Önnur plata þeirra Eric the Red
Eftir mikla eftirvæntingu hjá aðdáendum sveitarinnar gaf sveitin svo út sína aðra breiðskífu fyrr á þessu ári sem nefnist Eric the Red. Þessi plata hefur verið að fá enn betri dóma en fyrsta platan og í umsögn sem birtist í júlíhefti tónlistartímaritsins Sánd sagði m.a. "…platan [er] í heild jafnbetri og að sumu leyti áhugaverðari en How Far to Asgaard“ og ”Týr hefur jafnframt stigið stórt skref í þá átt að flétta færeyskum þjóðlegum áhrifum enn frekar saman við þungarokkið: Í lagasmíðum, í fleiri færeyskum textum og samsöngnum sem gerði “Orminn langa” svo heillandi." Í kjölfarið var platan valin plata vikunnar á Rás 2 og spiluð mikið á þeim bænum.
Tónleikaferðalög
Týr hafa spilað út um allan heim, m.a. á Norðurlöndunum, Rússlandi, Póllandi, og Lettlandi og eru þegar bókaðir til þess að spila á nokkrum tónlistarfestivölum í Þýskalandi næsta sumar. Í fyrra tóku þeir þátt í dönsku Melody Maker Contest, sem er einhvers konar músiktilraunir þeirra Dana (nema bara hvað það eru miklu eldri og vandaðri bönd sem taka þar þátt) og þeir gerðu sér lítið fyrir og unnu hana og voru að auki valdir vinsælasta bandið af áhorfendum en það eru veitt fjögur verðlaun í keppninni og þeir unnu tvö þeirra.
Hljómsveitin hefur gert tvenn myndbönd við tónlist sína, við Orminn langa og Hail to the Hammer og hafa bæði þessi myndbönd verið sýnd hér á landi á Popp Tívi, Skjá Einum og RUV.
Færeyska bylgjan
Árið 2002 einkenndist af miklu meiri tónlist frá Færeyjum en áður hafði náð landfestum á Íslandi. Týr urðu ofur vinsælir fyrri part ársins og að öðrum listamönnum ólöstuðum var það upphafið af færeysku bylgjunni sem ætlaði allt um koll að keyra í fyrra. Á sama tíma og Iceland Airwaves var haldið, hélt Hljómalind sitt eigið festival sem þeir kölluðu Fairwaves. Meðal tónlistarmanna sem komu þar fram var t.d. Eivør Pálsdóttir, sem hefur rækilega slegið í gegn hér á landi. Hún kom þar fram með hljómsveit sinni Clickhaze.
Heimasíða þeirra Týr-liða er á slóðinni http://www.tyr.net
Tóndæmi: The Edge - http://www.tyr.net/mp3/theedgelq.mp3
Resting Mind concerts