Ozzy Osbourne - annar hluti.
Hérna kemur annar hlutinn um hinn litríka snilling Ozzy Osbourne.
Eftir að Sabbath Bloody Sabbath kom út og hljómleikaferðina þar á eftir fór svolítið að halla undan fæti hjá þeim félögum og margir telja að þeir hafi aldrei aftur náð fyrri hæðum. Ýmiskonar ósætti var komið upp innan bandsins og síðan voru þeir og þá sérstaklega Ozzy orðnir djúpt sokknir í sukk og neyslu á fíkniefnum. Umboðsmaður þeirra sagði seinna að þeir hefðu alltaf eytt u.þ.b. helmingi meira í dóp á meðan þeir væru í upptökum en kostaði að taka plötuna upp. Þekktustu lögin af Sabbath Bl. Sabb. urðu titillagið, Sabbath Bloody Sabbath, Killing Yourself to Live og Sabbra Cadabra sem Metallica tóku seinna og suðu raunar saman úr tveimur lögum af plötunni þ.e. Sabbra Cadabra og Spiral Architect.
“Sabotage” kom út 1975 og var hún bæði þung og tormelt. Hún fékk ekki góðar viðtökur, en í síðari tíð hafa menn farið að meta þessa plötu betur. Það varð þeim félögum mikið áfall þegar þeir komust að því að umboðsmaður þeirra var hinn versti svikahrappur og hafði hirt megnið af því sem borgað var fyrir hljómleikaferðir þeirra árum saman. Sem dæmi þá spiluðu þeir fyrir 40.000 áhorfendur á rokkhátið í Kaliforníu. Sabbath fengu greidda 5.000 dollar fyrir vikið. Það uppgötvaðist ekki fyrr en seinna að umboðsmaðurinn hafði samið þannig að hann fékk hinsvegar greidda 250.000 dollara. Þeir ráku hann í kjölfarið og réðu í staðinn bandarískann umboðsmann sem hét Don Arden. Hann átti unga dóttur sem vann hjá honum og hét Sharon. Þarna hitti Ozzy Sharon í fyrsta sinn. Hún sagði frá því seinna að hún hafi forðast að hitta hann því að hún hafi verið dauðhrædd við þennan klikkhaus. Af Sabotage er það helst Am I Going Insane? sem Ozzy samdi og Symptom of the Universe sem hafa lifað. Þarna var bandið farið að skiptast í tvennt, annarsvegar Ozzy og síðan hina. Síðar á árinu kom best of plata með Sabbath sem hét “We Sold Our Souls For Rock And Roll”
Næsta plata sem kom út árið 1976 hét “Techincal Ecstasy”. Hún þótti afburðaléleg og seldist illa. Flóknar pælingar með hljomborð og lélegar lagasmíðar. Það seig enn á ógæfuhliðina hjá bandinu og dópneyslan varð sífellt meiri. Ozzy fór að verða þekktur fyrir klikkaðar uppákomur sem síðan hafa sett mark sitt á allan hans feril. Hann rústaði hótelherbergjum og mætti ekki á hljómleika þegar honum datt það í hug. Stundum hvarf hann vikum saman. Eitt sinn gekk hann út í garð og skaut með haglabyssu öll hænsnin sem konan hans ræktaði á sveitasetri þeirra. Það var líka kominn verulegur losarabragur á samstarfið í Sabbath. Það var þó ljós punktur í lífi Ozzy að fyrsti sonur hans fæddist þetta ár.
Ozzy varð fyrir áfalli þegar faðir hans lést árið 1977. Hann sökk enn dýpra í þunglyndi og sukk og þegar var farið að undirbúa næstu plötu snemma 1978 þá fékk hann skyndilega nóg og sagðist vera hættur. Félagar hans í Sabbath reyndu að fá Glenn Hughes bassaleikara úr Deep Purple til að syngja en hann var sjálfur á kafi í neyslu svo að þeir hættu við það. (Hughes var ráðinn 10 árum seinna og söng á Seventh Star plötu Sabbath 1986). Þeir réðu að lokum söngvara sem hafði verið í Fleetwood Mac og hét Dave Walker. Hann tók upp lög með þeim sem áttu að fara á næstu plötu. Þeir tóku m.a. lagið Junior´s Eyes og fluttu það með Walker í Top of The Pops þættinum í BBC. Þá fékk Ozzy allt í einu löngun til að koma aftur og Walker var rekinn. Ozzy neitaði að syngja neitt af því efni sem Walker hafði tekið upp og því var öllu eytt. Lögin fengu ný nöfn og Geezer samdi nýja texta, en þó ekki við Junior´s Eyes, því að Ozzy hafði samið textann við það til minningar um föður sinn áður en hann hætti í bandinu.
Platan “Never Say Die” kom út 1978. Hún fékk ágætis dóma en seldist ekki vel, enda var ekki mikill grundvöllur fyrir þessa tónlistarstefnu á þessum tíma. Margir voru líka búnir að afskrifa bandið sem dóphausa og vitleysinga og þegar Sabbath fóru í hljómleikaferð um Bandaríkin árið eftir þá voru vandamálin augljós. Hljómsveitin var drulluléleg á sviðinu. Ozzy uppdópaður, allt of feitur og gat lítið sungið. Það sem bjargaði túrnum var ung hljómsveit sem hitaði upp hjá þeim og hét Van Halen. Þeir slógu síðar í gegn og hafa sagt að túrinn með Sabbath hafi kennt þeim mikið. Eftir túrinn var ljóst að þetta gæti ekki gengið lengur og Ozzy var rekinn. Því var ætíð haldið fram að hann hafi hætt sjálfviljugur, en nýlega viðurkenndu þeir félagarnir Geezer, Iommi og Ozzy að Ozzy hafi verið rekinn og Iommi hafi fengið Geezer til þess að segja honum fréttirnar því að hann gat hugsað sér að gera það sjálfur. Geezer hefur sagt að það hafi verið eitt af hans verstu augnablikum lífinu. Never Say Die var með mörgum grípandi lögum og titillagið ásamt Junior´s Eyes og Johnny Blade eru vel þess virði að hlusta á þau. Þetta var sennilega besta afurð Sabbath síðan Sabbath Bloody Sabbath kom út 1973.
Eftir brotthvarf Ozzy voru útgefendurnir svartsýnir á framhaldið og ákváðu að mjólka Sabbath nafnið aðeins meira með því að gefa út hljómleikaplötu sem fáir vissu að hafði verið tekin upp. Hún kom fyrir jólin 1979 og hét “Live At Last”. Margir höfðu beðið eftir því að það kæmi live plata með Sabbath svo að hún seldist nokkuð vel. Flestir sem keyptu hana urðu þó fyrir vonbrigðum því að hún var vægast sagt hörmuleg. Ozzy hálffalskur og kraftlaus og sandið líktist mest bergmáli í klósetti. Það lá ekki alveg ljóst fyrir hvenær platan var tekin upp. Af umslaginu mátti merkja að hún hafi verið tekin upp árið áður, en margt á plötunni eins og lagaval bendir til þess að hún sé mun eldri. Það kom síðar í ljós að hún var að mestu leyti tekin upp árið 1974. Sabbath í litlu formi og platan gerði þeim lítið gott.