Ég ætla að fara að gera konfekt um helgina og það eru TRUFFUSKOT, NÓATRUFFUR og LJÚFFENGAR sem ég hef hugsað mér að gera, leist best á þær uppskriftir. Hlakka bara til að borða það þegar ég verð búin :) En reyndar ætla ég að gefa hluta af því í jólagjöf. En ég vona að þið getið notað eitthvað af þessu :)
Eftirfarandi uppskriftir eru fengnar af vef Nóa Síríus (www.noi.is)
JAKOBSMOLAR
100 g núggat
35 g valhnetur
100 g marsipan
50 g flórsykur
50 g rúsínur
100 g Síríus rjómasúkkulaði
Hjúpur:
100 g Síríus suðusúkkulaði (konsum)
Brytjið niður núggatið, valhneturnar marsipanið og Síríus rjómasúkkulaðið. Setjið allt í matvinnsluvél og hakkið mjög vel saman. Mótið litlar kúlur og kælið. Hjúpið kúlurnar með Síríus suðusúkkulaði (konsum).
Hugmynd:Hér má einnig sleppa valhnetunum og hafa rjómasúkkulaði með hnetum.
LJÚFFENGAR
500 g Síríus rjómasúkkulaði
50 g smjör
150 g valhnetur
150 g marsipan
100 g rúsínur
Bræðið Síríus rjómasúkkulaðið og smjörið saman í potti. Saxið valhnetur, marsipan og rúsínur og blandið því saman við. Smyrjið á plötu og látið harðna. Skerið í bita.
TRUFFUSKOT
150 g Síríus suðusúkkulaði, (konsum)
1/4 bolli rjómi
25 g smjör
2 msk. Galliano, líkjör
1 tsk. skyndikaffi
Leysið skyndikaffið upp í rjómanum og setjið hann í skál ásamt súkkulaðinu og smjörinu og bræðið saman í vatnsbaði. Hrærið stanslaust í blöndunni. Setjið Galliano líkjörinn út og hrærið vel saman. Kælið vel. Setjið gómsætt kremið í rjómasprautupoka og sprautið því í konfektmót. (u.þ.b. 25 stk. )Geymið í kæli, en frystið ekki.
NÓATRUFFUR
2 1/2 dl rjómi
4 msk. smjör
500 g Síríus suðusúkkulaði (konsum)
6-8 konfektflöskur frá Nóa-Síríus (eða 3 msk. viskí eða koníak)
4 dl Nóa kropp, mulið
Setjið rjómann og smjörið í pott og hitið að suðu. Bætið súkkulaðinu út í og hrærið þar til það bráðnar. Takið af hellunni og kælið smávegis, áður en muldum flöskum og Nóa kroppi er bætt út í. Kælið vel. Mótið kúlur og veltið þeim upp úr muldum hnetum eða hjúpið með bræddu súkkulaði. (U.þ.b. 100 stk.)
NÝÁRSKARAMELLUR
1/3 kaffirjómi
1/2 bolli síróp
3 raðir Síríus suðusúkkulaði (konsum)
1/8 tsk. salt
1 tsk. vanilla
1/2 bolli hnetur
Setjið kaffirjóma, síróp, súkkulaði og salt í pott og sjóðið við meðalhita. Til að ganga úr skugga um hvort karamellurnar séu tilbúnar er snjallt að taka klípu af massanum á hnífsodd og kæla í köldu vatni. Ef auðvelt reynist að móta kúlu þá eru karamellurnar tilbúnar. Takið pottinn af eldavélinni, hrærið vanillu og hnetum saman við og setjið á smurða bökunarplötu. Kælið vel, skerið í ferkantaða bita og pakkið í glæran pappír.
APPELSÍNUTRUFFUR
1 dl rjómi
200 g Síríus rjómasúkkulaði
150 g Opal hnappar (orange)
2 msk. smjör
1 1/2 tsk. rifið hýði af appelsínu (eða líkjör, t.d. Grand Marnier)
Hitið rjómann að suðu, lækkið hitann, bætið súkkulaðinu út í og þeytið. Bætið smjörinu og appelsínuhýðinu út í, kælið. Setjið trufflurnar í konfektform eða mótið kúlur. Hjúpið kúlurnar með súkkulaði eða veltið þeim upp úr kakói og kókómalti. (U.þ.b. 50 stk.)