Sælir kæru metalhausar og aðrir tónlistaráhugamenn! Þannig var nú það að ég fór á tónleika í ágúst og skrifaði umfjöllun um þá þegar komið var heim. Svo leið tíminn… og nú hef ég ákveðið að senda þetta hingað inn, þar sem mér finnst báðar hljómsveitirnar bara hreinlega eiga það skilið! En allaveganna……



‘Dark Harvest’ og ‘Victory Or Death’ á Boomkikkers, þann 28. ágúst 2003.

“THE GIG” heitir víst þessi tónleikaröð sem haldin er hvert fimmtudagskvöld á litlum stað á Hafnarstræti sem heitir Boomkikkers. Ég ákvað, eftir að hafa lesið auglýsingu, að líta á þetta frábæra framtak og vonaðist bara eftir að hitta á góða tónlist. Mér til mikillar ánægju sá ég DARK HARVEST auglýsta þegar ég mætti. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var kominn, að ég hafði einhverntíma álpast þarna inn (blindfullur og undir aldri) meðan staðurinn hét Maxim´s og bauð uppá nektardans af bestu gerð. Það fyrsta sem flaug í gegnum hausinn var; “Hvernig ætla þeir að fara að því að halda tónleika hér?”, því staðurinn er ekki beint rúmgóður. Þessi neikvæðni hvarf þó fljótt eftir að ég hafði fengið kaffibollann og sest niður í þetta notarlega rokkumhverfi, þar sem veggirnir eru þaktir plakötum og playlistinn spilaði rokk af bestu gerð (allt frá Aerosmith og Nirvana.. uppí Iron Maiden og Dream Theater). Staðurinn var að sjálfsögðu troðfullur þegar fyrsta band steig á svið.

VICTORY OR DEATH – Þessi hljómsveit er ný af nálinni og, verð ég að segja, nokkuð spennandi. Þeir voru vel þéttir og öruggir, sérstaklega ef miðað er við að þetta var þeirra fyrsta gigg. Þetta er metalband en það mun ekki reynast mönnum auðvelt að setja þá í ákveðinn flokk. Lagasmíðar þeirra oft mjög frumlegar og vandaðar og mátti heyra að þeir sækja áhrif hvaðanaf úr rokkinu. Rödd og raddbeiting söngvarans (Haffa) minnti oft á tíðum á Layne Stailey (R.I.P) úr Alice In Chains, á meðan tónlistinni verður seint líkt við þá sveit. Lögin voru oft tilfinningaþrungin og melódísk en fóru svo í óútreiknanlegar áttir með örum kaflaskiptum og tempóbreytingum. Oft glitti í virkilega fínan gítarsamleik hjá gítardúóinu, að hætti Iron Maiden eða jafnvel Carcass, en þó ekki ofnotað, svo manni þyrsti í að heyra lögin aftur. Eins var oft dottið niðrá verulega skemmtileg riff en snögglega keyrt í annan kafla svo maður beið spenntur eftir að fá riffið aftur. Þó er farið hóflega í slíkar pælingar svo lögin eru alls ekki ofhlaðin og renna í gegn án of mikilla heilabrota. Haffi (gítarleikari og söngvari… og samkvæmt mínum heimildum aðalsprauta og lagasmiður hljómsveitarinnar) lifði sig einnig hæfilega vel inn í tónlistina og sýndi vel hvers megnugur gítarleikari hann er. Bassi og trommur nokkuð vel samstaka og í heildina séð mjög gott. Ég spái því og vona, að Victory or Death verði áberandi í neðanjarðarsenunni hér á landi á næstu mánuðum.

DARK HARVEST – Ég efast um að nokkur maður, sem þykist fylgjast með þungarokki á Íslandi, hafi ekki heyrt um Dark Harvest. Þetta er eina alvöru íslenska súpergrúppan! Þ.e. hljómsveit, sett saman af þremur reyndum og virtum tónlistarmönnum sem þekkja hljóðfæri sín alveg út í gegn og spila saman tónlist sem flesta dreymir um að geta spilað. Gulli Falk (gítar) er sennilega teknískasti rokkgítarleikari landsins og flestir rokkarar um og yfir 25 árin hljóta að muna eftir honum úr Exizt, eða sólóplötunum undir nafninu; Falk. Maddi (bassi) er gjörsamlega yfirnáttúrulegur. Það er eins með puttana á honum og andlitið á Jim Carrey; hlýtur bara að vera úr gúmmíi. Hann er meðlimur Forgarðs Helvítis og er án efa besti bassaleikari Íslands utan djassgeirans… jafnvel bara sá allrabesti. Kristján (trommur) hefur unnið sér inn þann merka titil að vera “officially” orðinn uppáhalds trommari minn. Hann er einnig meðlimur Changer og Shiva.
Saman eru þeir semsagt ‘Dark Harvest’ og spila einhverskonar ‘technical instrumental math/prog-metal’!!! Það er hrein unun að horfa á þá á sviði þar sem hver meðlimur fær að njóta sín til hins ýtrasta og spilagleðin er óviðjafnanleg. Allir sem spila á hljóðfæri eða eru áhugamenn um góða tónlist vilja sjá þetta band. Þeir renndu prógraminu óaðfinnanlega í gegn og ég fór virkilega sáttur heim. Það er vert að minnast að Dark Harvest eru að íhuga útgáfumál og verður diskurinn sennilega með í jólaflóðinu, sem mér finnst ekkert nema snilld!


Það kemur allt of oft fyrir að ég heyri fólk segja að það sé ekkert um að vera í íslenskri tónlist í dag. Þetta er einfaldlega ekki rétt! Fólk sem heldur þessu fram er ekki með augun opin, er ekki að hafa neitt fyrir því að grafa upp, heldur bíður bara eftir því að Skífan færi þeim það heitasta á silfurfati. Eða þá að þetta fólk er ekki alvöru áhugafólk um tónlist (þó það haldi því fram). Það er hellingur um að vera hér á landi, ekki bara í metal og harðkjarna, heldur er fjöldinn allur af indie böndum, raftónlistarmönnum, ungum djassböndum og bara plain rokki. Ég er stoltur af íslensku tónlistarlífi, þó ég skammist mín fyrir íslenska tónlistariðnaðinn!

THE MORAL OF THIS STORY:
Styðjum á bakvið tónlistarmennina okkar. Verum forvitin. Mætum á tónleika, þó svo maður þekki ekki nöfnin á hljómsveitunum, því það er ekkert betra en að mæta, vita ekkert hvað býður manns og vera svo heillaður upp úr skónum. Opnum hugann fyrir tónlist, losum okkur við fordóma og rokkum! Ísland getur staðið jafnfætis Svíþjóð í útflutningi á tónlist….. eða svona næstum því. :)

-Ég vil líka hvetja fólk til að senda inn fleiri greinar um íslenskar hljómsveitir.

Takk!