Hér eru þrír mismunandi réttir: einn morgunmatur, einn hádegismatur og einn kvöldmatur.

Hafragrautur
Skammturinn dugar fyrir tvær manneskjur.
1 og 1/2 desilítri hafragrjón (best er að nota stóra hafra)
3 og 3/4 desilítri vatn
3/4 desilítri rúsínur
8 valhnetukjarnar, einn valhnetukjarni miðast viðhálfa valhnetu
1 og 1/2 teskeið kanill, EKKI kanilsykur

1. Best er að byrja á þessu kvöldið áður. Hellið höfrunum og vatninu í pott. Saxið valhneturnar einnig setjið þær ofan í pottinn.
2. Næsta morgun skuluð þið byrja að sjóða grautinn. Ef að þið hafið góðann tíma eins og um helgar þá verður grauturinn betri ef hann er á lágri suðu. Annars er hægt að setja hann á háa suðu. Bætið rúsínunum við og hrærið reglulega.
3. Þegar grauturinn er við það að vera tilbúinn skuluð þið bæta kanilnum við. Það er mjög mikilvægt að kanillinn fari langseinastur því að annars brennur grauturinn við.
4. Hellið grautnum í tvær skálar. Setjið pottinn strax í vaskinn og hellið vatni ofan í. Þannig verður léttara að þrífa pottinn. Hellið fjörmjólk yfir grautinn og berið fram.
Til tilbreytingar er fínt að sleppa rúsínunum og setja td. möndlur og epli í staðin.

Tómatabrauð
Skammturinn dugar fyrir eina mjög svanga manneskju eða tvær dálítið svangar.
2 Brauðsneiðar, tegundin fer algjörlega eftir því hvernig brauð ykkur finnst best
2 meðalstórir tómatar
ca. 1-2 matskeiðar ólífuolía
ítalskt pastakrydd (það er búið að breyta nafninu í ítölsk hvítlauksblanda minnir mig), magn er smekksatriði
örlítið grænmetissalt, trocomare eða herbamare

1. Ristið brauðið á meðalhita. Ekki hafa áhyggjur þótt að brauðið verði ristað löngu áður en þið klárið að gera restina til. Brauðið á að vera orðið kalt og þurrt til að það dragi safann úr álegginu betur í sig.
2. Skerið tómatana í báta og setjið á disk. Hellið ólífuolíunni, kryddinu og saltinu yfir. Hrærið í með gaffli þannig að tómatarnir verði þaknir.
3. Setjið tómatana inn í örbylgjuofn og hitið. Örbylgjuofnar eru miskraftmiklir, en það ætti að vera byrjað að snarka í tómötunum þegar þið takið þá út.
4. Hellið tómötunum og safanum sem lekið hefur á diskinn yfir brauðsneiðarnar.
5. Njótið.

Grænmetis-lasagna
Uppskriftin nægir fyrir sex manneskjur. Einnig er þetta fínn matur til að hita upp sem afganga seinna.
Lasagnablöð
300 grömm spergilkál eða einn stór haus
einn laukur
300 grömm kjúklingabaunir
500 grömm kotasæla
2 teskeiðar basilíkum
Salt og pipar

Sósa:
6 dl léttmjólk
4 matskeiðar fínt spelthveiti
ein teskeið salt
1/2 teskeið múskat
Pipar
3 dl magur ostur

1. Skerið spergilkálið í fremur litla bita og sjóðið í vatni með smá salti. Mikilvægt er að hafa mjög lítið vatn í pottinum sem að spergilkálið er soðið í, aðeins um botnfylli, annars verður það vatnssósa.
2. Steikið laukinn í smávegis matarolíu. Baunirnar eru vanalega foreldaðar svo þær þarf ekki að steikja. Setjið þær aðeins á pönnuna í lokin til að hita þær aðeins.
3. Blandið lauknum, spergilkálinu, baununum, kotasælunni, basílíkuminu og saltinu. Piprið örlítið.
4. Hitið 4 og 1/2 desilítra af mjólkinni í örbylgju eða potti (örbylgjan er fljótlegri og skítar minna út). Hrærið restina mjólkinni saman við hveiti og hellið út í heitu mjólkina ásamt múskati, salti og pipar.
5. Sjóðið sósuna dálítið lengur. Ef hún er soðin í örbylgju verður að taka hana reglulega út og hræra en ef hún er í potti verður einnig að hræra reglulega. Setjið ostinn út en skiljið eftir uþb. 4 matskeiðar. Hrærið vel.
6. Smyrjið ofnfast mót og setjið sósu á botninn. Dreifið vel úr og setjið lasagnablöðin yfir og svo grænmetið. Endurtakið tvisvar til þrisvar.
7. Ljúkið með að setja lasagnablöð, afganginn af sósunni og stráið afgangnum af rifna ostinum yfir.
8. Bakið við um 200 °C hita í 30 mínútur.

Og verði ykkur að góðu.