Brauð
Ég byrja á að skera niður einmitt það sem ég get búið til sjálf. Þótt ég sé löt að baka, þá er ég yfirleitt fljót að muna hvað það venst auðveldlega. Áður en maður veit af, þá er maður farinn að hræra/hnoða í lummur/pönnukökur/heilhveitibrauð á einhverjum 15 mínútum (ég nenni ekki að bíða eftir gerdeigi). Ég t.d. er bara að borða heimabakað núna og það er miklu betra, svo ég tala ekki um ódýrara. T.d. þetta:
4 dl heilhveiti (u.þ.b. 20 kr.)
2 tsk matarsódi (minna en tíkall)
1/2 tsk salt (hverfandi upphæð)
2 msk ólífuolía (kannski tíkall)
3 dl AB-mjólk (30-40 kr.)
Bætt útí hvítlauk, kryddi eftir smekk eða jafnvel fræjum. (smápeningar)
Hræra saman þurrefnum, bæta svo við AB og olíu. Hræra vel, hella í smurt form, pensla með olíu
Bakað við 200 °C í 30-40 mínútur (eða þangað til hægt er að stinga ofaní prjóni án þess að deigklessurnar loði við…alltaf tékka áður en maður tekur út úr ofninum, hálf-hrátt brauð er ullabjakk….)
Kannski kostar þetta eitthvað milli 60 og 100 krónur (það er erfitt að reikna þetta út, ég er bara að giska þar sem ég man ekkert hvað kílóið af heilhveiti kostar eða hversu þungir 4 dl af heilhveiti eru o.s.frv.)
Þetta er mjög fljótgert, tekur 10 mínútur að hræra í þetta, þarf ekkert að hnoða og auðvelt að þrífa skálina. Þetta er mjög ódýrt, gott, drjúgt og miklu hollara en “svampabrauðin”. Þetta brauð er að vísu dáldið laust í sér, kannski ekki það barnvænasta á kringlunni. En mér finnst það gott fyrir sjálfa mig :) Ódýrasta búðabrauðið sem ég veit um er í Krónunni á 98 krónur annars kosta þau flest milli 180 og 250 krónur.