Uppskrift, úr uppskriftabók Nönnu, að spænskum hrísgrjónarétti (paellu) =)
600 g kræklingur í skel
saffranþræðir, væn klípa
200 g smokkfiskur
1 kjúklingur, lítill
3 msk ólífuolía
1 laukur, saxaður fremur smátt
1 paprika, rauð, fræhreinsuð og skorin í ræmur
2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
1 l kjúklingasoð
1 dós tómatar, saxaðir
350 g paellahrísgrjón eða arborio-hrísgrjón
1 lárviðarlauf
pipar, nýmalaður
salt
12-16 risarækjur, soðnar, helst í skel
12-16 svartar ólífur, steinhreinsaðar
1 sítróna
Kræklingurinn þveginn og hreinsaður. Hálfur bolli af vatni settur í stóran pott og hitað að suðu.
Skeljarnar settar út í, lok látið á pottinn og soðið við góðan hita þar til skeljarnar hafa opnað sig; potturinn hristur nokkrum sinnum á meðan.
- Ef einhverjar skeljanna opna sig ekki er þeim hent. (mikilvægt, því ef þær opnast ekki eru þær ónýtar)
Kræklingnum hellt í sigti en soðið af honum geymt og saffranþræðirnir settir út í það.
Smokkfiskurinn hreinsaður og skorinn í sneiðar eða bita.
Kjúklingurinn skorinn í bita; leggirnir og vængirnir hafðir heilir en lærin og bringurnar úrbeinuð og skorin í 3-4 bita hvert um sig.
Olían hituð í paellapönnu eða stórri steikarpönnu og kjúklingabitarnir brúnaðir á báðum hliðum við góðan hita.
Á meðan er kjúklingasoðið sett í pott og hitað að suðu. Lauk og hvítlauk bætt á pönnuna og steikt í nokkrar mínútur við meðalhita.
Þá er smokkfiskinum bætt á pönnuna og síðan tómötunum ásamt leginum úr dósinni, kjúklingasoðinu og kræklingssoðinu.
Hitað að suðu og síðan er hrísgrjónunum hrært saman við ásamt lárviðarlaufi, pipar og salti.
Þegar grjónin eru farin að sjóða er hitinn lækkaður og rétturinn látinn malla í um 20 mínútur, helst undir loki, eða þar til grjónin eru meyr og kjúklingurinn soðinn í gegn. Hrært öðru hverju og meira soði eða vatni bætt við ef grjónin þorna um of.
Þegar þau eru nærri fullsoðin er kræklingi, rækjum og ólífum dreift yfir, lok sett á pönnuna eða álpappírsörk lögð yfir og paellan látin malla í 4-5 mínútur í viðbót.
Sítrónan skorin í báta og borin fram með.
Eigi paellan að vera meira krydduð má bæta nokkrum sneiðum af chorizo- eða peperonipylsu á pönnuna um leið og tómötunum og soðinu, en einnig má krydda hana með chilipipar.