Kínversk matargerð er byggð á fjórum grunnþáttum; lit, lykt, bragði og áferð. Saman mynda þessir þættir jafnvægi sem er einmitt lögmál Yin Yang lífsspekinnar um fullkomið samræmi og jafnvægi. Kínverskur matur hefur þróast út frá skorti á hráefni. Kínverskir matargerðarmenn voru snillingar í að lokka fram ljúffengt bragð úr einföldu hráefni og létu skortinn ekki hefta ímyndunarafl sitt heldur nýttu sér hann til að búa til fyrsta flokks sósur úr sojabaunum til að bæta bragð matarins. Vegna þessa hefur sojasósa orðið ómissandi hráefni til að móta bragð í sérhverjum kínverskum rétti.
Kínverjar hafa einangrað 5 frumbragðtegundir sem undirstrika allt litrófið í matargerðarlist. Þessar bragðtegundir eru sætt, súrt, salt, beiskt og sterkt. Í gegnum aldirnar hafa Kínverjar öðlast mikla leikni í þeirri list sem felst í því að setja saman þessar bragðtegundir þannig að þær dragi fram það besta í kjöti, fuglakjöti og sjávarfangi.
Kínversk matargerðarlist er sundurgreind eftir 4 svæðum: Norður eða Peking, Austur, Vestur, þ.á.m. Sichuan, og Suður, þ.m.t. Cantonese, Xiamen (Amoy) og Hong Kong. Hvert svæði hefur þróað sinn eigin stíl með því að nota hráefni og krydd sem ræktuð eru á hverju svæði fyrir sig. Peking matargerðin er sú þróaðasta en jafnframt er hún einföld og einkennist hún af mikilli notkun á sojabaunamauki, sem er notað sem grunnur í margar aðrar sósur s.s. Hoi Sin og Yellow Bean.
Austursvæðið er kallað hrísgjónaskál Kína en það einkennist af engifer, sesamolíu, sojasósu og hrísgrjónavíni. Súrsæt sósa og steikt hrísgrjón eru talin eiga rætur sínar að rekja til þessa svæðis.
Matargerðarlistin á Vestursvæðinu, sem kennd er við Sichuan, er mjög krydduð og bragðsterk með ríkulegri notkun á chilipipar og chilisósu og einkennist af margþættum bragðtegundum m.a. sterku, sætu, súru, söltu og ilmandi allt í senn. Sesam- og sojabaunaafurðir eru í aðalhlutverki í mörgum réttum.
Suðursvæðið sem kennt er við Amoy og Hong Kong er ef til vill þekktast í matargerðarlistinni. Segja má að listin sé fólgin í áferðinni. Náttúrulegt bragðið fær að njóta sín og undirbúningi er haldið í lágmarki. Hrísgrjón eru aðalframleiðsluvara þessa svæðis og soja, svartar baunir og ostrusósa er notuð á listrænan hátt með kryddum á borð við blaðlauk, engifer og lauk. Einkennandi fyrir þessa matargerð er ferskleiki og næmi en það sem auðkennir þessa matargerðarlist umfram allt eru bragðgæðin.
Ég er persónulega mjög hrifin af kínverskum mat(matargerð)en hef ekki verið nógu dugleg við að prufa mig áfram.
Kveðja