Á hljómleikaferðinni á eftir Number Of The Beast spilaði hljómsveitin á rúmlega 150 hljómleikum. Álagið af eilífum ferðalögum og ýmiskonar erfiðleikar í samskiptum við Harris urðu til þess að þegar ferðinni lauk haustið 1982 þá sagði Clive Burr trommari starfi sínu lausu og hætti. Það liðu nokkrar vikur þar til tilkynnt var um eftirmann hans, en það kom nokkuð á óvart því að sá sem var ráðinn var lítið þekktur trommari að nafni Michael McBrain, sem hafði verið stuttan tíma í frönsku hljómsveitinni Trust sem gáfu út nokkrar fínar plötur í kringum 1980. Hann hafði kynnst Steve Harris og félögum þegar Trust hitaði upp fyrir Maiden árið 1981. Margir töldu í fyrstu að hann væri franskur vegna þessa og auk þess sem hann var kallaður Nicko, sem hefði getað verið franskt nafn. Hann var hinsvegar fæddur og alinn upp í London eins og hinir í Maiden og hafði kynnst Trust í gegnum sessionvinnu. Fljótlega eftir að hann var ráðinn í ársbyrjun 1983 fór bandið til Bahamaeyja til að vinna hið erfiða verkefni að fylgja The Number of the Beast eftir.
Það fannst mörgum missir að Clive Burr, Hann var nokkuð sérstæður trommari sem gaf sándinu ákveðinn karakter og mörgum fannst sándið hjá hljómsveitinni aldri verða samt aftur. McBrain var hinsvegar afburða trommari og hann sannaði það þegar næsta plata kom út í maí 1983. Það hafði jafnvel verið beðið eftir henni með enn meiri eftirvæntingu en Beast. Stuttu áður en platan kom var lagið The Flight of Icarus gefið út á smáskífu. Platan fékk nafnið “Piece Of Mind” eða “stykki úr huganum” en í framburði gat það líka útlaggst sem Peace Of Mind eða “sálarró”. Myndin á umslaginu kom nokkuð á óvart því að þar var Eddie hlekkjaður niður á geðveikrahæli. Það voru ekki allir sáttir við plötuna og lagasmíðarnar og hún fékk bæði góða og slæma gagnrýni. Helst var sett útá það að lagasmíðarnar væru ekki eins öflugar og áður, en platan vann fjölda nýrra fylgjenda og fór í 3. sæti á vinsældalista í Bretlandi og 14 í Bandaríkjunum.
Síðasta lag plötunnar var langt epískt lag og hét To Tame A Land. Upphaflega átti lagið að heita Dune eftir vísindaskáldsögunni þekktu sem hefur m.a. verið kvikmynduð. Á þessum tíma var David Lynch að undirbúa mynd eftir sögunni og þegar það fréttist að lagið ætti að heita Dune var þegar í stað hótað málssókn. Nafni lagsins var breytt, en það tókst ekki í öllum tilvikum að breyta miðanum á plötunni og þar stóð í mörgum útgáfum plötunnar að lagið héti Dune. Annað lag á plötunni var samið undir áhrifum frá bók, en það var Where Eagles Dare eða Arnarborgin eftir Alistair McLean.
Hljómleikaferðin á eftir gekki frábærlega og showið á sviðinu var stöðugt að aukast. Þeir spiluðu á rúmlega 180 hljómleikum á 8 mánaða tímabili. Þeir tóku sér dálítið frí áður en upptökur hófust á næstu plötu. Það tafðist töluvert að gefa hana út af ymsum orsökum og þegar hún kom út í september 1984 þá voru þeir þegar búnir að vera í mánuð á hljómleikaferð þar sem þeir spiluðu m.a. víða um Austur Evrópu. Platan fékk nafnið “Powerslave”. Áður en hún kom út var eins og venjulega gefin t lítil plata með laginu Two Minutes To Midnight sem var vísan til dómsdagsklukkunar frægu sem tímaritið Atomic Science Bulletin birtir reglulega sem mælikvarða á það hversu mikil hætta sé á kjarnorkustríði. Önnur lög sem fengu mikla spilun voru Aces High sem fjallaði um orrustuna um Bretland og síðan titillag plötunnar Powerslave. Á umslagi plötunnar var Eddie orðinn að egypskum guði og honum hafði verið reist musteri. Nafnið á plötunni vísaði líka til þess að þegar egyspku faraóarnir dóu, þá voru oft þúsundir þræla grafnir lifandi með þeim í píramýdunum. Það vakti töluverða athygli að logkalagið á plötunni var um 15 mínútna langt og samið með kvæðið um sjómannin og albatrossinn í huga. Það var orðin venja að enda plöturnar með löngum lögum en þarna náði það eiginlega hámarki. Þrátt fyrir lengd lagsins varð það fastur liður á hljómleikum um langt skeið.
Það má kannski segja að á þessum tíma hafi vinsældir Iron Maiden verið hvað mestar. Hljómsveitin setti þá met þegar hún spilaði fjögur kvöld í röð fyrir fullu húsi í Long Beach Arena í Los Angeles. Það hafði ekki verið gert áður Þeir hljómleikar voru bæði teknir upp og kvikmyndaðir og það var gefið út að næsta plata yrði hljómleikaplata. Á þessum tíma kom líka upp einkennileg saga þess efnis að lesa mætti sögu hljómsveitarinnar úr plötuumslögum þeirrar. Á fyrstu plötunni var Eddie hrár og óreyndur. Á annarri var hann búinn að greiða sér og farinn að höggva mann og annnan og á Beast var hann orðinn risastór. Síðan kom óvissutímabil og Eddie var lokaður inni, en þegar Powerslave kom út þá var hann orðinn guð. Hvort Derek Riggs hugsaði þetta svona er erfitt að segja til um, en hugmyndin er skemmtileg.
Hljómleikaferðin á eftir Powerslave var gríðarleg. Hún tók um 13 mánuði og bandið spilaði á yfir 300 hljómleikum. Það var orðið tímabært að gefa aðdáendum sveitarinna tækifæri til að hlusta á hljómsveitina á liveplötu og síðan hitt að þeir voru eiginlega komnir í mikla þörf fyrir hvíld.
Hljómleikaplatan “Live After Death” kom út í október 1985. Hún var tvöföld og vandaður pakki, því að það fylgdu með textar allra laganna á henni sem var óvenjulegt með hljómleikaplötur og stór og mikill bæklingur með myndum úr túrnum. Ásamt plötunni kom út vídeó með sömu lögunum að mestu leyti. Sviðið á túrnum var býsna áhrifamikið og með egypskum blæ. Í lokin opnaðist gyllt stytta af Eddie sem var aftan við hljómsveitina og út kom hann risastór vafinn eins og múmía. En það var ljóst að þeir myndu aldrei fara í aðra eins ferð og slavery túrinn, því að í lokin voru þeir orðin svo lúnir og leiðir á hverjum öðrum að bandið var við það að liðast í sundur.
Næasta plata þeirra kom út í júní 1986 og fékk nafnið “Somewhere In Time”. Þá var Eddie orðinn cyborg og flaug um á geimskipi. Á umslaginu var Eddie var staddur í einhverri stórborg og þar mátti lesa ýmsilegt sem vísaði í sögu hljómsveitarinnar. Það mátti lesa fréttir um stórsigur West Ham og klukkuna vantaði 2 mínútur í miðnætti, auk þess sem skemmtistaður á myndinni hét Ruskin Arms svo nokkuð sé nefnt. Platan seldist mjög vel eins og síðustu plötur, en engu að síður fékk hún á sig töluverða gagnrýni. Þarna notaði hljómsveitin synthesizera í fyrsa sinn, en það sem aðallega var gagnrýnt var það að lögin væru samin eftir staðnaðri formúlu sem væri búið að margreyna áður. Flest lögin voru nokkuð löng og þau sem fengu mesta spilun voru Wasted Years og Stanger In A Strange Land.
Það leið nokkuð langur tími þar til næsta plata kom út og í fyrsta sinn liðu tvö ár á milli platna, en þeir höfðu alltaf gefið út plötu á hverju ári síðan sú fyrsta kom árið 1980. Sú næsta kom í maí 1988 og fékk nafnið “Seventh Son Of A Seventh Son” og var þar vitnað til þess að hún var númer sjö í röðinni. Hugmyndin í kringum plötuna var um lífið frá fæðingu, til dauða og afkomendurna sem síðan taka við. Platan var óneitanlega með dálítið svipuðum blæ og Somwhere og hún fékk líka samskonar gagnrýni frá mörgum. Lögin væru samin eftir formúlu og fátt nýtt að finna. En platan seldist engu að síður vel.
Það var ljóst að eftir Seventh væri bandið á ákveðnum tímamótum og eftir þetta lá leiðin niðurávið af ýmsum orsökum. Bæði var komin þreyta í samstarfið og menn heldur ekki allir á einu máli um hvaða stefnu skyldi taka í framtíðinni. Það voru komnar fram margar nýjar hljómsveitir sem urðu vinsælar og metal heimurinn var á breytast. Það má líka segja að hvaða skoðun sem menn hafa á Iron Maiden, þá var hljómsveitin komin í ákveðna þurrð með hugmyndir.
Á umslagi Sevneth var Eddie að leysast í sundur og mátti eiginlega lesa það þannig að nú væri kominn tími til að breyta um og taka nýja stefnu. Það var ákveðið að taka algerlega frí frá hljómsveitinni í eitt ár og athuga hvort menn kæmu ekki ferskir til baka.