Sullaði þessu saman í gær, ákaflega gott, auðvitað er hægt að gera allskonar útgáfur eftir smekk. Mín uppskrift var einhvern vegin svona.

Tagliatelle með tómat og fylltum kjúklingabringum (fyrir 2):

Innihald: tvær kjúklingabringur, tómatpúrra, 1 dós Hunts diced tomatoes m/kryddjurtum, rautt pestó, ca 4 beikonsneiðar, tagliatelle, hvítlaukur, ólífuolía, basilika, salt og pipar.

Aðferð: Brúnið bringurnar (saltaðar og pipraðar) á pönnu í skvettu af ólífuolíu og hvítlauk þar til þær eru léttgullnar að utan. takið af pönnunni og skerið vasa í hliðina á hvorri bringu langsum. Fyllið bringurnar með pestó eftir smekk og steiktu beikoninu, ca. tvær sneiðar í hvora bringu. Setjið á grind inn í ofn í u.þ.b. tuttugu mínútur við 200°C.

Létt tómatsósa: Skellið Hunts tómatteningunum á pönnu eða grunnan pott og merjið teningana vel. blandið út í svo sem tveim teskeiðum af tómatpúrru og hvítlauk eftir smekk. Kryddið vel með basiliku og saltið til. látið krauma við mjög vægan hita þar til kjúklingabringurnar eru tilbúnar.

Á meðan á þessu stendur þarf svo að sjálfsögðu að sjóða slatta af tagliatelle.

Raðið á grunnan disk, pasta, sósu og kjúklingabringu á toppinn á öllu saman. Berið gjarnan fram með hvítlauksbrauði eða öðru þess háttar viðbiti.

obsidian