Mig langar að senda ykkur hérna uppskrift af sjávarrétti sem ég bjó til sjálf. Hann þykir mjög ljúffengur og hann er fínn ef von er á gestum svona til hátíðabrigða. Hann er frekar dýr, en hér kemur uppskriftin.

1 Laukur
1 Púrrulaukur
1 Paprika (helst gul eða rauð)
2-3 tsk. marinn hvílaukur úr krukku
1 poki skelfiskur
15 litlir humrar (í skel)
2 bollar rækjur
1 pakki krabbakjöt
1 grænmetis teningur
1/2 líter rjómi
salt, pipar og karrý eftir smekk
olía til steikingar

Byrjið á að taka skelina af humrinum og sjóða hana í vatni þannig að það rétt fljóti yfir hana og einn súputening saman við. Meðan þetta mallar þá brytjið grænmetið en ekki mjög smátt og steikið í olíu á pönnu. Þegar grænmetið er búið að malla smá stund þá er marða hvítlauknum blandað saman við og einhverju af salti og pipar eftir smekk. Hrærið í af og til. Færið grænmetið yfir í pott og lækkið hitann undir því og meðan það mallar að brytja þá niður fiskinn. Skerið humarinn í svona 2-3 bita eftir stærð og skelfiskinn í tvennt. Þegar það er búið er fiskurinn settur saman við grænmetið og látið malla saman smá stund. Takið pottinn með humarskelinni í og sigtið soðið í skál og hendið skelinni. Soðið fer nú út í fiskinn og grænmetið. Britjið krabbakjötið ekki mjög smátt og bætið því útí en það losnar svolítið í sundur ef mikið er hrært. Setjið svo rjómann saman við allt saman og kryddið eftir smekk. Þegar þetta er orðið vel kryddað að ykkar smekk þá látið malla smá stund svo sem 3 mín (á að vera mikið hvítlauks og karry bragð). Ef ykkur finnst lítil sósa þá er bara að bæta mjólk út í hana. Þykkið sósuna svo en ekki hafa hana of þykka. Borið fram með hrísgjónum og ristuðu brauði.
Verði ykkur að góðu.
Bomba