Flestir sem hafa stundað huga.is/metall iðjuna ættu að kannast við sænsku Progressive Metal hljómsveitina Opeth, þá í gegnum greinar eða annars konar umfjallanir í gegnum tengla eða korkinn. Hljómsveitinn hefur gefið út all nokkrar verðugar plötur síðan 1995, og öðlaðist þokkalega heimsfrægð utan metal heimsins árið 2001 þökk sé plötuni ‘Blackwater Park’, en þeir Opeth drengir fengu mikla hyllingu fyrir þá plötu. Persónulega tel ég hana ekki vera það besta sem Opeth hafa sent frá sér, en hún fullkomnar allt sem hefur einkennt bandið í fortíðinni, eins og t.d flóknar lagasamsetningar, skiptingar og löng lög full af öllu mögulegu eins og kassagítarum, margs konar gerðir af söng, gott úrval af hljóðfærum utan “trommur-gítar-bassi formúlunar” og fleiru. Margt annað einkennir Opeth að mínu mati en þetta er það sýnilegasta og þótt margur geti látið sitthvað flakka um hljómsveitina getur hann ekki sagt þá vera hæfileikalausa. Það er aldrei mjög langt tímabil milli útgáfu hverrar plötu, yfirleitt um 1-2 ár – sjaldnast meira – en samt sem áður afreka þeir það að vera frumlegir og betri en á þeirri fyrri og framkvæma eitthvað sem er nýtt fyrir þeim. Með þessu er ég að tala um meiri þróun en bara sánd eða framleiðslu (Cannibal Corpse) en þið verðið víst að dæma sjálf.
Nafnið Opeth hljómar kannski einkennilega þegar það er heyrt fyrst en það er komið úr skáldsögu eftir höfundinn Wilbur Smith, en þar er nafnið notað á borg tunglsins, reyndar án h-sins (Opet). Sögu og þróun Opeth má rekja til eins manns, Mikael Åkerfeldt, söngvara, gítarleikara og aðal lagasmiðs hljómsveitarinnar. Hún hefst árið 1987 þegar Åkerfeldt stofnar rokk/metal bandið Eruption ásamt gömlum æsku vini sínum Anders Nordin, sem barði á húðir í bandinu. Eftir að hafa fullkomnað mannskipan innan Eruption og farið að aðhyllast dauðarokkinu meira eftir að hafa kynnst böndum eins og Bathory, Death og Mefisto, fór Åkerfeldt að semja mun djúpstæðari (en á sinn hátt klisjukennd) og harðari lög – en þar má nefna dæmi um lög eins og “Abandon Life”, “Walls Of Dwell” og fleiri sem er getið í sögu bandsins á heimasíðu þeirra (www.opeth.com). Um tíma varð bandið fyrir breytingum og breyttist úr dæmigerðu rokk/metal bandi níunda áratugarins yfir í frekar þungt en þó ófrumlegt band sem átti fyrir sér sorgleg örlög, en bandið spilaði aldrei á neinum tónleikum á sínu stutta æviskeiði og tók aldrei upp neina einustu nótu, þótt Åkerfeldt geti þess að einhverjar æfinga-upptökur liggja enn á hillu hans heima hjá sér. Bandið var ekki í sérstaklega góðri stöðu, þar sem meðlimirnir þurftu að ganga 15 mínutna spöl í gegnum skóg til þess að komast á æfingastaðinn og á meðan þurftu þeir að bera öll hljóðfærinn, hljómkerfið (sem þeir áttu ekki einu sinni) og allar aðrar græjur sem voru nauðsynlegar til æfinga. Bæði þetta og áhugaleysi sem hrjáði bandið í einhvern tíma lét til sín taka og voru aðalástæður þess að Eruption lagði upp laupana árið 1990.
“During the same time Eruption died, Opeth started to live.” (Mikael Åkerfeldt).
Á þessum tíma var Åkerfeldt ólmur í að komast í aðra hljómsveit og fara að spila harðari og dimmri tónlist þar sem hann var farinn að aðhyllast þesskonar tónlist, eins og Morbid Angel, Deicide eða flestum bandarísku hljómsveitunum. Opeth var þá þegar til en hún var stofnuð af öðrum allt öðrum meðlimum sem komu frá öðrum hluta Svíþjóðar. Ein þessara manna var söngvari bandsins, David Isberg sem Åkerfeldt hafði kynnst ágætlega í gegnum hljólabretta áhugamálið sem hann deildi með honum. Annað áhugamál sem hann deildi með honum var m.a þungarokk sem á þessum tíma tröllreið undirheimum Svíþjóðar í Death Metal-flóruni sem einhverjir Frónskir táningar smituðust af ca. ’91 – ’93, og ættu að kannast við. Åkerfeldt varð meira og meira ólmur í að fara að spila á ný og einn daginn var honum boðið raunsarlega af Isberg að plokka bassa á einni æfingu með Opeth. Eftir einhverjar erjur við aðra meðlimi bandsins urðu þeir tveir eftir, en fyrrverandi meðlimir Opeth ákváðu að stofna aðra hljómsveit án Isbergs, sem hlaut ill örlög að sökum þess hversu léleg hún varð, en þessi nýja hljómsveit var nefnd “Crowley”. Þrátt fyrir að standa einir tveir eftir í bandinu voru þeir ákveðnir að semja lög af kappi, og lýsir Åkerfeldt því að á ákveðnu tímabili á meðan Opeth voru ennþá aðeins tveir hafi farið að semja lög mun frábrugðnum því sem hann hafði áður gert fyrir þá Eruption eða Opeth til að byrja með. Þessi nýji lagasmiðsstíll hans innihélt kassagítars-kafla, mikið af double-bass trommuleik og frumlegum gítarriffum sem virkuðu ferskar á metalalþýðuna í þá daga. Til þess að gera alvöru úr þessum frumleika sem þeim hafði tekist að skapa þurftu þeir að finna hæfa meðlimi og fullkomna mannskipunina í bili. Åkerfeldt bað fyrrverandi Eruption trymbilinn Anders Nordin að koma og spila með þeim sem hann gerði og stuttu síðar fundu þeir gítarleikara til að leika á móti Åkerfeldt sem hét Anders Dimeo. Auk þess bættu þeir við sig á sama tíma bassaleikaranum Nick Döring. Hljómsveitin æfði til að byrja með í tónmenntarstofu grunnskóla sem var í grennd við þar sem þeir bjuggu og höfðu heldur ekki eigin græjur heldur notuðu þeir hljómbúnað sem spannaði allt frá fimmta áratugnum, en hvaða hljómsveit byrjar hvort sem er ekki í skítnum? Sú aðstaða gerði þeim svolítið erfitt fyrir að semja lög eða riffur á staðnum þar sem metalsándið sem þeir voru að svipast eftir var alls ekki til staðar, en þess vegna fór Åkerfeldt sjálfur að semja lög einn eða riffur. Á þeim tíma samdi hann riffur og nokkra kafla sem voru notaðir á annarri plötu bandsins við lagið ‘Advent’, en sum laganna lágu á hillu hans í nokkur ár ónotuð uns þau voru uppgvötuð á ný. Þetta skapaði sterkan sess í stíl bandsins og gerði helsta munin á þeim og öðrum hljómsveitum sem voru í gangi í Svíþjóð. Opeth voru loksins byrjaðir að tjá tónlist sína á öðruvísi hátt eins og Åkerfeldt og aðrir þáverandi meðlimir Opeth vildu gera. Fyrstu tónleikar þeirra áttu sér stað í Febrúar 1991 ásamt Therion, Excruciate og bandinu Authorise og lýsir Åkerfeldt því sem einni verstu reynslu sem hanni hafði einhvern tíman upplifað á lífsleiðinni en bandið spilaði aðeins tvö af þeim þremur æfðum lögum sem hún hafði planað fyrir tónleikana. Stressið fór víst alveg með meðlimi bandsins og nánast strax eftir tónleikana hættu Döring og Dimeo. Opeth stóðu aftur eftir í sárum, en voru ekki á þeim buxum að gefast upp strax.
Opeth bættu stuttu síðar við sig tveimur öðrum meðlimum, gítarleikaranum Kim Petterson og bassaleikaranum Johan DeFarfalla þegar þeir voru nýbúnir að skipuleggja aðra tónleika sem áttu að eiga sér stað nokkru síðar. Á þeim tónleikum, sem Isberg hafði reddað þeim á, stóðu þeir hins vegar betur enda betur æfðari en áður og öruggari með sig eftir fyrri reynslu. Aftur lentu þeir svo í veseni með mannskipan bandins þar sem DeFarfalla hætti sama kvöld eftir tónleikunum lauk. Svona gekk þetta um nokkurra hríð þar sem þeir voru án bassaleikara, uns Åkerfeldt komst í kynni við Peter Lindgren í gegnum kærustuna sína. Lindgren hafði þá áður verið í einhverjum böndum áður en engum sem sem höfðu einhvern metnað eða alvarleika í tónlistinni og honum langaði innilega að fara spila tónlist af einhverri alvöru. Honum var boðin staða sem bassaleikari í Opeth eftir að DeFarfalla hætti og ákváð að þiggja þá stöðu hiklaust. Æfingar gengu vel og fleiri tónleikar áttu sér stað uns Isberg hætti svo sjálfur í Opeth eftir að hafa verið boðin staða hjá hljómsveitinni Liers In Wait snemma árið 1992 og auk þess sem Pettersson ákvað að aðskiljaðst bandinu skömmu áður. Lindgren stundaði þá hljóðfæraskipti og fór yfir á gítarinn, bassaleikarinn Stefan Guteklint gekk til liðs við hljómsveitina og Åkerfeldt ákvað að syngja og spila á gítarinn fyrst hann hafði einhverja reynslu eftir að hafa sungið með Eruption. Þessi mannskipan var stöðug í um það bil ár eftir þetta, fram til ársins 1993.
Opeth byrjuðu að vekja á sér meiri athygli en áður og fékk náð fyrir augum breska fyrirtækisins Candelight Records, sem á sínum tíma gaf út efni með Emperor (t.d In The Nightside Eclipse) og fleirum og gefur nú út efni með mörgum efnilegum böndum eins og t.d Katatonia, en einhverjir ættu að kynnast við nýjustu plötu þeirrar sveitar – ‘Viva Emptiness’. Árið 1994 skrifaði Opeth undir samning multi-platna samning við Candlelight og byrjuðu að fullum kappi að undirbúa fyrstu plötu sína – ‘Orchid’. Guteklint var látinn fjúka og í stað hans kom DeFarfalla aftur eftir að hafa verið að flakka á milli hljómsveita í nokkurn tíma. Að þessu loknu var svo haldið í Unisound hljóðverið í smábænum Finspång í Mars 1994 til að taka upp plötuna. Unisound hljóverið var í eigu Edge Of Sanity forsprakkans Dan Swano áður en að það lokaði 1997 og Swano hafði áður unnið með öðrum sænskum metalhljómsveitum í þessu tiltekna hljóðveri, eins og Nasum, Marduk, Dissection og fleirum. Hljóðverið stóð þá í gömlu húsi á miðjum, risastórum akri fyrir utan smábæinn og hafði verið áður notað sem geðveikrahæli, en sú staðreynd kyndaði aldeilis undir taugarnar á meðlimum bandsins. Hljóðritun plötunar gekk mjög hratt fyrir sig og var kláruð fyrir mánaðarlok Mars 1994 og var nánast öll tekin upp í ofangreindu hljóðveri – fyrir utan lagið ‘Requiem’ sem var endurgert í hljóðveri í miðbæ Stokkhólms eftir að hafa misheppnast í fyrra skiptið í Unisound. Á framhlið plötunar er orkidía eins og nafn plötunar gefur til kynna og í bæklingnum er að finna myndir af hljómsveitinni tekin á æskuslóðum Åkerfeldts. Fyrsta lagið, ‘In The Mist She Was Standing’ er 14 mínutur á lengd og ekki er sú sekúnda til þar sem það lag grípur mann ekki algjöru hálstaki. Söngstíll Åkerfeldt er mjög sérstakur og þótti hann frumlegasti metalsöngvarinn í þá daga, en hann skiptir mjög á milli ‘growl’ og ‘clean’ söngraddar og kassagítarspil yfir double-bass trommum var varla til á þessum tíma. Astral gítarsándið og skrítnu textarnir sem eru yfirleitt algegnir í prog metal hljómsveitum gaf fólki yfirleitt nýja sýn á ‘extreme metal’ hugtakið. ‘Orchid’ var fyrsti andadráttur Opeth og hún blómstraði algjörlega í metalheiminum og fékk frábær viðbrögð, enda ekkert nema það sem hún á fyllilega skilið. Önnur verðug lög sem eru að finna á plötuni eru t.d ‘Under the Wheeping Moon’, ‘Forest Of October’ (uppáhaldslag Åkerfeldts) og ‘The Apostle In Triumph’. Einhversstaðar hér á huga er að finna grein um þennan disk og í þeirri grein er eimitt sagt að mætti bera lög Opeth við tónverk tónskálda sem réðu ríkjum í mið-Evrópu á miðöldum. Opeth voru á þessum tíma Mozartar bárujárnrokksins og eru enn en þó verða menn að hafa í huga að þeir hafa breyst mjög mikið á síðastliðnum tíu árum. Platan hefur í dag verið endurútgefin og er nú fáanleg með aukalaginu ‘Into the Frost Of Winter’.
‘Orchid’ kom út árið 1995 eftir einhverjar tafir hjá plötufyrirtækinu, enda voru Opeth langt frá því að vera eitthvað forgangsverkefni í þá daga og þá hafði partur af lögum sem mundu síðar enda á plötuni ‘Morningrise’ tekið að mótast, eins og t.d ‘Advent’ og hið 20 mínutna langa ‘Black Rose Immortal’. Opeth byrjuðu strax að móta stíl sinn sem metalheimurinn tók fagnandi, en sá stíll er ekki eins mótaður í dag eins og á plötum eins og ‘My Arms, Your Hearse’ eða ‘Deliverance’ sem eru plötur sem hægt er að sökkva mjög djúpt andlega ofan í. En meira af því síðar…
Stay tuned for more.
9nine9.