Hrísgrjón
Hrísgrjón hefur fylgt menningu Asíuþjóða frá árdögum mannkyns. Í mörgum þjóðfélögum er litið á hrísgrjón sem guðsgjöf og eru þar af leiðandi til hrísgrjónaguðir. Í Tailandi er guðinn Mae Posop tákn hrísgrjónsins, í Indónesíu er það Tisnawati, Inkapati á Filipseyjum og Ninigino-mikota í Japan. Fyrstu merki um hrísgrjón í Asíu eru rakin allt til ársins 3500 fyrir krist eða fyrir um 5500 árum. Það fundust hýðisgrísgrjón í leirkeri í Khonkan héraði í Tailandi sem hægt var að aldursgreina til ársins 3500 f.k. Einnig hafa fundist myndir á hellisveggjum í Ubon Rajtani héraði í Thailandi, sem sýna bændur rækta hrísgrjón á flæðiökrum. Talið er að þessar myndir sé hægt að tímasetja jafnvel enn lengra eða allt til 4000 f.k. Ræktun á þessum tíma var mjög frumstæð og var ekki farið að nota húsdýr eða áhöld við ræktunina fyrr en löngu seinna. Eftir því sem mannkyninu fjölgaði var þörf fyrir afkastameiri ræktunaraðferðum. Um 1500 f.k. var farið að nota málmáhöld til ræktunar, einkum í samfélögum í norðaustur Tailandi. Nútíma aðferðir við rætunina eru frá tíma Kmerana sem ríktu í suðaustur Asíu 900 e.k. Þá fóru menn að byggja stíflur og veita vatni á akrana þegar þurrkatímabilið stóð yfir. Daglegir lifnaðarhættir Asíuþjóða, listir og menning eru tengdir hrísgrjónum á einn eða annan hátt. Það eru til þjóðlög og dansar sem fjalla um plægingu, sáningu, uppskeru og afhýðun hrísgrjónana. Gleðiríkasti tíminn var að sjálfsögðu uppskerutíminn. Í fortíðinni þegar vélar voru ekki komnar til sögunnar, safnaðist fólk saman á akrana á uppskerutímanum og var algengt að fólk syngi saman við vinnu sína. Það var nauðsynlegt að margar hendur vinni verkin á uppskerutímanum til að ná inn í hús hrísgrjónunum áður en uppskeran skemmdist. Fyrir Asíubúann eru hrísgrjón samofin daglegum þörfum og eru á borðum daglega í flestum löndum. “Að borða hrísgrjón” þýðir það sama og að “borða mat” á mörgum tungum Asíulanda. Þar má nefna “shi fan” á kínversku og “kin khao” á thailensku. Mikil virðing er borin fyrir hrísgrjónum í þessum löndum og má nefna að það að henda eða leifa hrísgrjónum er synd á eynni Jövu og einnig í Malasíu. Að ganga á hrísgrjónum er bannað í Thailandi. Hvað varðar aðrar þjóðir heims þá eiga næstum því öll lönd sinn sérstaka hrísgrjónarétt þótt hefðin sé ekki ýkja gömul. Þar má nefna spánverjana með paelluna, ítali með risotto og Bandaríkin með jambalaja. Jafnvel íslendingar eiga sinn rétt lagaðan úr hrísgrjónum, hrísgrjónavellinginn með rúsínum og kanelsykri.