Hérna kemur síðari hlutinn um Motley Crue.
Eftir að Girls, Girls, Girls kom út komst á kreik undarleg saga sem hljómsveitin og umboðsmaður hennar hefur alltaf neitað að væri sönn, en það var þó eitt og annað sem benti til þess að það væri nokkur fótur fyrir henni.
Árið 1987 gaf sig fram náungi sem heitir Matthew Trippe. Hann sagðist árið 1984 hafa verið staddur á bar þegar tveir menn settust við hlið hans. þeir fóru að spjalla saman og þeir kynntu sig sem Vince Neil og Nikki Sixx. Trippe sagðist hafa áttað sig á því hverjir þeir væru þó að hann hafi ekki hlustað neitt á MC. Hann var sjálfur tónlistarmaður og var alltaf með kassettu á sér af upptökum sem hann hafði sjálfur gert. Vince Neil hafði starx orð á því hversu Trippe og Sixx væru líkir og þeir fengu eintak af spólunni hjá honum og lofuðu að hafa samband ef þeim líkaði eitthvað af henni. Hann skrifaði símanúmer sitt á spóluna og skömmu síðar birtist umboðsmaður Crue, Doc McGhee og Neil og Sixx hurfu á brott með honum. Hann sagðist ekki hafa hugsað neitt um þetta frekar fyrr en hann var vakinn eina nótt nokkru síðar og í símanum var Doc McGhee. Það var sent eftir honum á limúsínu og honum var sagt að Nikki Sixx hafi Lent í mótórhjólaslysi og það væri óvíst hvort hann næði sér aftur. Hljómsveitin þyrfti að halda áfram og Sixx væri svo stór partur af bandinu útávið að þeir gætu ekki án hans verið að sinni. Trippe væri nógu líkur Sixx og kynni að auki að spila og því væri hægt að dubba hann upp sem Nikki Sixx .
Trippe segist þannig hafa leikið Nikki Sixx í nokkra mánuði og spilað á allmörgum hljómleikum með þeim. Hann segir að það hafi gengið svo langt að hann var farinn að undirbúa næstu plötu með þeim og hann hafi lagt til hugmyndir af sumu af því efni sem var notað á Theater of Pain. Það sem síðan kom í veg fyrir áframhaldandi starf var að hann var ásamt félaga sínum á fylleríi einhversstaðar, þegar félaganum datt skyndilega í hug að ræna áfengisverslun sem hann og gerði. Trippe og félaginn voru handteknir og dæmdir í grjótið. Nikki Sixx var á þessum tíma búinn að ná sér og rúmlega það. Hann kom því aftur inn í staðinn fyrir Trippe. Máli sínu til sönnunar lagði Trippe fram ljósmyndir sem teknar voru á þessum tíma. Samkvæmt þeim var ekki annað að sjá en að “Nikki Sixx” hafi oft verið með stór dökk sólgleraugu á hljómleikum á ákveðnu tímabili og í hópmyndum virtist sem hann hefði lækkað um allmarga sentimetra.
Hvort sagan er sönn skal ósagt látið, en engu að síður er hún nokkuð skondin.
Girls platan gerði ekkert nema auka hróður bandsins og þeir spiluðu fyrir enn fleiri áhorfendur en áður. Lífstíllinn var hinsvegar farinn að taka sinn toll og næstu árin á eftir fóru mikið til í allskonar rugl og vitleysisgang. Nikki Sixx sagðist m.a. eitt sinn hafa setið marga mánuði inná hótelherbergi og sniffað kók og amfetamín, glamrað á gítar, pantað vændiskonur, og hugsað um að kála sér þess á milli.
Þeir tóku sig að lokum verulega á, fóru í meðferð og hreinsuðu sig. Fyrsta platan sem þeir gerðu sæmilea edrú kom út 1989 og fékk nafnið “Dr. Feelgood” Hún fjallaði eins og nafnið bendir til meira og minna um fíkniefnaneyslu og það kom í ljós að Crue voru síður en svo gleymdir, því að Dr.Feelgood var langferskasta plata þeirra lengi og varð líka mest selda plata þeirra og seldist í um 8 milljón eintökum. Nokkur lög af henni urðu mjög vinsæl, eins og titillilagið, Kickstart My Heart og sérstaklega Without You sem náði efsta sæti á vinsældalista í USA. Á eftir fylgdu stórar hljómleikaferðir og m.a. spiluðu þeir fyrir 200.000. áhorfendur í Moskvu 1991 og þóttu kraftmeiri en nokkurntímann.
Árið 1991 kom út platan Decade of Decadance sem var einskonar best of plata þeirra ásamt nokkrum nýjum lögum. Hún fékk fínar viðtökur og seldist í meira en tveimur milljónum eintaka.
En þeir voru ekki lengi edrú og brennivínið og rokkstjönulífið fór að ná í skottið á þeim aftur og árið 1993 komu upp deilur þeirra í milli sem enduðu með því að Vince Neil var rekinn. Hann fór og stofnaði fljótlega sína eigin hljómsveit með Steve Stevens sem lengi var gítarleikari hjá Billy Idol. Þeir gáfu út tvær plötur sem vöktu ekki mikla athygli og óhætt að segja að Vince Neil væri kominn yfir sitt besta þá.
Fyrrum félagar Neil í Motley Crue létu líða nokkurn tíma tíma þar til nýr söngvari var ráðinn. Hann var John Corabi sem áður hafði verið í Scream. Á þessum tíma var grunge allsráðandi og þegar næsta plata Crue kom út þá kvað við nokkuð annan tón en áður. Platan hét bara Motley Crue og kom út 1994. Hinn nýi stíll Crue féll í grýttann jarðveg og þessi plata vakti litla athygli. Bæði þótti Corabi ekki passa vel inn í bandið og síðan hitt að lagasmíðarnar þóttu alls ekki nægilega góðar. Platan seldist ekkert í líkingu við fyrri plötur þeirra og fékk slæma útreið hjá gagnrýnendum.
Corabi var sparkað árið eftir og Vince Neil tekinn aftur í sátt. Hann hafði verið edrú um tíma, en þegar dóttir hans lést árið 1995 eftir stutta sjúkrahúslegu hellti hann sér í dóp og drykkju af meiri krafti en áður. Hann rústaði m.a. sportbílum og var handtekinn nokkrum sinnum fyrir slagsmál og barsmíðar.
Þeir gáfu út plötuna “Generation Swine” árið 1997. Þar reyndu þeir enn að feta nokkuð nýjar brautir, en lagasmíðarnar voru einfaldlega ekki nógu góðar og það bætti ekkert að henda inn endurfluttri útgáfu af laginu Shout at the devil. Platan var rökkuð niður af flestum og seldist illa.
Þeir áttu þó nokkuð dyggan hóp aðdáenda frá fyrri tíð, auk þess sem þeir félagar voru stöðugt í fréttum vegna skrautlegs lifnaðar og hjónabanda þar sem ýmislegt gekk á. Tommy Lee hafði verið giftur “leikkonunni” Hather Locklear og síðar Pamelu Anderson, varð sennilega frægari en nokkrusinni áður þegar umheimurinn komst á snoðir um myndband sem hann hafði tekið upp af sér og eiginkonunni í ýmsum stellingum. Í kjölfarið vildi Neil ekki vera minni maður og gerði myndband með tveimur klámmyndaleikkonum.
Það var ákveðið að gefa út aðra best of plötu 1999 og hljómleikaplötu sama ár. Live platan fékk nafnið “Entertainment or Death”.
Tommy Lee var neyddur til að halda sér edrú vegna þess að hann hafði hlotið skilorðsbundinn dóm vegna barsmíða og fleiri hluta. Hann þurfti að mæta vikulega í fíknefnapróf og honum gekk afar illa að lynda við féleaga sína í bandinu sem voru á kafi í dópi. Hann segir það hafa verið meginskýringu þess að hann hafi ákveðið að hætta í hljomsveitinni 1999 og stofna sína eigin hljómsveit. Þeir félagar hafa lítið talast við síðustu árin.
Í stað Tommy Lee var ráðinn Randy Castillo sem þeir höfðu þekkt í mörg ár og hafði verð trommari hjá Ozzy Osbourne, en hætt þar vegna veikinda. Þeir tóku upp plötuna “A New Tattoo” sem kom út árið 2000. Sú plata fékk ekki góða dóma fremur næstu plötur á undan, en hún seldist þokkalega. þeir fylgdu henni eftir með hljómleikaferð þar sem þeir fengu þrátt fyrir allt góðar viðtökur, en ferðin fékk tímabundinn endi þegar ljóst varð að Castillo væri orðinn veikur á ný. Hann lést rúmlega ári síðar. Í stað hans var mjög óvænt ráðin Samantha Maloney trommari Hole. Það trúðu margir vart sínum eigin augum þegar í ljós kom að það væri kvenmaður á trommunum hjá Crue. Hún ar þó aðeins ráðin til að klára hljómleikaferð þeirra á árinu 2000.
Nikki Sixx fór í enn eina meðferðina á árinu 2000 til að bjarga hjónabandi sínu og Donnu DErrico og mun hafa verið edrú síðan að mestu leyti. Hann fór að setja saman eigin hljómsveit sem hliðarspor frá Crue og var kölluð 1958. Hann beytti síðar nafninu í Brides of Destruction og hún sú hljómsveit hefur gefið út allavega eina plötu.
Motley Crue hefur að mestu leyti verið óvirk síðan 2001. það er búið að vera á dagskráinni hjá þeim að gefa út nýja plötu um nokkurt skeið en þar er fremur ólíklegt að það gerist. Það er enginn trommari í bandinu eins og er, Mick Mars greindist fyrir nokkrum árum með alvarlega liðagigt og hún mun vera farin að segja verulega til sín. Vince Neil er á kafi í sukki og rugli og mun vera orðinn gjaldþrota auk þess sem hann stendur í deilum við fyrrum eiginkonu sína og dóttur sem saka hann um að hafa tæmt bankareikninga og sjóði sem dóttirin átti. Hann hefur þó verið eitthvað að reyna fyrir sér í kvikmynda og sjónvarpsþáttaleik með misjöfnum árangri.
Rétt fyrir áramótin 2002/2003 komst af stað orðrómur þess efnis að á þessu ári væri fyrirhuguð kveðjuferð hjá Motley Crue, en miðað við ástandið er ekkert víst að af því verði