Um daginn (eins og svo oft áður) vantaði okkur kærastann hugmyndir…hvað á að vera í matinn? Hann kom með þessa fínu hugmynd og eftir tvær tilraunir er þetta orðið nokkuð gott :)
Hráefni:
2-3 kjúklingabringur
1/2 grænn jalapeno
1 krukka mild salsa sósa
Grænmeti, t.d. ferskir tómatar, sveppir eða annað eftir smekk
Fersk basilíka
Krydd
Pasta
Ég byrjaði á því að skera kjúklinginn í strimla og steikja þá í olíu (og byrja að sjóða pastað…pirrandi ef maður gerir það of seint). Kryddaði kjúllann með kjúklingakryddi, smá pipar, lauk- og hvítlauksdufti. Meðan hann steiktist setti ég jalapeno, smátt skorinn, með á pönnuna. Þegar hann var gegnsteiktur bætti ég grænmetinu og svo salsasósunni og basilikunni við og þá varð til þessi fína rauða glás.
Þetta var svo borið fram með pasta (þrílitt pasta gerir auðvitað allan mat girnilegri!)
Það er lítið mál að breyta þessari uppskrift og nota t.d. góða pastasósu að hluta til eða alveg í staðinn fyrir salsasósuna. Niðursoðnir tómatar virka líka, en þá þarf að nota meira krydd. Ferska kryddið átti að vera kóríander og ég notaði það í fyrra skiptið. Komst bara einfaldlega að því að mér finnst það ógeðslegt. En það er hægt að prófa kóríander, steinselju eða hvað sem hverjum finnst gott, basilika er bara uppáhaldið mitt. Ég býst svo við því að það væri frábært að setja smá rifinn parmesan ost út á þetta í lokin.