Þrátt fyrir góða sölu Led Zeppelin II voru samt ekki allir sáttir við plötuna. Margir gagnrýnendur héldu því fram að hún væri losaraleg og bæri þess greinilega vott að vera tekin upp í mörgum stúdíóum, enda var hún tekin upp á meðan á hljomleikaferð stóð. Því var einnig haldið fram að trommusólóið sem Bonham tók í Moby Dick hafi eingöngu verið sett þar til að fylla upp pláss á plötunni og enn aðrir héldu því fram að mikið af lögunum hafi verið stolið og stælt. Þannig átti t.d. Whole Lotta Love að vera stolið frá laginu You Need Love eftir Willie Dixon og The Lemon Song sömuleiðis stolið úr lagi Howlin Wolf. Reyndar fór Willie Dixon í mál við Zeppelin vegna þessa 25 árum síðar og fékk dæmdar skaðabætur vegna þess að hluti textans er sannarlega eftir hann. Það átti raunar eftir að fylgja Zeppelin alla tíð að þeir hafi fengið lánað hér og þar. En aðdáendum sveitarinnar var alveg sama um þessar raddir og og Whole Lotta Love varð eitt vinsælasta lag Zeppelin auk þess sem Moby Dick varð fastur sess á hljómleikum þegar Bonzo tók sólóið sitt.
Árið 1970 fór að mestu í hljómleikaferðir. Á milli þeirra drógu Page og Plant sig í hlé og fóru á Bron Yr Aur sveitasetrið í Wales, en þar hafði Plant verið í sveit þegar hann var gutti. Þar undirbjuggu þeir þriðju plötu Led Zeppelin. Það er talið að Page hafi þarna dustað rykið af ýmsu sem hann samdi þegar hann var í Yardbirds og jafnvel fyrir þann tíma. Á þessum tíma var ensk þjóðlagatónlist og norræn goðafræði hugleikin þeim félögum en Page var að auki farinn að stúdera mikið rit Alistair Crowley, sem var eins og kunnugt er enskur heimspekingur (1875-1947) sem ritaði mikið um galdra og djöfladýrkun. Crowley var sjálfur galdrameistari og árið 1970 keypti Page hús þar sem Crowley hafði búið síðustu ár ævinnar í Boleskin á bökkum Loch Ness í Skotlandi. Kaup Page á þessu húsi og áhugi hans á Crowley almennt, varð efni í margar sögusagnir. Bæði voru sögurnar um Zeppelin og Page sjálfan. M.a. hvernig hann stundaði særingar og djöfladýrkun auk þess sem dularfull tákn sem birtust á ýmsum plötum Zeppelin voru talin skilaboð til djöfladýrkenda. Sumir gengu svo langt að spila plötur Zeppelin afturábak og reyna að heyra einhver daulin skilaboð. Þessi hjátrú var óáran sem fylgdi rokkinu lengi, en hvarf sem betur fer að mestu þegar diskarnir leystu plöturnar af hólmi.
Þann 22. júní 1970 var merkur dagur í tónlistarsögu Íslands þegar Led Zeppelin komu og spiluðu fyrir troðfullu húsi í Laugardalshöllinni. Heimsókn þeirra og þessir tónleikar voru afar eftirminnilegir ef marka má frásagnir þeirra sem þar voru. Plant mun hafa heillast töluvert af Íslandi enda hafði hann mikinn áhuga á norrænni goðafræði. Breska tímaritið Sounds tók viðtal við Plant árið 1981, um það leyti sem fyrsta sólóplata hans hafði komið út og aðspurður hvort hann ætlaði ekki að fylgja plötunni eftir með hljómleikaferð, þá svaraði hann að það væri ekkert endanlega ákveðið, en minntist á tónleika Zeppelin á Íslandi og gat þess að hann vildi gjarnan byrja túrinn í Reykjavík. Því miður varð ekkert af því. Þriðja plata þeirra félaga í Zeppelin kom út í október 1970 og hófst á laginu Immigrant Song, en texti þess ber þess merki að hafa líklega verið saminn undir áhrifum íslandsheimsóknar þeirra þó að ekkert sé víst með það. Platan hét einfaldlega “Led Zeppelin III”.
We come from the land of the ice and snow,
From the midnight sun where the hot springs blow.
Hammer of the Gods
Will drive our ships to new lands
To fight the horde, and sing and cry:
“Valhalla I am coming.”
How soft your fields so green
Can whisper tales of gore,
Of how we calmed the tides of war.
We are your overlords.
…… og svo framvegis, en menn geta dæmt hver fyrir sig um Íslandsáhrifin í textanum. En hvernig sem því líður er ljóst að þetta var stærsta og frægasta hljómsveit sem nokkrusinni hefur heimsótt Ísland og í þá daga var mikill metnaður hjá þeim sem sáu um listahátíð.
Led Zeppelin III olli mörgum vonbrigðum. Þar kvað við annan tón en á hinum plötunum. Flestir sem bjuggust við kraftmiklu rokki og blúslögum á milli urðu hissa þegar öll síðari hlið plötunar var undirlögð af kassagítartónlist og þar var m.a. að finna tvö þjóðlög í útsetningu Page. Platan fékk hörmulega dóma hjá flestum gagnrýnendum en ágætis viðtökur plötukaupenda. Sumir héldu því fram að vinsældir Zeppelin væru slíkar að þeir gætu í raun gefið hvað sem er út og það myndi seljast. Umslag plötunar var eftirminnilegt og eitt það sýrulegasta sem fram hafði komið. Allskyns myndum og litum blandað saman og forsíðan var þannig útbúin að hægt var að snúa spjaldi til að breyta henni.
Hljómleikaferðin sem fylgdi plötunni var enn stærri en áður og þeir fylltu sífellt stærri hallir. Hljómleiknum fylgdi oft mikið brambolt og ófáar sögur eru til um hótelherbergi sem var rústað. Það var sérstök listgrein þeirra félaga að henda sjóvörpum út um hótelglugga og eitt sinn þegar Peter Grant umboðsmaður þeirra var að gera upp reikninginn ásamt skaðabótum vegna skemmda, þá á hótelstjórinn að hafa sagt að hann hafi alltaf langað til prófa að kasta sjóvarpi út um glugga. Grant á þá að hafa rétt honum nokkra 100 dollara seðla og sagt “gjörðu svo vel og prófaðu það á okkar reikning”.
Þeir félagarnir voru afar óánægðir með viðtökurnar sem LZIII fékk hjá gagnrýnendum og Page sagði að fólk hafi ekki gert sér grein fyrir því að hún var beint framhald af LZII. Í raun eins og hlið 3 og 4 á þeirri plötu. Þetta var ein af ástæðum þess að fjórða platan hafði ekkert nafn. Hún kom út 8. nóvember 1971 og hefur oftast verið kölluð “Led Zeppelin IV” eða Four Symbols og þar var vísað til þess að innan á umslagin var mynd af fjórum rúnatáknum sem hafa fylgt Zeppelin síðan. Táknin áttu að standa fyrir þá í hljómsveitinni. Þrír þeirra völdu sér tákn sem þeir fundu í bókum, en Page bjó sitt tákn til sjálfur. Þetta var þó að miklu leyti gert til að skapa dulúð í kringum plötuna og vísa til nafnleysis hennar. Þessi plata innihélt vinsælasta og þekktasta lag þeirra alla tíð, Stairway To Heaven sem hefur spunnið af sér óteljandi eftirlíkingar og endurgerðir. Önnur lög sem urðu þekkt voru Black Dog og Rock´n´Roll. Led Zeppelin IV varð mest selda plata þeirra og hafa selst hátt í 20 milljón eintök af henni fram til þessa dags. Á eftir henni fylgdi stór hljómleikaferð eins og áður.
Félagarnir tóku sér gott frí til að undirbúa næstu plötu en það hafði ekki gerst síðan fyrsta platan kom. Hinnar höfðu verið unnar á hlaupum á milli hljómleika. Þegar platan kom út var mikið til af kláruðum og hálfkláruðum lögum sem skilin voru eftir og geymd til betri tíma (m.a. undarlegt nokk titillag plötunnar sem kom þó út á næstu plötu) Platan kom út í apríl 1973 og var fyrsta plata þeirra sem fékk eiginlegt nafn, en hún hét “Houses Of The Holy”. Á henni var sem fyrr um að ræða ýmsar tilraunir. M.a. var lagið D'yer Mak'er alls ólíkt öllu sem þeir höfðu áður gefið út. Kæruleysislegur og glaðlegur reaggytaktur sem mun vera runninn frá Bonham. Lagið varð nokkuð vinsælt og er enn í dag. Nafnið á laginu olli töluverðum heilabrotum en það mun vera afbökun á nafni Jamaica borið fram eftir ákveðnum enskum framburði. Meðal annara eftirtektarverðra laga voru No Quarter og Rain Song. Hljómleikatúrinn á eftir var sá stærsti sem þeir höfðu farið og m.a. voru tónleikar þeirra í Madison Square Garden kvikmyndaðir til útgáfu síðar.
Það liðu tvö ár þar til næsta plata kom út. Það var “Physical Graffiti” Hún kom út í febrúar 1975. Þeir höfðu legið lengi yfir henni áður og nú var svo mikið til af lögum, bæði nýjum lögum og öðru sem var frá tíma Houses Of The Holy, að ákveðið var að hafa plötuna tvöfalda. Hún innihélt mörg lög sem hafa orðið eftirminnileg , m.a. titilliagið af Houses Of The Holy og síðan eitt af snilldarverkum þeirra, Kashmir, sem hefur verið stælt ótal sinnum og var m.a. endurgert af Puff Daddy og Page undir nafninu Come With Me. Hugmyndina að austrænum áhrifum í laginu mun Plant hafa fengið í heimsókn til Marokkó. Umslagið var afar frumlegt og var lengi dýrasta plötuumslag sem hannað hefur verið.
Það má segja að við útgáfu Physical Graffiti hafi frægðarsól Led Zeppelin náð mestum hæðum. Þar fóru saman tónlistarlegur þroski og þéttara og meira sánd sem var byggt upp af trommuleik Bonzo. Auk þess var tilfinningaríkur söngur Plant, kraftmikill gítarleikur Page og hugmyndaríkur orgel og bassaleikur Jones betri en nokkrusinni áður. Eftir þetta fór að halla undan fæti af ýmsum ástæðum og flestir telja að fyrri hæðum hafi aldrei verið náð.