Ég tekið eftir því að mjög margir hérna (sem og annars staðar) nota orð og setningar eins og “þetta er snilldarband”, eða “snilldardiskur”, “brilliant plata” o.s.frv, nokkuð oft þegar þeir eru að lýsa hinum ýmsum hljómsveitum.
Það sem mér finnst slæmt við notkun slíkra orða, er að þau eru nær merkingarlaust ef að ekki fylgir einhver nánari lýsing á AF HVERJU fólk er á þeirri skoðun sem það er á. Ef einhver segir við mig að einhver plata sé snilld, þá hefur það í raun enga merkingu fyrir mig nema ég þekki vel til tónlistarsmekks viðkomandi og geti því metið fullyrðingar hans útfrá því. Ef að einhver sem ég veit að hlustar mikið á danstónlist (svo dæmi sé tekið) segir að einhver plata sé snilld, þá er mjög líklegt að ég muni ekki eyða mínum tíma í að kynna mér hana, af þeirri ástæðu að ég hlusta ekki sjálfur á danstónlist. Auðvitað er sá möguleiki fyrir hendi að viðkomandi plata sé ekki danstónlist, en það er engin leið fyrir mig að vita það ef að nánari lýsing á plötunni fylgir ekki.
Annað sem ég vildi nefna og jafnvel fá eitthvað feedback á og það er hvernig fólk metur hljómsveitir og plötur þeirra. Ég held að það sé engin launung að hljómsveitir hljóta mun oftar frægð og frama fyrir “gæði” einstaka lög heldur en gæði heilrar hljómplatna og mjög algengt að á hljómplötum sé ekki nema örfá lög sem geta talist góð eða jafnvel frábær og restin einungis ódýrt uppfyllingarefni.
Því er spurningin sú hvernig metið þið hljómsveitir? Er nóg fyrir hljómsveit að t.d. einungis helmingur af efni einhverrar plötu hennar sé góður til þess að sveitin geti talist “snilldarhljómsveit”? Er hægt með góðri samvisku að lýsa því yfir að einhver hljómsveit sé snilldarhljómsveit ef maður fílar bara hluta af þeirri tónlist sem hún gefur út? Hvað þá með allt efnið sem maður fílar ekki með sveitinni? Er það kannski algengt hjá fólki að það hefur ekki kynnst neinum hljómsveitum sem samsvara sig svo vel tónlistarsmekk þess að það fíli í botn mikinn meirihluta efnisins frá þeim (yfir 80%), ef ekki bara svo gott sem allt efnið frá þeim (yfir 95%)?
Hvað finnst ykkur?
kveðja,
Þorsteinn
P.s. það má svona til gamans geta að ég hef sjálfur verið að pæla mikið í tónlist síðustu 12-13 árin og á eitthvað um 350 diska í mínum fórum. Ég tek það fram að ég nenni alls ekki að eiga diska sem innihalda einungis einhver örfá góð lög, þó þau séu mjög góð, því að ég á svo mikið af diskum sem hafa betri “nýtni” en svo og því komast þessir vandræðadiskar aldrei í spilarann… Ef ég ætti að skjóta á fjölda “snilldardiska” sem ég á, þá yrði sú tala ekki hærri en 10-15 (af öllum þessum 350 sem langflestir geta talist góðir með yfir 60% nýtni).
Resting Mind concerts