Góðan daginn.
Eins og mörg ykkar hafa tekið eftir þá átti sér stað skelfilegur atburður þegar notandinn jerico tók líf sitt fyrir skömmu.
Jerico sendi inn kork á /rómantík um daginn þar sem hann var að létta af sér og segja frá sínum vandamálum. Mikið var um stafsetningarvillur hjá honum en hann var með lesblindu á háu stigi. Einnig kom það fram að hann hefur átt mjög erfiða ævi og upplifði sig mikið einan.
En að Hugarar hafi ekki getað litið framhjá stafsetningunni og nánast “ráðist á hann” með orðum er alveg óásættanlegt. Hann svaraði einhverjum af þeim sem settu út á stafsetninguna og bað þá aðila að hugsa um innihald korksins í staðinn fyrir stafsetningarvillurnar en það var virt að vettugi.
Eftir þetta mál hafa ég og fleiri stjórnendur huga ákveðið að taka harðar á gagnrýni um stafsetningu. Sumt fólk er bara svona af guði gert og ekkert hægt að gera í því.
Dæmið með jerico sýnir að orð særa meira en marga grunar og ég vil biðja notendur um að sleppa því frekar að svara heldur en að setja útá stafsetningu. Munið að aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Hér eftir verður tekið mikið harðar á allri stafsetningargagnrýni hér á /matargerð og viðvaranir sendar út undir eins. Ef einhver lætur ekki segjast þá verður sá sami hiklaust bannaður.
Með von um að allir fari að hugsa sinn gang og skoði sig aðeins um áður farið er í það að leiðrétta fólk.
Ég vil taka það fram að ég er EKKI að kenna notendum Huga.is um að hann hafi tekið líf sitt. Fáir hefðu getað séð þetta fyrir, en ég vona að fólk hugsi um þetta í framtíðinni.
Einnig vil ég þakka þeim sem svöruðu honum almennilega, það má ekki taka það frá þeim.
Hér er þráðurinn sem Jerico sendi inn fyrir þá sem vilja skoða hann:
http://www.hugi.is/romantik/threads.php?page=view&contentId=5937202
Svo vil ég einnig benda á söfnunarsjóð sem var gerður honum til handa og er hann hér:
http://www.hugi.is/tilveran/threads.php?page=view&contentId=5961786
Hvíldu í friði jerico og Guð veri með þér.
freki