Ég veit ekki hvort að “Metall” er réttur vettvangur fyrir grein um Led Zeppelin enda óravegur á milli þeirra og Slipknot, þó að fáar hljómsveitir hafi haft slík áhrif sem þeir félagar í Zeppelin. En mér sýnist að greinar hérna á metal sú lesnar nokkuð mikið og kannski þeir sömu sem lesa þetta og rokk, en anyway…….
Fyrsti hluti af þremur.
Upphaf hljómsveitarinnar má rekja til blúsrokk hljómsveitarinnar Yardbirds. Í henni höfðu verið margir snjallir tónlistarmenn og er þar nóg að nefna Eric Clapton og Jeff Beck. Árið 1967 kom síðasta plata Yardbirds út. Þá var gítarleikari hljómsveitarinnar hinn 23 ára gamli James Patrick Page eða Jimmy eins og hann var jafnan kallaður. Hann var búinn að vera í Yardbirds í rúm tvö ár, en hafði upphaflega verið ráðin sem bassaleikari. Hann og annar gítarleikarinn Chris Dreja skiptu þá með sér verkum og Dreja varð bassaleikari en Page tók við gítarnum. Yardbirds voru að syngja sitt síðasta á þessum tíma og allt að liðast smám saman í sundur vegna ýmissa deilna og samstarfsörðugleika.
Page hafði unnið töluvert við sessionspilamennsku bæði áður en hann fór í Yardbirds og meðan hann var þar. Vorið 1968 spilaði hann í upptökum á lagi hjá Donovan sem var vinsæll í hippatónslitinni á þessum tíma. Annar náungi sem vann við þessa upptöku var hinn 22 ára gamli John Paul Jones. Hann var úr mikilli tónlistarfjölskyldu og báðir foreldrar hans voru atvinnumenn í tónlistarbransanum. Hann hafði verið í ýmsum böndum og gefið út eitt lag 1964, en aðeins 18 ára gamall fór hann að vinna sem sessionmaður og spilaði oftast á bassa en einnig á hljómborð og sá um útsetningar. Auk þessa gat hann spilað á ýmis blásturshljóðfæri sem hann hafði verið neyddur til að læra á í æsku og notaði þá kunnáttu ekki mikið. Jones hafði meðal annars útsett hluta af lagi á síðustu plötu Yardbirds þannig að hann og Page þekktust frá þeim tíma. Þegar þessu sessionstarfi var lokið lýsti Jones því yfir að hann hefði mikinn áhuga á að vinna með Page einhverntímann í framtíðinni og bað hann að hafa samband ef svo bæri undir.
Stuttu síðar, eða í júní 1968 hættu þeir Keith Relf söngvari og James McCarthy trommari í Yardbirds. Ástæður þess voru bæði áhugaleysi fyrir áframhaldandi starfi Yardbirds og deilur um hvaða stefnu skyldi taka tónlistarlega séð. Eftir sátu Page og bassaleikarinn Chris Dreja. Þeir höfðu umboðsmanninn Peter Grant með sér og hann taldi þá á að ráða nýja menn því að framundan var tónleikaferð sem hafði verið bókuð nokkru áður. Í fyrstu reyndu þeir að ráða söngvara að nafni Brian Reid og BJ. Wilson trommara Procul Harum. Þetta gekk ekki eftir þar sem báðir voru samningsbundnir annarsstaðar og Reid stakk upp á því að þeir réðu annan söngvara í staðinn sem hann hafði heyrt í nokkrum sinnum. Sá væri tvítugur að aldri og héti Robert Anthony Plant. Hann hefði verið í ýmsum böndum m.a. hljómsveit sem hafði heitið Band Of Joy, en væri nú í hljómsveit sem héti Hobbstweedle (þvílíkt nafn).
Page og Grant fóru til að hlusta á Plant og eftir það var hann ráðinn. Stuttu síðar gafst bassaleikarinn Dreja upp á öllu saman og hætti. Þá efndi Page það sem hann hafði lofað John Paul Jones og réði hann sem bassaleikara í Yardbirds. Enn vantaði trommara og þá stakk Plant uppá því að þeir fyndu náunga sem hann hafði starfað með í Band of Joy. Sá væri tvítugur og héti John Bonham. Hann væri kraftalegur náungi sem gæti lamið húðirnar rösklega og væri kallaður Bozo. Það kom hinsvegarí ljós að Bonham var ekki sérstaklega viljugur að ganga til liðs við Yardbirds því að hann hafði úr ýmsum öðrum tilboðum að moða m.a. hjá Joe Cocker. Eitt af vandamálunum var að Bonham fjölskyldan hafði ekki síma og það fór allt þeim á milli með símskeytum. Það var ekki fyrr en eftir að Page hafði sent honum um 35 símskeyti að allt var klárt.
Þegar æfingar hófust varð Page fljótlega ljóst að hér var á ferðinni hópur sem small ótrúlega vel saman. Peter Grant umboðsmaður áttaði sig á því að hann var hér með gullmola í höndunum. Sándið sem náðist og fílingurinn í lögunum var engu líkur. Á þessum dögum var ákveðið í samráði við Grant að láta Yardbirds heyra sögunni til og stofna nýja hljómsveit sem yrði miklu rokkaðri. Þeir fóru þó fyrst í nokkurra daga hljómleikaferð um Svíþjóð, Danmörku og England í september undir nafninu The New Yardbirds. Þetta var eingöngu gert til að uppfylla samninga um tónleika sem bókaðir höfðu verið löngu áður.
Þegar heim kom var Grant þegar búinn að útvega plötusamning við hið bandaríska fyrirtæki Atlantic. Þeir Atlanticmenn höfðu svo mikla trú á því sem Grant lagði fyrir þá að þeir greiddu honum 200.000 dollara fyrirfram án þess að hafa nokkurntímann séð hljómsveitina. Upptökur á fyrstu plötunni hófust nær strax. Það hafði verið samið mikið af lögum bæði í ferðinni og á æfingum fyrir hana. Upptökurnar fóru fram í Englandi og tóku aðeins rúmlega tvo daga. Það hafði sennilega verið ákveðið áður en þeir fóru í ferðalagið sem New Yardbirds að nýja hljómsveitin héti Lead Zeppelin, eða “blýloftskipið”. Loftskip voru risastór helíum loftför sem þjóðverjar urðu frægastir fyrir að smíða og voru áberandi á millistríðsárunum auk þess sem þjóðverjar notuðu þau lítið eitt í báðum styrjöldunum. Þessi loftskip voru oft kölluð Zeppelin eftir fyrsta hönnuði þeirra sem var Ferdinand Von Zeppelin greifi. Þau voru þau stærstu flugtæki sem smíðuð hafa verið. Frægast þessara loftskipa var Hindenburg sem fórst í lendingu í Bandaríkjunum fyrstu ferð sinni yfir Atlantshafið árið 1937.
Hvernig það kom til að þeir tóku upp þetta nafn hefur aldrei legið alveg ljóst fyrir. Hugmyndin mun þó komin frá John Entwistle bassaleikara Who. Hann á að hafa fengið hugmyndina að nafninu og séð fyrir sér plötuumslag af Hindenburg loftfarinu að springa. Hann ætlaði að nota þessa hugmynd sjálfur en sagði Keith Moon trommara Who frá henni. Þegar Page og félagar leituðu að trommara áður en Bonham var ráðinn höfðu þeir m.a. samband við Moon. Hann sagði Page frá þessari hugmynd og eignaði sér hana. Entwistle brást hinn versti við þegar hann frétti af því að Page ætlaði að nota hugmynd hans, sem Moon var síðan búinn að eigna sér. En hann gerði ekkert frekar í málinu. Peter Grant áttaði sig hinsvegar á því að bandaríkjamenn myndu sennilega alltaf kalla bandið “Líd Zeppelin” (þ.e. lesa lead sem líd - forysta, en ekki sem led - blý) Hann lagði því til að nafninu yrði breytt í Led til að taka af allan vafa um framburðinn.
Fyrstu hljómleikarnir undir Zeppelin nafninu voru í Englandi í október 1968. Þeir voru einskonar prufukeyrsla á bandinu og þóttu takast vel, en að öðru leyti voru bretar fremur neikvæðir í garð þessarar nýju hljómsveitar og margir hristu hausinn yfir því að Page skyldi ekki nota Yardbirds nafnið áfram.
Fyrsta platan kom út í janúar 1969 og hét einfaldlega “Led Zeppelin” Á umslaginu var mynd af Hindenburg loftskipinu að fuðra upp. Jimmy Page var upptökustjóri og á plötunni var m.a. að finna tvö blúslög eftir Willy Dixon. Platan vakti strax gríðarlega athygli. Kraftmikið rokk með blús inná milli og frábær hljóðfæraleikur og söngur. Allt var þetta blanda sem féll vel í kramið, auk þess sem Grant var býsna glúrinn við að koma sveitinni á framfæri. Þessi fyrsta plata Led Zeppelin varð mest selda fyrsta plata nokkurrar hljómsveitar þar til Boston gáfu út frumraun sína árið 1976.
Zeppelin fóru strax í mikla hljómleikaferð um Bandaríkin sem Grant skipulagði út í ystu æsar til að ná sem mestri aðsókn. Bandaríkin urðu í upphafi helsta bakland Led Zeppelin og vegna þessa héldu margir að hljómsveitin væri bandarísk. Peter Grant var stundum kallaður “fimmti maðurinn” í Led Zeppelin vegna þess hve náin samvinna var á milli hans og þeirra sem í bandinu voru.
Árið 1969 fór að mestu í hljómleikaferðir en á milli þeirra tóku þeir upp næstu plötu. Hún kom út í október 1969 og fékk nafnið “Led Zeppelin II”. Hún seldist strax gríðarlega og sat m.a. í efsta sæti bandaríska vinsældalistans í nærri þriðja mánuði. Menn höfðu ekki séð svona viðtökur síðan á mektardögum Bítlanna og Stones nokkrum árum áður.