Verksmiðja óttans snýr aftur Svona eins og mögulega einhverjir hafa tekið eftir þá var hljómsveitin Fear Factory að gefa út sína fjórðu eiginlegu breiðskífu, Digimortal að nafni.

Svona til að útskýra bakgrunn minn þá hef ég aldrei á ævinni heyrt nokkuð sem þeir hafa gefið út á undan Demanufacture. Ég heyrði þá plötu fyrst fyrir nokkrum árum og varð alveg heillaður uppúr skónum. Fyrst hélt ég að það væri eitthvað erfðafræðilega breytt ofurmenni sem sæi um trommuleikinn, en komst seinna meir á þá skoðun að þetta væri kannski hægt án slíkrar aðstoðar. Hvað um það, Replica og Self Bias Resistor eru allavega ein af lögum á þessari skífu sem ég þreyttist seint á að hlusta á (það eina er að Dog day sunrise hefði alveg mátt missa sín).

Síðan kom Obsolete, og sú skífa fléttaði aðeins meiri melódíu inn í hljóðið hjá þeim en hélt samt áfram á sömu braut. Melódísku lögin finnst mér standa upp úr á henni, Resurrection er alveg óendanlega magnað lag. Hin lögin eru svona upp og ofan, en þó aðallega ofan (eða upp, fer eftir því hvort orðanna hefur þá merkingu að lögin séu góð). Besta við þá plötu er reyndar hvað hún er góð í heild sinni, hún er nebnilega svokölluð concept plata þar sem það er söguþráður gegnumgangandi út alla plötuna. Burton C. Bell söngvari og textahöfundur spann sumsagt einhverja framtíðar sci-fi sögu þar sem vélarnar hafa tekið yfir heiminn og mannfólkið gerir uppreisn (minnir svoldið á Terminator myndirnar þegar ég fer að pæla í því). Helvíti flott.

Og nú er sumsagt komin út enn ein breiðskífan að nafni Digimortal. Á henni eru þeir piltarnir svosem ennþá við sama heygarðshornið, stíllinn er mjög svipaður og á fyrri tveim skífunum. Myrkir og magnaðir sci-fi textar Burtons eru ennþá á sínum stað, og trommuleikur Herrera fer síst versnandi með árunum. Það er helst að þeir hafi tekið melódíurnar einu skref lengra í mörgum lögum, sem mér finnst í sjálfu sér bara mjög gott mál. Lagasmíðarnar eru mjög fínar margar hverjar, hægt að nefna lögin Damaged og “ballöðuna” (ef það er hægt að tala um það þegar Fear Factory er annars vegar) Invisible Wounds.

Ég hef það samt eiginlega á tilfinningunni að þeir hafi staðnað svolítið, hljóðið er t.d. nákvæmlega eins og á Obsolete. Þeir mættu alveg skipta um upptökumann svona til að gera eitthvað allavega. Síðan er eitt sem er ábyggilega ekki vinsælt hjá öllum og það er Fear Factoriseringen af rappmetali sem birtist í formi lagsins Back the fuck up þar sem B-Real úr Cypress Hill er gestasöngvari. Það sleppur svosem fyrir horn, þetta er ennþá nógu líkt Fear Factory til að maður sætti sig við það. Vona bara að þetta hafi einfaldlega verið tilraun og þeir haldi sig við bárujárnið.

Nú er best að fara að segja þetta gott, enda hef ég það afskaplega mikið á tilfinningunni að Explorerinn eigi eftir að krassa og þetta á allt eftir að fara til andskotans. En sem lokaorð þá er vel hægt að mæla með þessari skífu, svona í þeirri von að þeir þrói sitt sérstaka hljóð enn frekar á næstu plötu.
——————————