Hljómsveitin Freak Kitchen er væntanleg til landsins fimmtudaginn 20. nóv, þar sem hún mun spila á þrennum tónleikum með færeysku hljómsveitinni Týr dagana 21. - 23. nóv. Gítarleikari Freak Kitchen mun hita upp fyrir þetta tónleikaferðalag með því að halda guitar clinic (sýnikennslu á gítar) fyrir landann fimmtudagskvöldið 20. nóv kl 20:00 í húsnæði tónlistarskóla FÍH við Rauðagerði.

Mattias er mikill snillingur á gítar og hefur gefið út nokkrar sólo-plötur, þ.á.m. á útgáfufyrirtæki Steve Vai í Bandaríkjunum, Favored Nations. Hann er þekktur fyrir að vera með sinn eigin stíl og að hafa þróað tækni við að spila á gítar og ná út úr honum ólíklegustu hljóðum án þess að nota nokkurs konar effekta. Mattias spilar á Caparison gítara, sem eru japanskir, en Caparison fyrirtækið styrkir hann og hefur á sínum boðstólum sérsmíðaða gítara sem þeir hafa gert fyrir hann (signature guitars).

Mattias rekur einnig sinn eigin gítarskóla undir heitinu Freak Guitar Camp og er mjög vinsæll í svona sýnikennslu og er iðulega fenginn til að halda svona sýnikennslu hvar sem Freak Kitchen koma við til að spila. Mattias er t.d. nýkominn frá Japan, þar sem hann var sérstakur gestur á Tokyo Musical Instruments Fair. Þar var hann með sýnikennslu á gítar í boði Laney gítarmagnarafyrirtækisins og Caparison Guitars.

Meðal þess sem Mattias mun fara í gegnum á þessum guitar clinic er:

* Farið verður í gegnum fullt af mismunandi, furðulegum og óhefðbundnum aðferðum við að spila á gítarinn, m.a.: “pikka”, “tappa”, nota slönguklemmur (hose-clips), harmonics, arpeggios, chords, pólírithmar, attitude og hvernig á að skapa sér sinn eigin stíl við að spila og þess háttar.

* Hvernig á að láta gítarinn hljóma eins og eitthvað allt annað en gítar, án þess að nota einhverja effekta (Mattias er sannkallaður minimalisti).

* Vekja upp áhuga og von um framtíðina hjá ungum tónlistarmönnum og tala um hvernig maður á að lifa hinn illvíga skemmtanabransa af.

* Heyrst hefur að Mattias muni einnig sýna hvernig á að spila á gítar með því að nota ýmis heimilistæki og jafnvel ýmis hjálpartæki ástarlífsins.

Reiknað er með að þessi sýnikennsla muni taka 1½ - 2 klukkutíma.

Þetta er eitthvað sem allir gítarleikarar mega alls ekki láta framhjá sér fara og aðrir tónlistaráhugamenn mega ekki missa af heldur. Aðeins verður haldin einn “fyrirlestur” að þessu sinni þannig að það er best að mæta snemma til að tryggja sér miða á þetta.

Nánar
Dagsetning: Fimmtudagur 20. nóvember
Staðsetning: Tónlistarskóli FÍH við Rauðagerði
Tími: 20:00

Frekari upplýsingar á heimasíðu Resting Mind Concerts, http://www.restingmind.com
Resting Mind concerts