Í kjölfar greinarinnar um slátur hér að neðan langar mig til að skella inn uppskriftum af slátri. Hvet ég alla þá sem hafa tíma, til að taka slátur. Það er svo hagkvæmt ;o)

Blóðmör

1 ltr. lambablóð
1/4 ltr. vatn
1 msk. gróft salt
200g. hafragrjón
um 800g. rúgmjöl
6-800g. mör, brytjaður fremur smátt
saumaðir vambarkeppir

Blóðið síað og hrært með vatni og salti. Hafragrjónum hrært saman við og síðan rúgmjöli, þar til blandan er hæfilega þykk (oft er miðað við að hún sé svo þykk að sleif sem stungið er í hana geti staðið nærri upprétt). Síðast er mörnum hrært saman við. Best er að hræra með handleggnum. Sett í keppina; þá má ekki fylla nema rúmlega til hálfs. Þeim er svo lokað með sláturnálum eða saumað fyrir þá. Saltvatn hitað í stórum potti og keppirnir settir ofan í þegar sýður. Þeir eru pikkaðir vel með prjóni þegar vatnið fer að sjóða aftur. Látnir malla í 2 - 2 1/2 klst. eftir stærð við vægan hita og snúið við og við. Keppirnir teknir upp úr með gataspaða og látnir kólna.

Lifrarpylsa

3 lambalifrar, meðalstórar
1 ltr. mjólk, eða undanrenna eða kjötsoð
1 msk. gróft salt
300g. hafragrjón
200g. heilhveiti
um 600g. rúgmjól
800g. mör (eða eftir smekk), fremur smátt brytjaður
saumaðir vambarkeppir

Lifrarnar hreinsaðar og himnur og æðar teknar burt. Þá eru þær hakkaðar í hakkavél eða matvinnsluvél og síðan hrært saman við mjólkina og saltið. Hafragrjónum og mestöllu rúgmjölinu blandað saman og hrært út í lifrarmaukið. Meira rúgmjöli bætt við, þar til kominn er þykkur grautur, og síðan mörnum. Látið í keppina og þeir fylltir rúmlega til hálfs. Keppunum er svo lokað með sláturnálum eða saumað fyrir þá. Saltvatn hitað í stórum potti og keppirnir settir ofan í þegar sýður. Þeir eru pikkaðir vel með prjóni þegar vatnið fer að sjóða aftur. Látið malla í 2 - 2 1/2 klst. eftir stærð við vægan hita og keppunum snúið við og við. Keppirnir eru svo teknir upp úr með gataspaða og kældir, eigi ekki að borða lifrarpylsuna heita.

Fjallagrasablóðmör

1/2 ltr. fjallagrös (um 25g.)
1 ltr. lambablóð
1/4 ltr. vatn
21 msk. gróft salt
200g. hafragrjón
um 800g. rúgmjöl
600g. mör, smátt brytjaður
saumaðir vambarkeppir

Fjallagrösin þvegin og látin liggja í bleyti í nokkrar mínútur en síðan er vatninu þrýst úr þeim og þau söxuð, ekki mjög fínt (gjarna í matvinnsluvél). Blóðið síað og hrært með vatni og salti. Hafragrjónum og fjallagrösum hrært saman við, síðan rúgmjöli og loks mörnum. Sett í keppina og þeir fylltir rúmlega til hálfs. Saumað fyrir þá eða þeim lokað með sláturnálum. Saltvatn hitað í stórum potti og keppirnir settir ofan í þegar sýður, pikkaðir vel með prjóni og síðan er lok sett á pottinn og slátrið soðið í 2 - 2 1/2 klst. eftir stærð keppanna. Snúið öðru hverju. Keppirnir eru svo teknir upp með gataspaða og borðaðir heitir eða látnir kólna. Þá má frysta ósoðna eða soðna.


Verði ykkur að góðu!
Sá sem margt veit talar fátt