Metallica - Master of Puppets Hérna á eftir ætla ég að fjalla um eitt af meistaraverkum rokksögunnar, plötuna sem markaði þáttaskil í sögu Metallica. Gagnrýnendur kepptust um að hrósa plötunni og aðdáendur héldu varla vatni yfir plötunni. Þessi plata þykir vera nokkuð thrashy, en það er vitað að Metallica reyndu að fá á sig aðra mynd en að vera einhver speed/thrashhljómsveit með þessari plötu. Og þeim tókst það að mínu mati. Á hátindi ferils þeirra þurfti auðvitað eitthvað að bresta, því miður þurfti það að bitna á einum meðlim hljómsveitarinnar, meistara Cliff Burton, einhverjum besta bassaplokkara sögunnar. Eins og allir vita var þetta síðasta plata hans með Metallica og ég pæli stundum í því hvernig Metallica væri í dag ef Cliff væri á lífi og Flemming Rasmussen væri ennþá að pródúsera fyrir þá. En nóg af fantasíum, hér koma lögin.

1. Battery – 5:12
Magnað opnunarlag. Flott gítarintro á spænskum kassagítar. Svo kemur flottur gítar og flottar trommur sem gefa til kynna að eitthvað stórt sé framundan. Eitt að hraðasta sem Metallica hefur gefið af sér. Lagið fjallar um hvernig menn lemja hvern annan í spað. Flottur rhytmi og svöl sóló hjá Kirk. Lars sér um að lemja húðirnar af miklu krafti. Eitt af þeirra bestu.
9/10

2. Master of Puppets – 8:35
Ótrúlegt lag. Ég myndi nenna að hlusta á bara rhytminn í tvo klukkutíma samfellt. Frábær texti um hvernig eiturlyfjafíkn, þá sérstaklega heróinfíkn, getur farið illilega með mann. Vel samið hjá þeim. Í laginu er einn rólegur partur sem kemur rétt fyrir miðju, rosalega flottur partur. Ég hef alltaf túlkað þennan hluta sem ástandið þegar maður er í vímu, allt er frábært og manni líður svo vel og svo þegar lagið fer að verða harðara þá er víman að fara og maður vill fá meira og meira og heimur fer að hrynja. Eftir þennan hluta kemur svo magnað sóló hjá Kirk. Án efa eitt af þeirra allra, allra bestu lögum.
10/10

3. The Thing That Should Not Be – 6:36
Fyrir utan þetta lag er þessi plata að eiginlega öllu leyti fullkomin. Einhvern veginn hef ég aldrei getað hlustað á þetta lag nema með fýlusvip. Ég bara þoli það ekki! Enda finnst mér eins og það eigi bara ekki heima þarna. Hálfgerður gothfílingur yfir því og sérstaklega leiðinlegt lag. Textinn fjallar um eitthvað neðansjávar og á það bara ekki heima á þessari plötu. Ekki gott lag.
4/10

4. Welcome Home (Sanitarium) – 6:27
Annað frábært lag frá þeim. Lagið er byggt á sömu bók og One Flew over the Cuckoo’s Nest var byggð á, frábær mynd. Þeir sem vita ekki enn hvað lagið fjallar um þá fjallar það um hvernig það er að vera læstur inn á geðveikrahæli. Það er ekki fyrri parturinn sem neitt magnaður, þótt hann sé góður, en það er endirinn á laginu, þ.e. síðustu 2 mínúturnar sem fá mig alltaf til að fá hárin til að rísa. Hef ég hlustað á þetta u.þ.b. 3-4x á dag í eitt og hálft ár og ekki byrjaður að fá minnsta leið af því.
10/10

5. Disposable Heros – 8:16
Mjög gott lag, en þó ekki næstum með þeirra bestu. Hratt og hrátt lag. Lagið fjallar um hvað það er gert mikið úr stríði en í raunveruleikanum er það hreint helvíti og er enginn sigurvegari. Það er eitt við þetta lag sem ég hef aldrei þolað en það er þetta gítarvæl sem Kirk laumar inn 2-3 í laginu, ekki flott finnst mér. Annars kemur svo mjög flott sóló og færir lagið upp á annað plan. Trommurnar eru líka svakalegar í þessu lagi.
8/10

6. Leper Messiah – 5:40
Fyrir utan The Thing That Should Not Be er þetta veikasti hlekkurinn á plötunni. Frekar óáhugavert lag með leiðinlegum rhytm. Lagið fjallar um þessa menn á Omega sem eru að græða á trú annarra. Dave Mustaine hélt því fram að hann hafi samið rhytmann á þessu lagi. Gat hann ekki valið aðeins betra lag til að rífast um segi ég. Það mál var þó leyst fljótlega. Ágætt sóló þó.
7/10

7. Orion – 8:27
Metallica hafa samið þrjú instrumental lög, The Call of Ktulu, To Live is to Die og þetta, Orion. Fyrir mína hluta er þetta langflottasta instrumental verk sem þeir hafa samið og eru hin þó líka frábær. Lagið líður hratt í gegn enda varla sá hluti sem er ekki skemmtilegur og grípandi. Lagið inniheldur þrjú gítarsóló og eitt bassasóló, er hægt að biðja um meira? Frábær gítarsólóin sem fá hárin til að rísa og bassasólóið sem er orðin goðsögn, það er þó ekkert flókið að spila það heldur er það bara svo flott og er það ‘trademarkið’ hans Cliffs. Þetta lag var spilað í jarðarför Cliffs.
10/10

8. Damage Inc. – 5:32
Ekkert meistaraverk en þrátt fyrir það gott lag með miklum hraða og flottu sólói. Enn og aftur fjallar James um tilgangsleysi ofbeldis og skemmdarverka. Varla hægt að segja neitt meira um þetta lag. Með bestu lögum þeirra.
8/10

Í heildina ætla ég að gefa þessari plötu fullt hús, 10/10. Þótt sum lögin draga hana aðeins niður þá eru önnur lög að hífa hana upp í hæstu hæðir. Meistaraverk og skyldueign fyrir alla sem hafa áhuga á metal.