Dream Theater - Metropolis Pt.2:Scenes From A Memory (1999)
Ég ákvað að skrifa um meistaraverkið Scenes From A Memory sem Dream Theater sendu frá sér árið 1999, vegna þess að ég las þá ágætu grein um Images & Words sem var send hingað á Huga fyrir stuttu og einnig vegna þess að þessi diskur, Scenes From A Memory er minn uppáhaldsdiskur með Dream Theater, og einn af allra bestu diskum sem ég hef heyrt á lífsleiðinni. Þessi diskur er settur upp sem leikrit, og hefur dramatíska sögu að segja. Ég ætla hins vegar ekki að fjalla um hana sem slíka, heldur aðalega tónlistina sem þessi diskur hefur að geyma. Ég vill líka taka það fram áður en ég byrja að ég mun ekki gefa neinu lagi sérstaka einkunn, þar sem ég gef þeim öllum 10/10, hvert einasta lag er hreinlega stórkostlegt.
Söngur……………………………………… …..James LaBrie
Bassi…………………………………… ………..John Myung
Gítar, söngur………………………………….John Petrucci
Trommur, slagverk, söngur……………Mike Portnoy
Hljómborð………………………………. …….Jordan Rudess
Act I.
Scene One : Regression…………………………………..2:06
Scene Two : I. Overture 1928…………………………..8:49
II. Strange Déjá Vú
Scene Three : I. Through My Words………………7:51
II. Fatal Tragedy
Scene Four : Beyond This Life………………………..11:22
Scene Five : Through Her Eyes……………………….5:29
Act II.
Scene Six : Home…………………………………………… …12:53
Scene Seven : I. The Dance Of Eternity……………10:00
II. One Last Time
Scene Eight : The Spirit Carries On…………………..6:38
Scene Nine : Finally Free………………………………….12:00
Act I.
1. Scene One : Regression (John Petrucci): Þetta lag er mjög gott opnunarlag. Það byrjar með tifi í klukku karlmannsröddu vera að dáleiða hlustandann. “Close your eyes and begin to relax, take a deep breath and let it out slowly”. Þetta heldur áfram þar sem hann beinir manni í algera slökun, og hefur svo að telja niður. Þegar hann er hálfnaður á því byrjar fallegur kassagítarshljómur koma hægt inn í lagið. Þegar talningunni er lokið heyrist í röddu James LaBrie, hinum stórkostlega söngvara Dream Theater. Þetta lag er afar hlýtt og textinn er djúpur og skemmtilegur. Þetta lag opnar líka sögunna sem diskurinn hefur að geyma. Laginu lýkur svo og leiðir inn í næsta lag…
2. Scene Two : I. Overture 1928 - Instrumental (Dream Theater): Á eftir Regression tekur þetta mikilfenglega lag við. Það byrjar á öflugum trommuslætti sem stigmagnast og gítarinn leikur hljóðlega með. Stutt þögn kemur og hér er diskurinn hafinn fyrir alvöru. Öll hljóðfærin taka við sér og flytja stórkostlegt samspil. Allur hljóðfæraleikur er óaðfinnanlegur í þessu lagi sem og á allri plötunni, enda er Dream Theater samansafn af snillingum. Í laginu koma bæði gítarsóló og tvö hljómborðssóló. Allt er þetta flutt á mikilfenglegan hátt, og maður verður dolfallinn af vægast sagt ótrúlegu samspili allra hljóðfæraleikara. Ekkert er sungið í laginu, enda er það “instrumental” lag.Að lokum heyrum við trommuleikara sveitarinnar Mike Portnoy enda lagið skyndilega með trommusláttum.
3. Scene Two : II. Strange Déjá Vú (Dream Theater / Mike Portnoy) : Þetta lag sem er seinni hluti annars kafla hefst með nákvæmlega sama trommuslætti og endaði Overture 1928. Nokkurn veginn sama undirspil og í Overture 1928 heldur áfram, en tignarlegur söngur James LaBrie tekur nú að hljóma aftur. Og textarnir sem hann flytur með stórkostlegri röddu sinni eru heldur ekkert slor, heldur þvílíkir snilldartextar sem passa bæði vel lagið og hafa það hlutverk að lýsa sögunni sem diskurinn segir. “Subconscious Strange Sensation, Unconscious Relaxation. What a pleasant nightmare, and I can't wait to get there again”. Þetta er aðeins brot af annars löngum textanum við lagið og lýsir tilfinningum sögupersónunnar Nicholas. Þarna var hann semsagt nývaknaður upp frá draumi og hann vill ólmur komast aftur í draumaheiminn. Lagið endar á afar fallegu píanóspili.
4. Scene Three : I. Through My Words (John Petrucci) : Lagið byrjar á sama píanóspili og Strange Déjá Vú endaði á, en lögin á þessum disk eiga það til að leiða hvert inní annað, enda er verið að segja samfellda sögu. Þetta lag aðeins rétt rúmlega 1 mínúta, enda aðeins nokkurs konar formáli þriðja kafla. Það er afar lítið um þetta lag að segja, enda er það stutt og aðeins opnun fyrir næsta lag. Samt sem áður er lagið fallegt þrátt fyrir að vera stutt.
5. Scene Three : II. Fatal Tragedy (Dream Theater / John Myung) : Þetta lag hefst á píanóspili og söngi. Eftir um það bil hálfa mínútu bætist rafgítar og trommur inní spilið. Lagið breytist úr því að vera algerlega rólegt yfir í aðeins harðari takt. Textinn í þessu lagi er stórkostlegur, og er þetta eini textinn sem John Myung, bassaleikari sveitarinnar semur á þessum disk. Hljóðfæraleikur og samspil er afar flott og er tæknilega óaðfinnanlegur. Eftir nokkra stund af þessu sama, eða um það bil 3 og hálfa mínútu, tekur John Petrucci við með gítarspili, einkar flott. Héðan frá verður lagið harðara en áður. Mike Portnoy hefur að berja trommurnar af afli, og eftir það kemur eitt stórkostlegasta og guðdómlegasta samspil hljómsveitar sem eyru mín hafa nokkurn tíman orðið vitni af. Við fyrstu hlustun, og án alls gríns sortnaði fyrir augum mér. Mig svimaði bókstaflega. Meistari John Petrucci hefur að spila ógurlegt gítarsóló af sinni ótrúlegu færni. Maðurinn er sem guð í mínum augum, enda einn af allra bestu gítarleikurum jarðarinnar. Í framhaldi af þessu hefur Jordan Rudess, hljómborðsleikari sveitarinnar einnig að spila sóló, og er það ekki verra en það fyrra. Í enda lagsins er krafturinn orðinn nærri óbærilegur, og endar lagið skömmu síðar, með píanói og karlmannsröddu sem segir; “Now it is time to see how you die. Remember that death is not the end, but only a transition.”
6. Scene Four : Beyond This Life (Dream Theater / John Petrucci) : Næsta lag tekur við, og það með kraftmiklu gítarriffi. Trommurnar bætast svo við og ekki líður að löngu áður en Portnoy er byrjaður að viðra double-pedalinn sinn allhressilega. Kraftmikil byrjun, og viðtekur rólegri partur með söngi. Verið er að lesa upp úr dagblaði í byrjun, en þó er það ekki lesið inná diskinn, heldur syngur James LaBrie það inná. Til að útskýra þetta skal ég sýna þennann texta; “Headline: ‘Murder, young girl killed. Desperate shooting at Echo’s Hill. Dreadful ending, killer died. Evidently suicide”. Þetta er sungið, en eins og þið sjáið er verið að lýsa frétt úr dagblaði. Þess má einnig geta að þegar diskurinn er opnaður, og litið er á bæklinginn innan frá, þá er þar mynd með dagblaði á borðinu þar sem stendur einmitt “Murder, Young girl killed” í fyrirsögn. En nóg um það. Þetta lag skiptist oft úr því að vera rólegt yfir í kraftmikla keyrslu með sólóum hér og þar. Krafturinn er yfirgengilegur í laginu. Dream Theater ná fram alveg ótrúlega mikilli tilfinningu í tónlist sína, og hvert einasta lag á þessum disk hefur sína eigin röddu. Í dágóðan tíma gengur lagið þar sem nærri einungis sóló eruð spiluð. Söngurinn hefst svo aftur og lagið endar bráðlega. Ekkert nema stórkostlegt lag, eins og öll lögin á þessu disk.
7. Scene Five : Through Her Eyes (Dream Theater / John Petrucci) : Næsta lag sem tekur við er fyrsta alvöru lagið sem er rólegt allann tímann á disknum. Textinn í laginu er ótrúlega sorglegur og þegar ég heyrði þetta lag fyrst var ég virkilega nálægt því að fara að væla eins og smástelpa. Textinn spilar líka stóran hluta inn í söguna. Tilfinningin í þessu lagi er yfirþyrmileg. Þetta lag varð eina smáskífulagið af disknum. Þetta lag jafnframt stysta lagið á disknum, fyrir utan Regression sem aðeins inngangurinn í diskinn, og Through My Words sem er inngangurinn inn í Fatal Tragedy. Lagið fjallar um stúlkuna sem var myrt í Beyond This Life, og heimsókn Nicholas til hennar í kirkjugarðinn. Magnþrungið.
Act II.
8. Scene Six : Home (Dream Theater / Mike Portnoy) : Næst erum við leidd inn í upphafslag annars hluta, sem er jafnframt lengsta lagið á plötunni. Lagið hefst með gítarsplokki, og einkennilegum öskrum bakvið, öskrandi “ARÍBA!”. Allt saman er þetta afar flott, og það er mikill suður-Amerískur blær yfir þessari byrjun. Slagverkið bætist inní lagið smátt og smátt, hljómborð einnig og heldur áfram að magna upp lagið. Þetta heldur svona áfram í smástund þangað til John Petrucci hefur að misnota wah-wah petalinn sinn af mikilli snilld, spilandi afar flott riff, og heldur áfram með suður-Ameríska blæinn yfir laginu. En lagið tekur fljótum breytingum þegar grófur og þungur kafli hefst. Söngurinn tekur að óma og lagið tekur nokkuð mörgum breytingum. Þetta er frábært lag eins og öll hin lögin á þessum disk. Það inniheldur marga mjög flotta kafla, ásamt frábærum sólóum.
9. Scene Seven : I. The Dance Of Eternity - Instrumental (Dream Theater) : Næsta lag hefst á afar flottum bassa og smávegis hljómborði. Vægur trommusláttur hefst, og svo bætist einnig léttur gítar. Lagið verður svo aðeins öflugra í smástund, en svo tekur aftur við léttur rafgítar, í sambland við allt hitt, og er þetta allt saman flutt af stakri snilld. Lagið þyngist ýmist eða léttist til skiptis, allt frá frekar þungu samspili gítars og tromma yfir í afar fjörugan píanópart. En þeir Dream Theater menn tryggja að maður nýtur tónlistarinnar til fullnustu allann tímann. Þetta er annað ‘instrumental’ lag plötunnar, en þetta er þónokkuð léttara heldur hið fyrra. Þetta lag myndi ég telja vera frekar skrýtið, en samt sem áður er þetta allt saman afskaplega tignarlegt og flott. Lagið endar á flottum trommuslætti sem leiðir inn í næsta lag.
10. Scene Seven : II. One Last Time (Dream Theater / James LaBrie) : Lagið hefst á kunnulegum píanóparti sem hefur áður heyrst í einu af fyrri lögum á þessum disk. Afar fallegur söngur James LaBrie svífur létt yfir laginu, og ég kem því varla í orð hvað hann er frábær söngvari. Lagið heldur áfram í sama rólega farinu, þangað til við heyrum kunnulegt gítarsóló spilað aðeins öðruvísi. Textinn fjallar um rannsókn morðsins og heldur framvindu sögunnar áfram. Þetta er allt saman flott, en lagið er í styttra sniðinu, eða tæpar 4 mínútur. Með þessu lagi lýkur níunda kafla sögunnar.
11. Scene Eight : The Spirit Carries On (Dream Theater / John Petrucci) : Jæja, þá erum við komin að hreint út sagt guðdómlegu lagi. Textinn er vægast sagt alveg ótrúlega góður, og hann inniheldur margar mjög áhugaverðar pælingar. Alveg yndislegt að hlusta á hann. Lagið er í rólegri kantinum, og er alveg ótrúlega fallegt. John Petrucci spilar fallegt gítarsóló af mikilli innlifun og tilfinningu. Hann sýnir okkur margsinnis á þessum disk að hann er einn sá besti gítarleikari sem mannkynið hefur alið af sér. Hann sýnir ótrúlega fjölbreytni, og sannar það fyrir okkur að hann er ekki bara fær um að gera tæknilega flókin sóló, heldur getur hann það sem ekki margir geta og það er að spila af tilfinningu. James LaBrie stendur sig afar vel hér sem og áður. Fyrir aftan spilið syngur kór sem fyllir lagið mjög mikið. Afar frábært lag, þið ættuð að skilja hvað ég meina þegar þið hlustið á það.
12. Scene Nine : Finally Free (Dream Theater / Mike Portnoy ) : Þá erum við komin að lokalaginu á þessum disk. Lagið byrjar með sömu karlmannsröddu og opnaði diskinn, og er hann að segja manni að vakna til nútíðarinnar eftir dáleiðinguna í byrjun opnunarlags plötunnar. Hann er að vísu að tala til sögupersónu sögunnar, Nicholas, en maður getur annað en tekið þessi orð til sín, þar sem platan er í raun dáleiðing ein. Það er sem maður sé í öðrum heimi þegar maður hlustar á hana. Þetta lag er afar epískt, og endar söguna vel. Maður heyrir ýmis hljóð í laginu sem eru úr sögunni, t.d. verið að gangsetja bílvél, öskur, skotum hleypt af byssum, rödd úr útvarpi og fleira. Lagið er það næstlengsta á plötunni, og endar plötuna vel.
Niðurstaða mín er sú að þessi diskur er einn sá besti sem tónlist í heild hefur alið af sér. Þetta er frábær diskur í alla staði, að mínu mati er ekki veikur blettur á henni. Fyrir mér er hann fullkominn, en það er að sjálfsögðu aðeins mín persónulega skoðun. Ég vill einnig benda áhugasömum á grein sem ég sendi inn um sögu Dream Theater fyrir nokkru, slóðin er http://www.hugi.is/metall/greinar.php?grein_id=66855 . Ég kann ekkert að gera linka eða svoleiðis dót þannig að þið verðið bara að copy/paste þetta inní í gluggan þarna fyrir ofan.
Ég vill líka benda þeim sem eiga eftir að heyra þennann disk að hlusta á hann í heild, frá fyrsta lagi til þess seinasta. Ég hlusta aldrei á þennann disk án þess að hlusta á hann allann, því þá finnst mér þessi ‘fílingur’ sem það er að hlusta á hann fara til spillis. Ég er ekkert að skipa ykkur að gera það, þið hafið ykkar hentisemi, heldur er ég aðeins að benda ykkur á það.
Takk fyrir.