Fátt þykir mér skemmtilegra en að tína saman hina og þessa afganga úr ísskápnum heima og gera úr því eitthvað skemmtilegt.
Eftirfarandi er samloka sem ég gerði mér um daginn, og tvær myndir fylgja með.
Mynd 1:Áður en hún var sett saman
Mynd 2:Eftir fyrsta bitann
—— Innihald ——
- Ein sneið af Bayonne skinku, hamborgarhrygg eða sambærilegu kjöti. Helst sæmilega feitu. Þykkt eftir smekk.
- Óhóflegt magn af rauðlauk.
- Ostur eftir smekk
- 1 eða 2 egg (Getur orðið svolítið erfitt að bíta í samlokuna ef kjötsneiðin er þykk, ásamt 2 eggjum)
- Hunt's BBQ sósa, helst “Honey hickory”.
- Tvær brauðsneiðar
– Síðan má að sjálfsögðu bæta við hinu og þessu, það gæti t.d. komið mjög vel út að steikja sveppi og setja þá með, eða setja ferska tómata og/eða kál.
—— Framkvæmd ——-
Miðað við það innihald sem ég notaði taldi ég best að byrja á því að steikja bayonne skinkuna örlítið, hvað helst þá til að hita hana. Hún var ekki hrá. Kvöldmaturinn í gær skiluru. Ég steikti uppúr ólifuolíu sem ég fann.
Þegar sneiðin (sem var sæmilega þykk) var farin að velgjast sæmilega ákvað ég að skella eggjunum á pönnuna sem ég og gerði. Þau voru ekki lengi að verða tilbúin, enda vildi ég hafa þau eins lin og ég hugsanlega gat, og tókst það vel.
Þá geymdi ég eggin og sneiðina á disk við hliðina á pönnunni. Setti aðeins meiri ólifuolíu á pönnuna og lagði brauðin aðeins til að fá smá fitu í þau, síðan staflaði ég eggjunum, ostinum, rauðlauknum og sneiðinni á annað brauðið og lagði lok yfir pönnuna og leyfði því að malla á lágum hita í þann stutta tíma sem ég þoldi að horfa á þennan yndislega mat annarsstaðar en á leiðinni uppí mig.
Eftir að hafa vandlega staðsett brauðin á diskinn hjá mér setti ég örlitla BBQ sósu á auða brauðið (eins og myndin sýnir) og át síðan og naut afbragðsvel.
—– Annað —–
Ég held að það sé talsvert magn af kaloríum í þessari samloku og eitthvað af fitu. Ég tek ekki á mig neina ábyrgð á heilsu, holdafari eða neinu öðru hjá þeim sem fara eftir þessari uppskrift.