Ég skellti mér á fimmtudagsforleik 13. febrúar í Hinu Húsinu. Með í för var danskur vinur minn, Steen nokkur, tónlistarkennari og bassaleikari í sveitinni Inavoid frá Roskilde, sem var í heimsókn hjá mér um helgina. Eftirtaldar sveitir voru að spila um kvöldið:

- Lada Sport
- Diagon (stafsetning kannski ekki rétt)
- Brutal
- Fíkn

en ég hafði ekki heyrt að ráði í neinni af þessum sveitum áður.

Við komum reyndar aðeins of seint þannig að við misstum af Lada Sport, og Diagon voru að stíga á svið.

Diagon
Þessi sveit spilar nokkuð skemmtilegt hard rokk / metal, hrátt en þétt en það spillti svolítið fyrir hversu söngvarinn var slæmur. Hinn bráðsnjalli gítarleikari sá um sönginn, og að mínu mati ætti hann eiginlega að halda sig bara við gítarinn og fá annan til að syngja, ella að taka söngtíma, ef söngur er eitthvað sem er honum mjög kært. Af göllum var söngurinn s.s. lang-stærstur… því miður, því það skyggði á annars nokkuð skemmtilega frammistöðu sveitarinnar. Þetta er náttúrulega bara hvatning til sveitarinnar að bæta sönginn :)

Brutal
Brutal voru næstir á svið og komu mjög á óvart. Þetta er sex manna sveit, skipuð tveimur gítarleikurum, bassaleikara, trommara, söngvara og hljómborðsleikara.

Þessi sveit kom verulega á óvart. Hún sker sig svo sannarlega úr hvað varðar aðrar þungarokkssveitir hér á landi fyrir það að nota hljómborð (sem annars virðist vera einhvers konar bannorð í tónlistarsköpun hér á landi) en þeir nota það nokkuð grimmt og hátt í mixinu. Tónlistin var nokkuð fjölbreytt, flakkaði frá einu svona hálfgerðu pönklagi, yfir í melódískt thrash, yfir í gothic metal og svo doomy-death metal með þykkum hljómborðshljómi. Söngurinn skiptist á milli þess að vera í dauðarokkshamnum í sumum lögum og svona thrash metal söng í öðrum og svo mátti jafnvel heyra sterk Tom Waits áhrif í einu laganna.

Lög sveitarinnar voru nokkuð löng og kaflaskipt og hljómborðið notað mikið til að búa til þykkan hljóm og skemmtilega melódíur. Því miður var samt eins og eitthvað vantaði, en bæði mig og Steen grunaði að það væri vegna hljóðsins, sem hefði getað verið betra, því það skildi sum hljóðfærin eftir… t.d. heyrðist ekki nógu skýrt í trommunum (sem að mati Steen voru vitlaust mækaðar).

Fíkn
Eftir þetta stigu svo Fíkn á svið. Þeir gerðu lítið fyrir bæði mig og Steen og við yfirgáfum svæðið eftir aðeins tvö lög. Mér fannst eins og þeir voru einfaldlega of mikið að reyna að hljóma (og lúkka kannski) eins og Sign.


Brutal, ásamt Fræbbblunum og Halla Reynis á Grand Rokk lau. 15. feb.

Eftir mjög áhugaverða frammistöðu í Hinu Húsinu (HH) tveimur dögum áður var ég vel tilbúinn að borga 500 kall til að sjá þá á Grandinu, en Fræbbblarnir og Halli Reynis voru aukaatriði og ég ekki kominn til að sjá þá.

Sveitin var fyrst á svið og spilaði átta lög (tveimur fleiri en í HH), ásamt því að vera klappaðir upp fyrir aukalag. Það eitt og sér var nokkuð ansi vel að sér vikið, því að í áhorfendahópnum þarna voru merkilega fáir metal-fans og mikið af eldri Fræbbbla-aðdáendum sem klöppuðu mikið og vel, svo ekki sé minnst á þá sem voru komnir til að sjá trúbadorinn (!!) Halla Reynis.

Þetta kvöld var betur heppnað en í HH, líklega vegna þess að ég var að heyra sum lögin í annað sinn sem varð til þess að ein 3-4 lög var ég alveg að fíla í botn og meira að segja byrjaður að syngja með sumum… hehe. Hljóðið var einnig betra í þetta sinn og allt komst til skila ef frá er skilið að mér fannst gítarhljómurinn stundum frekar slæmur í sumum laganna (þarf samt að heyra þetta oftar til að geta metið það betur). Það gerði samt minna til, því að bandið var að sánda það vel saman og þykkur hljómborðsskotni hljómurinn góður.

Það er einmitt notkun hljómborðs í sveitinni sem er ljósasti punktur þessarar sveitar að mínu mati. Andri hljómborðsleikari notar allnokkrar stillingar á hljóm, allt frá einföldu píanói yfir í týpíska hljómborðstóna og svo heyrði ég einnig nokkra framandi tóna (á erfitt með að setja það í orð). Steen félagi minn sagði á fimmtudaginn að notkun hljómborðsins minnti hann svolítið á sveitirnar Tiamat og Amorphis… svona kannski helst í rólegu köflunum þegar á skiptust hraðir og hægir kaflar og píanótónarnir gerðu tónlistina mjög fallega og jafnvel rómantíska :) Frekari samlíking á aðrar sveitir mætti innihalda blackmetal sveitir eins og Cradle of Filth og Dimmu Borgir fyrir harðari kaflana, þó Brutal sé ekki eins hörð eins og þessar tvær sveitir.

Sviðsframkoman var ekkert sérstök, eflaust að einhverju leyti vegna smæðar sviðsins á Grandinu, því þegar þeir fóru að dreifa úr sér út á gólf skánaði hún til muna (og var frábær í síðasta laginu). Þeir eru samt mjög ungir ennþá (14-17) og eiga margt eftir ólært til að ná betur til áhorfenda og hrífa þá með á sviðsframkomunni. T.d. að sýna einhver svipbrögð (ekki standa eins og spítukallar), horfa svolítið á áhorfendur í bland við að horfa hver á annan (ekki standa hver í sínu horni að malla eitthvað)… og þannig fram eftir götunum.

Þrátt fyrir mikla hrifningu mína á þessu bandi eru þeir engu að síður mjög ungir og mér fannst einstaka sinnum (aðallega á fimmtudaginn) eins og það vantaði aðeins meiri slípun á hljóðfæraleik og samleik. Þetta er samt sem áður eitt allra-efnilegasta bandið á landinu í þessum aldurshóp sem ég hef heyrt í og þeir geta ekkert gert nema bætt sig enn frekar í framtíðinni. Ég hlakka mikið til að heyra í þeim á músiktilraunum með sín þrjú lög, en þeir geta valið úr svona cirka 4-5 mjög góðum lögum og eru bara í nokkuð góðum málum. Ég spái því að þeir komist langt…

Þorsteinn Kolbeinsson
Resting Mind concerts