Hafið þið prófað að steikja kartöflur á pönnu? Þá meina ég að skera þær niður í bita og skella þeim á pönnuna ásamt ca 4 msk af ólífu olíu. Það er alveg ótrúlega gott, og eiginlega best að hafa hýðið á. Tekur ca 5-10 mín og kryddað með til dæmis season all, sítrónupipar og svörtum pipar er þetta ofboðslega gott, og passar líka með allflestu! Ég hef meira að segja eldað svona kartöflur með fínum kjúklingarétt.

Kjúklingur snöggsteiktur og soðinn úr rauðvíni.

2-4 kjúklingabringur, skinnlausar
1 sítróna
hvítlauksduft
sítrónupipar
svartur pipar
season all
oregano
basillika (fersk eða þurrkuð)
ca 500-750ml rauðvín, skiptir eiginlega ekki máli hvernig, en ég gæti trúað að cabernet sauvignon vín henti betur en merlot (cab/sau er bragðmeira) mæli til dæmis með Cato Negro (930kr flaskan) eða Piccini Chianti (890kr flaskan) en auðvitað er hægt að nota ódýrari vín.. :)

Ok. Safinn úr sítrónunni kreistur í litla skál og kryddinu blandað út í ásamt u.þ.b. 1msk af ólífuolíu. Sett í poka og kjúklingurinn settur með. Látið liggja í kryddblöndunni í u.þ.b. klukkutíma. Snöggsteikt á pönnu (1-2 mín á hvorri hlið) upp úr ólífuolíu og síðan rauðvíni bætt út í og látið sjóða saman í u.þ.b. 10 mín, eða þar til kjúklingurinn er soðinn í gegn en samt ekki farinn að þorna. Kartöflurnar steiktar meðan kjúklingurinn sýður.
Steikja þarf mun meira magn af kartöflum heldur en soðið hefði verið ef soðnar kartöflur ættu að vera með matnum. Fyrir 2 þarf ca 4 meðalstórar kartöflur.
Kartöflur skornar í ca 8 bita hver og þeim skellt á pönnu eða pott með ólífuolíunni, snúið oft með spaða til þess að þær brenni ekki við. Lokið sett á og látið krauma í ca 5 mín, ‘hrært’ í af og til. Þegar kartöflurnar eru farnar að mýkjast eru þær tilbúnar, passa samt að þær verði ekki of mjúkar.
Kartöflurnar settar í skál og kryddaðar, kjúklingurinn settur á fat eða diskana og síðan skellt á borðið.

Gott að hafa salat eða hrísgrjón með, eða bara kjúkling og kartöflur :)

Njótið vel!

P.S.
Ef þið eruð í einhverjum vafa er ykkur velkomið að spyrja kallinn minn hvort þetta sé ætt eða ekki ;)