Sælt veri fólkið!
Nú eru komnir c.a. fjórir mánuðir frá því ég fór að stunda þessa stórgóðu síðu, hugi.is, og oftar en ekki hangið hér inná Metall og fylgst með umræðunum. Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart er að ég hef ekki séð einu orði minnst á eina af mínum uppáhalds hljómsveitum í metalgeiranum: TESTAMENT!!! ..Því hef ég ákveðið að taka málin í mínar hendur og kynna þessa öflugu hljómsveit fyrir nýliðum og fyrir þá sem þekkja til, þá er alltaf gaman að rifja upp sögu þessara merkilegu manna.
Þegar ég heyri orðin “alvöru metalhaus” eða “sannur metalisti” þá birtist ósjálfrátt mynd í hausnum á mér, af þeim félögum Chuck Billy og Eric Peterson …og reyndar líka Manowar :). Þessir tveir hafa strögglað svo árum saman við að þróa tónlist sína í eitthvað þéttasta og þyngsta rokk sem fyrirfinnst, hafa verið á toppnum, upplifað gríðarlega niðursveiflu og horft á eftir alls 13 hljómsveitarmeðlimum.
Í San Fransisco, árið 1983, kynntist trommarinn Louie Clemente gítarleikara að nafni Derrick Ramirez (er að sögn eitthvað skildur raðmorðingjanum Richard Ramirez, “The Night Stalker”, en ég veit ekki…). Ramirez hafði samband við kunningja sinn Eric Peterson (gítar) og þessir þrír stofnuðu hljómsveitina Legacy. Áhuginn var gríðarlegur, þeir hættu að vinna og æfðu stanslaust. Fljótlega voru þeir orðnir fullmannaðir með innkomu Greg Christian á bassa og Steve Souza, sem söng. Ári seinna kynntust strákarnir gítarleikaranum Alex Scolnick, sem heillaði þá svo mikið að Ramirez var látinn fara. Scolnick, sem er gríðarlega teknískur og þaullærður, tók tónlist þeirra upp í aðrar hæðir með sínum dim-skala pælingum og eldsnöggu sólóum. Þetta line-up tók upp fimm laga demó árið 1985, “The First Strike Is Deadly”, sem tryggði þeim samning hjá Megaforce (undirfyrirtæki Atlantic records). Hljómsveitin varð þó fyrir áfalli þegar Steve Souza ákvað að þyggja boð um að taka við söngstandinum hjá ‘Bay Area thrash’ risunum í Exodus. Souza yfirgaf þá samt ekki án þess að mæla með kunningja sínum, Chuck Billy. Chuck reyndist vera besti eftirfari sem drengirnir gátu hugsað sér, gat skipt á milli hárra skrækja yfir í slímug öskur eins og ekkert væri og hafði einnig mun betri tök á melódíunni. Með hann í fararbroddi fóru drengirnir í stúdíó til að taka upp sína fyrstu plötu. Á meðan á upptökum stóð lentu þeir í öðru áfalli, þegar í ljós kom að önnur hljómsveit átti eignarréttinn á nafninu Legacy og huggðist kæra. Nafninu var því breytt í Testament en í staðinn fékk fyrsta platan heitið “The Legacy”.
The Legacy kom út árið 1987 og vakti gríðarlega athygli í metal-flórunni fyrir sitt sérstaka sánd, ótrúlega keyrslu og gítarleik Scolnick, sem einkenndist af dim- hljómum og djasskenndum skölum sem tíðkuðust ekki í tónlist sem þessari. Gagnrýnendur voru hæstánægðir og notuðu óspart orð eins og “masterpiece” og “instant-classic”. Testament voru allt í einu með fremstu “Bay Area” böndunum. Um sumarið var lagt af stað í Evróputúr þar sem sveitin hitaði upp fyrir Anthrax og á þeim túr var EP platan “Live in Eindhoven” tekin upp. Hún var síðan gefin út til að auka eftirvæntinguna fyrir næstu plötu, sem Testament byrjuðu að vinna í strax og þeir komu heim.
Snemma árs, 1988, kom svo út platan “The New Order”. Eftirvæntingin var gífurleg og seldist platan mjög vel í Bandaríkjunum sem og Evrópu. Tvö myndbönd fengu góða spilun á MTV, “Nobody´s fault” (coverlag eftir Aerosmith) og hið magnaða “Trial by fire”. Platan er örlítið hefðbundnari en frumraunin en inniheldur mörg ódauðleg lög. Platan styrkti stöðu þeirra til muna og var fylgt eftir með heimsreisu.
Testament voru orðnir stórt nafn þegar þriðja breiðskífan leit dagsins ljós árið 1989. Sú fékk titilinn “Practice What You Preach” og er af mörgum talin þeirra besta (þó ég sé ekki á þeirri skoðun). Platan er melódískari en fyrri verk, aðeins dregið úr keyrslunni en þó er krafturinn allur til staðar. Gítarpælingar eru svipaðar og á fyrstu plötunni en sándið mun þykkra og minnir á óbrjótanlegan múr. Testament lögðu aftur af stað í heims-túr sem að þessu sinni stóð í heilt ár. Tónleikarnir voru vel sóttir, fengu frábæra dóma og í lok árs, 1989, voru Testament valdir besta tónleikasveitin af mörgum virtum fjölmiðlum. Þegar árslangri tónleikaferð var lokið lögðu þeir svo strax af stað í aðra reisu ásamt Judas Priest og Megadeth.
Þegar Testament komu til baka voru þeir skiljanlega þreyttir en pressan var mikil á aðra plötu. Strákarnir höfðu ekkert nýtt efni svo ákveðið var að grafa upp nokkur lög sem ekki höfðu komist á plötu. Niðurstaðan varð “Souls Of Black” og var gefin út ásamt VHS myndbandsspólunni “Seen Between The Lies” sem innihélt tónleikaklippur, viðtöl og tónlistarmyndbönd. Öllum að óvörum virtist áhuginn á hljómsveitinni vera að minnka, platan seldist ekki eins vel og fyrri plöturnar þrátt fyrir að vera mun aðgengilegri í hlustun. Meðlimum var brugðið, þar sem þeir höfðu staðið í þeirri trú að þeir væru á hátindinum. Þetta, ásamt vinnuálagi, kom af stað deilum innan hljómsveitarinnar. Menn voru ósammála um hvert skildi stefna.
Mikil sprengja varð í tónlistarheiminum snemma á tíunda áratugnum, eins og flestir vita. Með komu Nirvana jókst áhugi fólks á grunge og alternative tónlist og svarta plata Metallica setti nýjar línur fyrir þungarokkið. Þar að auki gaus upp önnur bylgja út frá Pantera. Thrash-ið virtist vera dautt. Mörg af upprunalegu thrash böndunum reyndu að aðlaðast þessari breytingu, með misjöfnum árangri, t.d. tókst Megadeth mjög vel upp með plötu sinni “Countdown To Extinction”. “The Ritual” (1992) var tilraun Testament til að ná inn á main-stream markaðinn. Platan er þung en komin niðrí mid-tempo og gengur meira út á melódísk viðlög o.s.frv. Þrátt fyrir að virka frekar ráðvillt fyrir mér, fékk platan ágætis dóma en seldist þó ekki vel. Skömmu fyrir útgáfuna hætti Alex Scolnick vegna tónlistarlegs ágreinings og stuttu seinna var Louie Clemente (einn af stofnendunum) rekinn eftir áralangar deilur. Í þeirra stað komu tveir fyrrum meðlimir Forbidden, Paul Bostaph (trommur) og Glenn Avelais (gítar). Tónleikaferð í kjölfar “The Ritual” var farin með þessa mannaskipan og aftur var talað um Testament sem bestu tónleikasveit í metalgeiranum, þ.á.m. í Metal Hammer. EP platan “Return To Apocaliptic City” er tekin upp á þessum túr og kom út 1993.
Eftir tónleikaferðina var Paul Bostaph boðið að ganga til liðs við Slayer, sem hann þáði. Avelais var líka látinn fara og í hans stað kom enginn annar en reynsluboltinn og gítarhetjan James Murphy, sem (þrátt fyrir ungan aldur) hafði áður spilað með stórum nöfnum eins og Obituary og Death. John Tempesta úr Exodus var ráðinn á trommurnar og sveitin hélt í stúdíó. Platan “Low” kom út árið 1994 og kom gífurlega á óvart. Bandið virtist ekki jafn ráðvillt og voru þyngri en nokkru sinni fyrr. Gítarleikur James Murphy kom vel inn, sérstaklega í ballöðunni “Trail of tears”, þrátt fyrir að vera mjög frábrugðinn Scolnick stílnum. Platan var ekki áberandi (enda ekki lengur markmið þeirra að vera áberandi) en styrkti aðdáendahópinn og gaf þeim þennan cult-status sem þeir hafa haldið síðan þá. Tempesta hætti skömmu eftir upptökur til að ganga til liðs við White Zombie. Sá sem tók við var Jon Dette.
Lagt var af stað í tónleikaferð þar sem drengirnir tóku upp tónleikaplötuna “Live at the Fillmore”. Samningurinn við Atlantic var runninn út svo Testament stofnuðu sitt eigið label: ‘Burnt Offerings records’. “Live at the Fillmore” kom út hjá því fyrirtæki árið 1995. Skömmu eftir útgáfuna hætti svo enn einn upprunalegi meðlimurinn, þegar Greg Christian ákvað að gera hliðarverkefni sitt að sínu aðalmarkmiði, (man ekki hvað það heitir). Einnig misstu Testament annan trommara til Slayer, þegar Jon Dette var boðið að taka við af Paul Bostaph, sem átti við olnbogameiðsl að stríða. Dette var þó rekinn úr Slayer nokkrum vikum síðar og Bostaph sneri aftur.
Þegar platan “Demonic” kom út, árið 1997, voru tveir nýjir meðlimir. Derrick Ramirez (einn af stofnendum) var ráðinn aftur, í þetta skipti á bassa og Alvelais kom aftur inn, þegar James Murphy hætti til að huga að sólóferli. Einnig var gestatrommari á plötunni enginn annar en Gene Hoglan (fyrrum trommari Dark Angel og Death). Gene gekk þó aldrei í sveitina að fullu því hann var og er starfandi meðlimur hljómsveitarinnar Strapping Young Lad. Á þessari plötu eru Testament nánast óþekkjanlegir og komu öllum á óvart með því að þyngjast til muna. Þessi plata var sú harðasta hingað til og í stað söngs voru óhugnanleg, lágstemmd og “gory” death metal öskur. Samt sem áður þeirra slakasta að mínu mati og vakti ekki mikla athygli á sínum tíma.
Árið 1998 kom út stór tilkynning þegar Testament kynntu nýja trommarann sinn. Sá var enginn annar en kóngurinn sjálfur: Dave Lombardo, áður í Slayer og Grip inc. Eftirvæntingin fyrir nýja plötu var mikil og ekki minnkaði spennan þegar tilkynnt var að James Murphy væri kominn aftur og einnig nýr bassaleikari, hinn yfirnáttúrulegi Steve DiGiorgio úr Sadus, Iced Earth, Death o.fl. Þessi sannkallaða súpergrúppa gaf út meistaraverkið “The Gathering” árið 1999 sem er einhver sú hraðasta thrash metal plata síðan Slayer gáfu út ‘Reign in Blood’. Platan seldist mjög vel og styrkti aðdáendahópinn enn meir. Söngur Chuck Billy á þessari plötu er ekki jarðneskur og hann sannaði það að hann er með bestu thrash/death metal rödd sem fyrirfinnst. Tónleikaferðin í kjölfarið heppnaðist vel og virtist sem annað blómaskeið væri að byrja. Sú von var brotin aftur þegar James Murphy veiktist alvarlega og þurfti að hætta. Ofan á það hætti Dave Lombardo skömmu seinna til að einbeita sér að Fantomas, samstarfi við Mike Patton.
Talað var um að reyna að halda járninu heitu með því að gefa fyrstu tvær plöturnar “The Legacy” og “The New Order” út aftur, endurhljóðblandaðar, en síðar var ákveðið að taka bestu lögin af þessum plötum upp á nýtt. Hugmyndin var að fá hið upprunalega line-up saman á ný fyrir þetta verkefni en Louie Clemente treysti sér ekki í það, þar sem hann hafði ekki snert trommusett síðan hann var rekinn, níu árum áður. Greg Christian neitaði líka, þar sem hann var upptekinn með eigin hljómsveit. Í staðinn fengu þeir Derrick Ramirez aftur á bassann og John Tempesta á trommurnar. Alex Scolnick féllst á þessa hugmynd, auk þess sem þeir fengu Steve Souza (gamla söngvarann) til að syngja tvö lög. Afraksturinn varð “First Strike Still Deadly” (2001), frekar mistæk plata. Vissulega er þetta áhugavert og sniðug hugmynd, en því miður njóta flest lögin sín betur í upprunalegu útgáfunni. Platan er þó ‘must’ fyrir alla aðdáendur. Einnig er hér gamalt lag “Reign Of Terror” sungið af Steve Souza, en þetta lag hafði aldrei áður komist á stúdíó skífu.
Í miðju ferlinu við upptökur á “First Strike Still Deadly” greindist Chuck Billy með krabbamein í hálsi. Við tók tveggja ára barátta, sjúkrahússvist og geislameðferðir. Meðferðin gekk vel og er hann nú laus við allt krabbamein og kominn í gír. Testament eru nýkomnir úr velheppnuðum Evróputúr og stefna nú í stúdíó til að taka upp sína tíundu breiðskífu. Núverandi line-up er: Chuck Billy (söngur), Eric Peterson (gítar), Steve Smyth (gítar), Steve DiGiorgio (bassi), Jon Allen (trommur). Einnig hefur Eric Peterson verið með Black Metal hliðarverkefnið Dragonlord!
Vá, þessi grein er allt of löng… en að lokum læt ég fylgja með lista yfir breiðskífur, mína einkunnargjöf og lykillög:
The Legacy (1987)
Einkunn: 7/7
Klassísk lög: The haunting, Over the wall, Apocalyptic city, Burnt offerings, Alone in the dark
The New Order (1988)
Einkunn: 5/7
Klassísk lög: Trial by fire, Eerie inhabitants, Musical death (a dirge), Disciples of the watch
Practice What You Preach (1989)
Einkunn: 5/7
Klassísk lög: Practice what you preach, Sins of omission, Greenhouse effect
Souls Of Black (1990)
Einkunn: 4/7
Klassísk lög: Face in the sky, The legacy, Souls of black
The Ritual (1992)
Einkunn: 4/7
Klassísk lög: So many lies, Troubled dreams
Low (1994)
Einkunn: 6/7
Klassísk lög: Low, Hail Mary, Dog faced gods, Trail of tears, Ride
Demonic (1997)
Einkunn: 3/7
Klassísk lög: Demonic refusal
The Gathering (1999)
Einkunn: 7/7
Klassísk lög: D.N.R. (Do not resuscitate), Eyes of wrath, True believer, Fall of Sipledome, Legions of the dead
First Strike Still Deadly (2001)
Einkunn: 4/7
Klassísk lög: Over the wall, Reign of terror, Disciples of the watch
…Þar að auki hafa komið út þrjár ..best of plötur, 1996, 1997 og 2001
Takk!