Halló,
ég fann þessa uppskrift á einni erlendri uppskriftaheimasíðu. Mér leist ansi vel á þessa hana og því þýddi ég hana og skelli henni hér inn. En ég vil taka það fram að ég hef aldrei bakað þetta en ætla mér þó að gera það innan skamms.

3 bollar hveiti
2 bollar sykur
1 tsk. salt
1 tsk. kanill
1 tsk. matarsódi
1 1/2 dl. matarolía
4 egg, þeytt
1 tsk. rauður matarlitur
560g. frosin jarðarber, þídd og safinn síaður frá
225g. rjómaostur

Hitið ofninn á 180°c. Smyrjið tvö aflöng bökunarform (brauðform). Hrærið saman hveiti, sykur, salt, kanil og matarsóda í stórri skál. Bætið olíu út í, ásamt eggjum og matarlit; blandið vel. Síið jarðarberin og setjið 1/2 bolla af safanum til hliðar fyrir fyllinguna. Blandið jarðarberjunum út í skálina. Hellið deiginu jafnt í formin. Bakið í 50-60 mín. eða þar til prjónn kemur hreinn út eftir að hafa verið stungið í miðjuna. Kælið í 10 mín. í formunum og takið þá brauðin úr og kælið þau alveg á bökunargrind. Blandið saman rjómaosti og jarðarberjasafanum. Skerið brauðin tvisvar lárétt, þannig að myndist þrjár “hæðir”. Smyrjið rjómaostablöndunni á milli “hæðanna”. Vefjið brauðunum inn í plastfilmu og kælið í ísskáp. Sneiðið og berið fram kalt.
Sá sem margt veit talar fátt