Hér kemur síðari hlutinn um hljómsveitina Judas Priest.
Þeir félagar í Priest vissu að nú stóðu þeir á tímamótum og næsta plata myndi ráða framtíð þeirra. Hún kom út snemma árs 1980 og hét “British Steel”. Hún var miklu hrárri en fyrri skífur þeirra, en þó voru auðmeltar melódíur inn á milli. Platan stökk strax í 3 sæti á vinsældalistanum í Bretlandi og lögin Breaking the Law og Living After Midnight komust inná topp tíu í Bretlandi. Þriðja lagið, United náði einnig mikilli spilun. Umslag plötunnar vakti líka töluverða athygli en það var mynd af hendi sem hélt á stóru rakvélarblaði. Nafn plötunnar og umslag vísuðu til þeirrar endurreisnar sem heavy metal hafði fengið í Bretlandi og hljómsveitir sem spiluðu þessa gerð tónslitar spruttu upp hver af annarri. Sumar nýjar og aðrar gamlar fengu endurreisn. Platan seldist vel í Evrópu og Japan og Priest spiluðu nú um allan heiminn og víða var uppselt á hljómleika þeirra.
Það vantaði þó enn að slá almennilega í gegn í Bandaríkjunum og með næstu plötu “Point of Entry” sem kom 1981 var gerð skipuleg tilraun til þess. Platan var tekin upp við afslappaðar aðstæður á Ibiza og var miklu fínpússaðri en British Steel. Nokkur laganna þóttu minna á bönd eins og Aerosmith og Cars og sumir aðdáendur sveitarinnar voru ekki allskostar ánægðir með þessa breytingu, en platan seldist mjög vel og lögin Heading Out to the Highway, Hot Rockin og Don't go fengu öll mikla spilun í útvarpi og sjónvarpi. Desert Plains fékk líka mikla spilun og varð fastur liður á hljómleikum.
Næsta plata kom Screaming for Venegance út árið eftir eða 1982. Með henni tókst loks það sem að hafði verið stefnt og nú tókst Priest að slá i gegn í Bandaríkjunum. Lagið You Got Another Thing Coming komst í efsta sæti á vinsældarlista í Bretlandi og víðar. Lagið náði líka inná topp 10 í Bandríkjunum sem þótti býsna gott. Þessi plata seldist álíka mikið og allar plötur þeirra til samans fram að þessu. Nokkur önnur lög af plötunni eins og Hellion/Electric Eye, Take These Chains Off og Bloodstone náðu nokkrum vinsældum. Þeir ferðuðust um heiminn og spiluðu í tæp tvö ár eftir að Screaming kom út. Og Eftir það tóku þeir sér smá frí áður en upptökur hófust á næstu plötu.
Næsta plata kom út árið 1984 og hét “Defenders of the Faith”. Hún var mun þyngri en Screaming og lögin sem urðu vinsælust eins og Freewheel Burning, Some Heads Are Gonna Roll, The Sentinel og Eat Me Alive voru þyngri en fyrri hittarar þeirra. Defenders hélt merki þeirra á lofti, en gerði ekkert meira.
Til að auka vinsældirnar enn meira og ná hæðum sem þeir náðu með Screaming var tekin umdeild ákvörðun. Þeir ákváðu að nota gítarsynthesizer í mörgum laganna á næstu plötu og óneitanlega gaf það tónlistinni léttari blæ. Það mun ekki hafa verið eining um þetta innan sveitarinnar og Halford var aldrei ánægður með plötuna “Turbo” sem kom út snemma árið 1986. Hún seldist að vísu mjög vel, en margir af gömlu áheyrendunum snéru við þeim baki. Turbo varð næstmest selda plata Priest og lögin Parential Guidance og Hands Off komust á vinsældalista í Bandaríkjunum. Vinsældirnar í heimalandinu og Evrópu voru að dala og Bandaríkin voru orðin þeirra aðalvígi.
Þeir spiluðu á full næstu tvö árin og afrakstur þess varð hljómleikaplatan “Priest Live” sem kom út haustið 1997. Hún fékk nokkuð góðar viðtökur ásamt myndbandi sem var gefið út í kjölfarið, en það þótti alls ekki takast að ná þeirri stemmingu sem jafnan hafði fylgt Priest á hljómleikum og sveitin var þekkt fyrir.
Árið eftir, 1988 kom “Ram It Down”. Þar var keyrslan tekin upp að nýju og sándið hafði ekki verið jafn hrátt síðan á British Steel. Þessi plata fékk miklu betri viðtökur í Evrópu en vestra. Vinsælustu lögin voru Heavy Metal og síðan útgáfa þeirra af Chuck Berry laginu Johnny B Goode. Í kjölfar hljómleikaferðar sem fylgdi plötunni hætti Dave Holland trommari vegna veikinda og í stað hans var ráðinn Scott Travis úr hljómsveitinni Racer X. Travis var nógu ungur til að geta verið sonur hinna í bandinu og hafði lært að tromma í Berkley listaháskólanum. Hann reyndist frábær trommari og bandið fékk nýtt og öflugt sánd.
Árið 1990 kom síðan út “Painkiller” sem var hrárri og þyngri en flest sem þeir höfðu áður gefið út. Einn aðalgrunnurinn í sándinu var öflugur trommuleikur Travis. Nú voru Priest þeir líka komnir í samkeppni við margar af þeim hljómsveitum sem þeir höfðu sjálfir mótað eins og Pantera, Megadeth og fleiri. Painkiller vakti endurnýjaðan áhuga á þeim og hún seldist vel. Gömlu mennirnir virust ekki dauðir úr öllum æðum, en árið eftir kom upp mál sem átti eftir að setja mark sitt á framtíð hljómsveitarinnar. Foreldrar tveggja unglinga sem höfðu framið sjálfsmorð drógu hljómsveitina fyrir rétt vegna þess að synir þeirra höfðu verið að hlusta á lag sveitarinnar Better Than You Better Than Me í marga sólarhringa áður en þeir skutu sig. Innihaldi textans var kennt um hvernig fór og eftir löng og ströng málaferli féll málið niður, en það kostaði hljómsveitina samt nokkur hundruð milljónir í málskostnað og það komst losarabragur á samstarfið sem kannski varð til þess að Rob Halford hætti óvænt árið 1993 eftir um 20 ára feril með Priest. Hann fór og stofnaði sína eigin hljómsveit sem hét Fight og tók Scott Travis með sér. Fight gaf út tvær plötur áður en hún leystist upp og Halford var stuttan tíma með Black Sabbath og tók upp eitt lag með Pantera áður en hann stofnaði aðra hljómsveit sem heitir bara Halford og er búin að gefa út tvær plötur sem hafa fengið mjög góða dóma.
Eftir brotthvarf Halford leit fremur illa út með að Priest myndu nokkru sinni gefa út aðra plötu. Tipton gaf út sólóplötu og það gerðist fátt næstu árin annað en að 1993 var gefinn út tvöfaldur diskur með úrvali laga sem höfðu verið remixuð. Þesi diskur hét “Metal Works 73-93” og 1996 kom út “Living After Midnight - The Best of JP”.
Þeir félagar KK Downing, Glenn Tipton og Ian Hill leituðu í rólegheitum að nýjum söngvara og þeir fullyrða að það hafi aldrei staðið til að leggja bandið niður. Þeir reyndu ýmsa, en þegar þeir sáu vídeóupptöku með 28 ára gömlum bandaríkjamanni Tim Owens, þá töldu þeir sig hafa fundið þann rétta. Þeir sendu strax eftir honum og báðu hann að syngja með upptöku af Victim og Changes. Han var ekki búinn að syngja nema nokkrar línur þegar Tipton stöðvaði tónlistina og sagði “þú ert ráðinn”. Owens tók síðan upp nafnið Ripper Owens eða bara Ripper eftir lagi Priest sem kom út 1976. Scott Travis vildi ganga til liðs við þá aftur og gömlu mennirnir voru nú með söngvara og trommara sem gátu verið synir þeirra hvað aldursmun varðaði, en þeir höfðu fáu gleymt og fyrsta platan þar sem Ripper söng kom út 1997 og hét “Jugulator”. Hún var þyngsta plata þeirra til þessa og nýr rífandi kraftur kominn í bandið. Lagið Bullet Train var tilnefnt til Grammyverðlauna og Blood Stained náði nokkrum vinsældum.
Jugulator seldist ágætlega og þeir fóru í hljómleikaferðalag í kjölfarið sem var hljóðritað og kom út á tvöföldum diski sem hét “Live Meltdown” og kom út 1998. Þar kveður við nýjan og kraftmeiri tón. Rykið var dustað af eldri lögum þeirra og mikið spilað af British Steel. Þessi liveplata þótti hafa flest það sem Priest Live hafði ekki.
Í hitteðfyrra (2001) kom platan “Demolition” út. Hún var í svipuðum stíl og Jugulator og seldist betur. Sándið er hrátt og rífandi söngur Ripper nýtur sín vel. Lögin Hell is Home, Machine Man og Metal Messiah hafa fengið mesta athygli. Í kjölfar Demolition kom hljómleikaferð sem var hljóðrituð og enn ein liveplatan kemur út á næstu dögum og heitir “Live in London” Samkvæmt því sem sagt hefur verið voru þessir hljómleikar einum of góðir til að gefa þá ekki út þó að stutt sé síðan Live Meltdown kom. Gömlu mennirnir í Priest þeir Downing, Tipton og Hill verða allir sextugir á næstu árum, en þeir hafa sýnt að þeir gefa ekkert eftir og eru kröftugri en nokkru sinni fyrr.