Mikilvægustu plöturnar í Metal-þróuninni!!!
Jæja, hér kemur frumraun mín í greinarskrifum! Það er alltaf gaman að velta fyrir sér þróun tónlistar. Ég hef svona verið að velta þessu fyrir mér síðustu vikur, hvaða bönd og plötur hafa haft mest áhrif á Metal-þróunina og ákvað að krota niður á blað (eða stimpla inní tölvu, skiptir ekki!) og þetta er mín niðurstaða. Kannski rétt að taka fram að þetta er allt bara mitt álit þó svo sumt komi út sem staðhæfing. Sumar af þessum plötum hef ég ekki heyrt en lesið mér til um og eru það þá plötur sem almennt eru taldar til brautryðjendaverka. Ég komst að því að mjög erfitt er að koma öllu fyrir og þessi grein er örugglega allt of löng, einnig býst ég fastlega við því að hafa gleymt einhverjum mikilvægum plötum og þá er það ykkar hlutverk að leiðrétta mig. En hvað um það, hér kemur listinn….
Led Zeppelin – (1969)
Þarna fór þetta allt að gerast. Menn voru hættir að spara overdrive-ið á gítarinn og riffin orðin þyngri. Led Zeppelin voru á þessum tíma (ásamt Jimi Hendrix og fleirum) að leggja hornsteininn að því sem við þekkjum í dag sem Metal. Það sem gerði Led Zeppelin aftur á móti meira Metal en aðrar sveitir á þessum tíma var samt tvímælalaust trommuleikur John Bonham. Þeir eru fáir trommarar í metalgeiranum sem ekki segjast sækja áhrif í hann. Þessi plata er tímalaust meistarastykki sem allir þurfa að eiga.
Black Sabbath – Master Of Reality (1971)
Ég veit, auðvitað eiga fyrstu tvær plöturnar líka að vera inná þessum lista en ég stend á þeirri skoðun að þetta sé sú plata sem hefur haft hvað mest áhrif á metalheiminn. Master Of Reality var sú þriðja í röðinni hjá þessum miklu frumkvöðlum og að mínu mati sú besta, hafði greinileg áhrif á hljómsveitir á borð við Metallica og Venom, en einnig Seattle sveitir eins og Soundgarden og seinna “Stoner Metal” hreyfinguna sem Kyuss leiddu svo snilldarlega. Auðvitað þarf ekki að taka fram að Black Sabbath innleiddu einnig satanísku ímyndina í rokkið (þó svo plötufyrirtækið hafi reyndar neytt þá til þess.)
Deep Purple – In Rock (1971)
Þegar þessi plata kom út var hún sú hraðasta sem menn höfðu heyrt. Fjórða plata Deep Purple en sú fyrsta sem hægt er að bendla við Metal. Opnunarlagið, “Speed king” virkar betur en sjö kaffibollar og restin gefur ekkert eftir í hraða og þunga, að undanskildu laginu “Child in time”, sem byrjar svo undurfallega en magnast upp í einhver hrikalegustu öskur sem rokkið hefur alið af sér. Setti farveginn fyrir endalausar power-ballöður sem fylgdu.
Alice Cooper – Welcome To My Nightmare (1975)
Alice Cooper var upphaflega hljómsveit og gáfu þeir út sjö plötur áður en hljómsveitin hætti og söngvarinn, Vincent Furnier, hélt áfram með nafnið (enda ekki skrítið þar sem hann var búinn að breyta nafni sínu löglega í Alice Cooper). Welcome To My Nightmare var fyrsta sólóplata hans og tryggði honum sess sem mesti shock-rokkari síns tíma (og sennilega allra tíma). Tónleikaferðin sem fylgdi í kjölfarið þótti með afbrigðum sérstök enda var hér um alvöru leiksýningu að ræða, þar sem Cooper m.a. slóst við risa-köngulær, barði konu til dauða og svaf hjá líki hennar (um það fjallar einmitt textinn í laginu “Cold Ethyl”) og notaðist við beinagrindur og alls kyns óhugnað sem sviðsbúnað. Margir af umdeildustu rokkurum seinni tíma sóttu áhrif í þessa sýningu t.d. Ozzy Osbourne og Marilyn Manson.
Judas Priest – Sin After Sin (1977)
Ein af mikilvægustu hljómsveitum metalsögunnar og hljómsveit sem allir eiga að kynna sér. Judas Priest gáfu út tvær plötur hjá litlu labeli sem gengu illa. Þeir voru orðnir skítblankir og þreyttir og við það að hætta þessu þegar þeir fengu samning hjá Columbia. Þeir skelltu sér í stúdíó og afraksturinn var “Sin After Sin” einhver mikilvægasti hlekkurinn í þróun thrash-metals (og NWOBHM) að mínu mati. Simon Phillips (Session trommari á þessari plötu) er hreint út sagt ótrúlegur (double-kick tæknin hans var langt á undan sinni samtíð) og ungur, efnilegur Dave Lombardo sat spenntur heima og hlustaði. Þetta er einnig fyrsta Priest platan sem inniheldur Priest sándið, sándið sem svo margar Metal-hljómsveitir reyndu að líkja eftir. Slayer aðdáendur ættu að kannast við lagið Dissident Aggressor, sem hér er að finna.
Rush – Hemispheres (1978)
Eftir nokkrar plötur fundu þeir loksins sándið. Rush höfðu verið í nokkurn tíma partur af “Prog-rock” hreyfingunni með böndum eins og “Pink Floyd”, “Jethro Tull”, “Queen” o.fl. en þessi plata blandaði saman þeim áhrifum og skerandi gítarriffum að hætti “Judas Priest” og útkoman fyrsta “Prog-Metal” platan. Þessi plata átti eftir að hafa gríðarleg áhrif þar sem þetta hefur verið sívinsæl stefna.
Van Halen – (1978)
Ég held að flestir gjörsamlega missi andlitið þegar þeir heyra í fyrsta skipti í Eddie Van Halen spila á gítarinn sinn. Það gerði ég allaveganna! Van Halen urðu heimsfrægir á einni nóttu með þessum frumburði sínum og Eddie hefur æ síðan verið einn virtasti og áhrifamesti gítarleikari metalsögunnar, m.a. haft áhrif á Steve Vai, John Petrucci, Zakk Wylde og Yngwie Malmsteen.
Motörhead – Overkill (1979)
Motörhead spiluðu blöndu af Metal, hörðu rokki og róli og pönki. Það tók þá tvær plötur að finna rétta sándið en þegar það gerðist varð afraksturinn “Overkill”, brautryðjendaverk í speed-metal hreyfingunni. Ótrúleg keyrsla og hráleiki sem erfitt var að setja í ákveðinn flokk. Þetta band var (og er) algjörlega sér á báti.
Judas Priest – British Steel (1980)
Ég ákvað að hafa tvær Judas Priest plötur á listanum til að undirstrika þá afstöðu mína að þetta sé mikilvægasta hljómsveitin í Metal-þróuninni (ásamt Black Sabbath). Þetta er platan sem hleypti NWOBHM æðinu af stað (með smellinum “Livin’ after midnight” og hinu magnaða “Breaking the law”). Hljómsveitir eins og “Saxon”, “Samson” og “Iron Maiden” eiga líka skilið hrós fyrir sín framlög til þróunar þessarar stefnu.
Venom – Welcome To Hell (1981)
Þessi plata er af mörgum talin eitt mesta stökk framávið í Metal-sögunni. Með því að blanda saman drunga “Black Sabbath” og hraða “Motörhead” varð útkoman þessi; Fyrsta Black Metal platan! Að vísu ekkert í líkingu við það sem þekkist sem Black Metal í dag en hraðinn, brjálæðið og kirkjugarðsandrúmsloftið er allt til staðar. Ári seinna gáfu þeir út sína aðra plötu (sem hét einfaldlega “Black Metal”) og þar með var nafnið komið. Einnig má segja að þeir hafi í leiðinni sett niður enn einn steininn í átt að Thrashinu.
Iron Maiden – The Number Of The Beast (1982)
Þetta er bara einhver mesta klassík í rokksögunni! Þriðja plata Maiden og sú fyrsta sem innihélt hið ótrúlega raddsvið Bruce Dickinson. Grípandi og vel útfærðar gítarharmóníur sem margar hljómsveitir reyndu að líkja eftir seinna meir og Bruce Dickinson setti standardinn fyrir það hvernig Metal-söngvari ætti að syngja. Maiden voru leiðandi afl í British Metal sprengjunni og ein af fáum sem lifðu hana af. Meistarastykki sem er skyldueign!
Christian Death – Only Theatre Of Pain (1982)
Undir áhrifum frá böndum eins og “The Birthday Party”, “Rainbow” og “Bauhaus”, sköpuðu Christian Death þessa fyrstu “Goth Metal” plötu. Drungalegir synth-ar, þungir gítarar, bjöllur og miðaldarfílingur sem gaf mörgum sveitum innblástur og þessi stefna hefur verið vinsæl æ síðan.
Metallica – Kill ´em All (1983)
Ein áhrifamesta platan í þróun málmsins! Búið var að bíða eftir frumraun þessara manna með mikilli eftirvæntingu í langan tíma og þegar Kill ´Em All kom loksins út, urðu fáir fyrir vonbrigðum. Hér er á ferð fyrsta heilsteypta og fullmótaða Speed/Thrash Metal platan. Lagasmíðar Metallica þóttu mjög sérstakar en voru það samt ekki lengi þar sem heil bylgja af ungum hljómsveitum tóku upp þennan stíl og úr varð ein stærsta og athyglisverðasta sena sem menn muna eftir; “Bay Area Thrashið”!!!
Def Leppard – Pyromania (1983)
Nú verða örugglega einhverjir fýlusvipir þegar þetta er lesið. Hægt er að deila endalaust um hvort þessi plata hafi haft góð áhrif eða slæm áhrif, en áhrifamikil var hún samt! Til eru mörg slangur yfir þessa stefnu “Pop-Metal”, “Lite-Metal”, “Hair-Metal” og “Glys”. Hérna voru tekin partívænu áhrifin frá m.a. “Kiss” og “Van Halen” með sterka áherslu á grípandi, margrödduð viðlög með tilsvarandi hárgreiðslum og málningu. Fjöldinn allur af böndum fylgdu í kjölfarið þar sem þessi tónlist var hin mesta söluvara, t.d. “Mötley Crue”, “Bon Jovi”, “Poison” og “Skid Row”.
Possessed – Seven Churches (1985)
Almennt talin fyrsta alvöru Death Metal platan. Florida senan var búin að vera grasserandi í nokkur ár en böndunum gekk illa að komast á samning. Þessi plata breytti því, ljóst var að hér var um eitthvað nýtt og spennandi að ræða og plötufyrirtækin kepptust við að sanka að sér Death Metal sveitum. Þessi plata varð umsvifalaust að klassík og setti farveginn fyrir bönd eins og “Morbid Angel” og “Deicide”.
Slayer – Reign In Blood (1986)
Pheew!!! Hvað er hægt að segja um þessa plötu. Slayer endursköpuðu Thrashið með þessu meistaraverki! Þvílíkur hraði, reiði og brjálæði hafa ekki heyrst fyrr né síðar. Ég las lista (í Kerrang! minnir mig) árið 2000, yfir þyngstu plötur allra tíma (að mati tónlistarblaðamanna í USA) og þar sat þessi gripur ennþá efstur, 14 árum eftir útgáfu. Það segir ýmislegt. Fyrir Slayer dugði bara ekkert hálfkák, annaðhvort að gera þetta almennilega eða bara sleppa því!
Candlemass – Epicus Domicus Metallicus (1986)
Þegar flest böndin kepptust um að spila sem hraðast, birtust allt í einu þessir Svíar með frumraun sína og brutu allar reglur. Tónlist þeirra rétt skreið áfram á nánast engu tempoi, var samt nýðþung og vonleysið, örvæntingin og þunglyndið bókstaflega lak út úr hátölurunum. Áhrifin frá fyrstu plötu “Black Sabbath” voru sterk. Þessi nýja stefna fékk heitið Doom-Metal og afkomendur eru t.d. “Cathedral”, “Paradise Lost” og “Isis”.
Napalm Death – Scum (1987)
Grincore!!! Einhver skondnasta tónlistarstefna sem til er og Napalm Death er hljómsveitin sem ber hvað mesta ábyrgð á fæðingu hennar. Hér er það bara hraðinn sem ræður ríkjum, engar melódíur, riff sem vart er hægt að greina og öskur sem engan veginn er hægt að skilja. Hellingur af böndum fylgdu, m.a. okkar ástkæru “Forgarður Helvítis”. Þessi frábæra sveit er líka sérstök að því leiti að ekki einn meðlimur sem spilaði á þessari plötu er enn í hljómsveitinni, samt starfar hún ennþá. Fyrrum meðlimir hafa líka farið og stofnað ekki minni nöfn en “Cathedral” og “Carcass”.
Mayhem – Deathcrush (1987)
Saga þessarar hljómsveitar er lyginni líkust; satanismi, ásatrú, kirkjubrennur, hótanir, morð, sjálfsvíg, mannát og önnur skemmtilegheit einkenndu þá í einkalífinu en þess fyrir utan voru þeir kóngarnir í hinni stórmerkilegu “norsku Black Metal” senu. Þessi plata er af mörgum talin einhver mikilvægasti hlekkurinn í þróun svartmálms eins og við þekkjum hann í dag.
Nine Inch Nails – Pretty Hate Machine (1989)
Synth-ar og tölvutrommur, ofan í harða gítara og bitur öskur. Trent Reznor bjó, með þessari plötu, til formúlu sem ótal hljómsveitir hafa fylgt síðan. Undir áhrifum frá “Big Black” og “The Cure” varð til fyrsta alvöru “Industrial Metal” platan. “Ministry” voru búnir að vera að þróa sinn stíl hægt og rólega út í Metal í gegnum árin og voru að finna sitt rétta sánd um þetta leiti með plötunni “The Mind Is A Terrible Thing To Taste”. Sú plata á því að sjálfsögðu líka hrós skilið!
Pantera – Cowboys From Hell (1990)
Margir halda að þetta sé fyrsta plata Pantera en það er ekki rétt. Pantera gáfu út sína fyrstu plötu “Metal Magic” árið 1983. Nokkrar plötur fylgdu í kjölfarið en það var ekki fyrr en þeir höfðu skipt um söngvara, trommuleikara og skipt algjörlega um stíl, sem hlutirnir fóru að gerast. Cowboys From Hell markaði nýtt upphaf fyrir Pantera og gerði þá að stórstjörnum í Metal-heiminum og að einni áhrifamestu Metalhljómsveit 10. áratugarins. Stórkostleg blanda af “Thrash” og “Power Metal”, sem fékk heitið “Sludge Metal”.
Death – Human (1991)
Death var stofnuð árið 1983 og hafði gífurleg áhrif á fæðingu “Death Metal”. Þeir voru aðalnúmerið í Florida senunni en reyndist erfitt að koma efni sínu út. Þegar það loksins tókst, árið 1987, var “Death Metal” orðið þekkt hugtak og fékk Chuck Schuldiner (forsprakki Death) kannski ekki það hrós sem hann átti skilið sem brautryðjandi. Platan “Human” sýndi hins vegar nýja, melódískari og teknískari hlið á þessari stefnu og blés nýju lífi í senuna. Áhrifin liggja mitt á milli “Possessed” og “Beethoven” og var hvatning, til annara sveita af svipuðum toga, um að víkka út sjóndeildarhringinn og halda áfram að þróast. Meistaraverk!
Mr. Bungle – (1991)
Ein af þessum hljómsveitum sem skipa manni að hugsa! Tónlistin á þessari plötu þótti í meira lagi furðuleg (og þykir enn) en hún er svona hálfgerð “extreme Funk-Metal, Ska-Punk, Thrash, Jazz, Circus-music” blanda. Stórkostleg hljómsveit sem ég mæli eindregið með. Mike Patton (söngur) hefur komið við á mörgum stöðum (m.a. “Faith No More”, “Fantomas”) og er óneitanlega einhver áhrifamesti Metal-söngvari síðustu ára og hefur þessi plata orðið t.d. “System Of A Down” og “Estradasphere” aðstoð við sína tónsköpun.
Dream Theater – Images & Words (1992)
Þessi súpergrúppa er samsett af þaullærðum tónlistarmönnum sem hafa hreynt ótrúlegan skilning á listforminu tónlist. Platan “Images & Words” gaf nýja sýn inn í það hvað hægt er að gera á hljóðfæri og hefur verið innblástur nær allra “Prog-Metal” hljómsveita seinni ára. Flóknar og vandaðar lagasmíðar sem sækja kannski mest áhrif í hljómsveitirnar “Rush”, “Watchtower” og “Queensryche”.
Sepultura – Chaos A.D. (1993)
Brasilísku meistararnir í Sepultura hafa þróast mikið með árunum. Fyrstu plöturnar voru svona týpískar (ekkert spes) “Death Metal” plötur en “Beneath The Remains” og “Arise” sýna progressívari hlið á þeim. Á þessari plötu eru þeir hinsvegar komnir með sánd sem er alveg þeirra eigið og hljómsveitir hafa keppst um að reyna að ná. Ótrúlegur kraftur, “Tribal” taktar og alls kyns þriðja heims hljóðfæri settu farveginn fyrir nýja stefnu, “Tribal-Metal”.
Korn – (1994)
Konungar “Nu-Metalsins”. Undir sterkum áhrifum frá t.d. Sepultura og Pantera, komu þessir drengir með sína “Hip-hop Metal” blöndu og sigruðu heiminn. Eftir “Grunge” sprengjuna ’91 hafði Metal verið álitið frekar hallærislegt af almenningi, en Korn breyttu því, og það er þeim að þakka (eða þeim að kenna) að Metal varð aftur mainstream. Ég býst við að það þurfi ekki að telja upp þær sveitir sem hafa sótt í áhrif frá þessari plötu.
Marilyn Manson – Antichrist Superstar (1996)
Marilyn Manson & The Spooky Kids spiluðu ósköp venjulegt “Industrial Metal”. Þeir gerðu nokkur misgóð demo sem á endanum náðu athygli Trent nokkurs Reznors sem tók þá undir sinn væng. Fyrsta platan bar sterkan “Reznor” keim en þessi plata býður upp á allt annað. Í raun kom MM ekki með neitt nýtt, heldur bara þessa skemmtilegu “Bowie”, “Alice Cooper”, “Nine Inch Nails”, “Goth” blöndu sem svínvirkaði. Tónleikaferðin sem fylgdi í kjölfarið var skrautleg, þar sem kirkjusöfnuðir komu jafnan saman til að kveða burtu illa anda o.s.frv!
Dillinger Escape Plan – Calculating Infinity (1999)
Þó svo þeir séu undir áhrifum frá mörgum af fyrrnefndum böndum, eins og “Death”, “Mr. Bungle”, og jafnvel “Napalm Death” og “Dream Theater”, koma Dillinger Escape Plan samt úr “Hardcore Punk” senunni. Þó er bara ekki hægt að neita Metal áhrifunum. Tónlist þessara pilta er einhver sú öfgafyllsta, harðasta, hraðasta og flóknasta sem ég hef heyrt og er nánast ómögulegt að flokka hana, en ég heyrði einhverntíma notað hugtakið “Math-Metal” sem mér finnst passa fullkomlega. Áhrif þeirra á tónlistarheiminn eru kannski ekki orðin áberandi en ég get lofað ykkur að þetta mun standa uppi sem einhver mikilvægasta Metal-plata sögunnar eftir nokkur ár!
Tool – Lateralus (2001)
Mögnuð plata!!! Tool voru lengi á þessari fínu línu milli “Alternative” og “Metal”, svipað og “Faith No More” eða “Melvins” það sem af leið 10. áratugsins en sönnuðu sig sem eitt besta “Prog-Metal” band heims með plötunni “Ænima”. Platan “Lateralus” er samt einhver fallegasta Metal-plata allra tíma og er strax farin að sanna sig sem áhrifavaldur, t.d. á nýju plötu “Isis”. Draumkennd, drungaleg, þung og þægileg, allt í senn. Heyra má áhrif frá t.d. “Pink Floyd”, “Mike Oldfield”, “Metallica” (…And Justice For All), og auðvitað “Rush”.
Þá er það komið, vonandi gat þetta orðið einhverjum að fróðleik og skemmtun. Látið mig vita hverju ég gleymdi!
Takk!
hangove