Fordómar gagnvart metalhausum Ég var skikkaður til að semja 800 orða grein í fjölmiðlafræði og ákvað að skrifa aðeins um þá fordóma sem maður þarf að mæta ef maður hlustar á góða tónlist. Ég ákvað að skella greininni hérna inn líka svona uppá grínið, njótið vel!



Ekki beygja þig fyrir tískustraumum líðandi stundar, vertu þú sjálfur!


Að vera sjálfstæð persóna í nútíma samfélagi er erfitt. Hvert sem maður lítur eru öfl sem reyna að hafa áhrif á allt sem maður gerir eða hvers konar smekk maður á að hafa. Algengast er sennilega að fólk verði fyrir aðkasti vegna klæðaburðar (og helst það þá oft í hendur við útlit almennt) og tónlistarsmekks, og tónlistarsmekkurinn var einmitt kveikjan að þessari grein. Þegar ég var ungur drengur uppgvötaði ég bestu hljómsveit allra tíma, Queen. Þegar ég var svona í kringum 13 árin og allir hlustuðu á það sem var mest hipp og kúl á þeim tíma hlustaði ég á Queen, og fékk mikið skítkast í staðinn. Það þótti hrikalega gamaldags og hallærislegt að hlusta á einhvern dauðan homma og félaga hans. En mér var bara alveg sama hvað fólki fannst. Að fljóta með fjöldanum er eitthvað sem enginn maður ætti að sækjast eftir. Það má svo til gamans geta þess að með árunum fór fólk nú að átta sig á því hversu mikil snilld var þarna á ferð.

Seinna á lífsleiðinni hef ég haldið áfram að mæta ýmsum fordómum vegna tónlistarsmekks míns, sem hefur þroskast og þyngst. Þungarokk er ekki eitthvað sem fólk tekur með opnum huga. Það er nær undantekningalaust fordæmt sem garg og glamur af fólki sem ekki hefur kynnt sér málið. Ég hef nú aldrei gengið neitt sérlega langt í því að líta út eins og „rokkari,” þ.e.a.s. ekki safnað síðu hári eða keppst við það að ganga í rifnum leðurjökkum eða eitthvað þar fram eftir götunum. Það er nú einfaldlega vegna þess að mér finnst það ekki fallegt, en ég skil hins vegar alveg hugsunarháttinn hjá fólki sem kýs að líta þannig út og virði þá fyrir vikið. Ég hef hins vegar oft tekið mig til og safnað skeggi og það er eitthvað sem fólk er ekki hrifið af! Það þarf mjög sterk bein til að safna skeggi sem ungur maður. Hvar sem maður kemur verður maður fyrir aðkasti frá fólki sem krefst þess að maður raki það af. Hverjum kemur það við nema manni sjálfum hvernig maður lítur út?

En aftur að rokkinu. Fordómar í garð þess er með öllu óþolandi. Lang flestir tengja þungarokk ósjálfrátt við einhverskonar garg. Þegar maður er spurður að því hvers konar tónlist maður hlustar á og kveðst hlusta á þungarokk verður fólk mjög gjarnan furðulegt á svipinn og fussar og sveiar. (Það ber nú samt að taka fram að umburðalyndið er oftast minna eftir því sem fólk eldist.) Það virðist einnig vera mjög algengur misskilningur að þungarokk sé einungis KoRn og Limp Bizkit. „Já, ertu þá að hlusta á þarna Limp Bizkit og þessar hljómsveitir þarna á Popp Tíví?” Þetta er mjög algengt svar frá fáfróðu fólki þegar rætt er um tónlistarsmekk minn. NEI, ég hata Popp Tíví og Limp Bizkit, þetta er hræðilegur misskilningur sem verður að leiðrétta. Limp Bizkit er ekki þungarokk! Þeir sem halda að þeir séu harðir gaurar og hlusta á Limp Bizkit í þeim tilgangi lifa í mikilli blekkingu. Fjöldaframleitt froðupopp er ekki hart.

Tölum aðeins meira um fjöldaframleitt popp og í því samhengi kannski aðeins FM 957. Að ná sér í sómasamlega konu og hlusta á sama tíma á sómasamlega tónlist er ekki auðvelt hlutskipti. Góður félagi minn sagði eitt sinn við mig að ef ég ætlaði einhvern tíman að ná mér í konu yrði ég að gefa þungarokkið uppá bátinn. Sá dagur mun seint koma að ég gefi tónlist uppá bátinn vegna þess að einhver annar krefst þess af mér. Ég meina, „This is being what I am!” eins og segir í laginu (Pantera – Throes of Rejection). Ég ætla bara að vona að fólk sem er í svipaðri stöðu og ég gefist ekki upp. Ekki beygja ykkur fyrir tískustraumum og fólki sem dæmir annað fólk vegna þess að það er ekki alveg jafn mikið inní nýjustu tískunni og það sjálft. Og í guðanna bænum ekki skilja mig þannig að ég hafi einhverja fordóma gagnvart Fm-hnökkum. Ég hef kynnt mér málið gaumgæfilega og byggi skoðanir mínar á fenginni reynslu. Fm-hnakkar eru oft vænsta fólk inn við beinið. Það þarf bara oft einhvern annan til að hugsa aðeins fyrir þá og segja þeim hvað er vinsælast og skemmtilegast hverju sinni.

Nú kannski hugsa sumir: „En á ekki greinarhöfundur svarta Hondu Civic? Hnakka bíl dauðans?” Jú mikið rétt, ég á eina slíka, og skammast mín ekkert fyrir það. Ég fer mínar eigin leiðir og mér er bara alveg sama hvað aðrir segja um bílinn minn því ég veit betur sjálfur, þetta er jú harðasta Honda landsins. Þá erum við eiginlega komin að því sem ég er búin að vera að reyna að segja í hnotskurn: Vertu þú sjálfur! Verið hugrökk og hugsið ekki um það sem öðrum finnst. Það er ekkert eins aðdáunarvert en það fólk sem fylgir eigin sannfæringu og beygir sig ekki fyrir neinum tískustraumum. Ég held að það sé fullkomið að enda þessa grein á orðum meistara Phil Anselmo, söngvara Pantera, sem ALLTAF fer eigin leiðir og sendir Fm-hnökkum og tískuhórum fingurinn um leið:

„For every f*cking second the pathetic media pisses on me and
judges what I am in one paragraph - Look here – F*ck you all”



Kveðja, JohnnyB.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _