tíðkast hefur á rokktónleikum í Laugardalshöllinni. „Við erum venjulega með fjóra menn inni í húsi því brunaviðvörunarkerfið er alltaf tekið úr sambandi vegna reykvéla en þetta tilfelli er sérstakt því þeir spila ekki nema þeir fái að hafa eld á sviðinu,“ sagði Hjörtur Gunnarsson, sviðsstjóri í forvarndadeild slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.
Tónleikahaldarar sjá að mestu um gæslu inni en lögregla mun þó fylgjast með gangi mála. „Við verðum með menn utandyra og einhver gæsla verður líka inni í húsinu frá okkur en það sjá tónleikahaldararnir aðallega um,” sagði Árni Vigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn. „Þetta er ívið meira eftirlit en þegar íslenskar hljómsveitir hafa verið þarna með tónleika," bætti hann við.
Tónleikar Rammstein farar fram á föstudags- og laugardagskvöld og varð uppselt á báða tónleikana á örskömmum tíma. Það er skiljanlegt að menn vilji vera við öllu búnir því þessir þýsku þungarokkarar þekktir fyrir uppátæki á borð við það að kveikja í hljóðfærum sínum.