Jæja, þá er langri bið lokið. Nýr Metallica diskur, St. Anger, kom loksins í hillur í plötubúðum í gær. Klukkan 10 hafði myndast röð fyrir utan Skífuna Laugarvegi af rokkþyrstum einstaklingum.
Mikið hefur verið talað um þessa plötu og menn hafa verið að velta fyrir sér hvernig Metallica hefur þróast á þessum sex árum sem hafa liðið frá útgáfu Reload. Mér persónulega finnst þeir hafa átt mögur ár síðan þeir gáfu út Black Album. Load og Reload eru bara einfaldlega ekki nógu góðir diskar frá þessari sveit.
Margir hafa sagt að þessi diskur sé afturhvarf í fyrri diska þeirra, þ.e. Master of Puppets og Ride the Lightning. Ég er ekki sammála þessu heldur er þessi diskur eitthvað algjörlega nýtt sem við höfum aldrei heyrt áður frá Metallica. Þeir hljóma allt öðruvísi, gítarinn er með allt öðru sándi en við höfum heyrt áður og meira að segja Lars er búinn að breyta trommusándinu sem hann hefur verið með nánast frá byrjun. Það jákvæðasta við þessi nýju lög er að Lars er búinn að finna hina bassatrommuna sína aftur og fer einfaldlega á kostum á þessum disk. Þetta er einhver besta frammistaða hans hingað til. Þó kemur maður til með að sakna gítarsólóana hans Kirk en það er frekar fátt um sóló á þessum disk.
Þrátt fyrir að Metallica hafi skitið illilega á sig með Napster málinu er greinilegt að þeir kunna ennþá að gleðja aðdáendur sína mikið. Með fyrsta upplagi af disknum fylgir DVD diskur sem er hreinasta snilld. Það er video af þeim í æfingahúsnæðinu að taka öll nýju lögin og mæli ég með því að þeir sem eru ekki búnir að kaupa diskinn snáfi út í búð og nái sér í eintak með þessum DVD disk.
Það er svo sem hægt að blaðra endalaust um þennan disk og þessa hljómsveit en ég ætla ekki að drepa ykkur úr leiðindum með endalausu blaðri. Svo ég klári þetta þá finnst mér þessi diskur bara hið fínasta stykki frá ellismellunum og mikil framför frá síðustu diskum og þeir fá stóran plús frá mér fyrir þennan disk.
Takk, Dug.