Austurlandahraðlestin af stað með stæl
Mig langar til að benda fólki á nýja indverska veitingastaðinn, Austurlandahraðlestina, sem búið er að opna ofarlega á Hverfisgötu (minnir að verslunin Höfuðleður hafi verið í húsinu áður). Við félagarnir kíktum þangað inn fyrir algjöra tilviljun um daginn og það er skemmst frá því að segja að enginn okkar hafði nokkurn tíma fengið jafn frábæran og velútlátinn mat á stað sem gefur sig út fyrir að vera skyndibitastaður eða take-away. Einhvers staðar heyrði ég að eigendur Austurlandahraðlestarinnar væru þeir sömu og eiga Austur Indíafélagið þarna rétt hjá en maturinn þarna minnti einmitt mjög á þann stað (og er ekki leiðum að líkjast). Ekki spillti fyrir að þjónusta var fljót og góð, ólíkt því sem maður á að venjast á mörgum öðrum skyndibitastöðum.