Þegar líða tekur að mánaðamótum er oft hætta á því að peningar eru af skornum skammti. Þá kemur sér vel að geta hrist út úr erminni uppskriftir sem geta mettað heimilisfólkið fyrir örfáa hundraðkalla á mann. Ég ákvað eitt kvöldið að sleppa því bara alfarið að fara út í búð og sauð saman pottrétt úr dósunum sem ég fann inni í skáp.
Útkoman var þessi bara fíni réttur, ótrúlega bragðgóður þrátt fyrir að kosta bara smáaura og innihalda ekkert kjöt. Ég hef margoft verið beðinn um að elda þetta aftur, jafnvel þótt enn sé nóg eftir af launapeningunum :P
Þessi uppskrift er fyrir svona 3. Við erum reyndar bara tvö í heimili, en ég notaði afganginn tli að spara mér nestispeninginn daginn eftir, þessi réttur er líka fínn upphitaður :P
Hráefnið sem ég notaði var:
2 dósir kjúklingabaunir
1 stór laukur
250g hrísgrjón
1 dós kókosmjólk
2 dósir hrein jógúrt
2 litlar dósir tómatpúrra (eða ein lítil Hunt's, þær eru ca. 2falt stærri en litlu No-Name dósirnar)
“dash” af sojasósu
hvítlauksduft og cajennepipar eftir smekk (einfaldlega vegna þess að ég átti svoleiðis, karry kemur örugglega líka vel út, sem og chili- eða svartur pipar)
Ég byrjaði á því að sjóða vatn og henda hrísgrjónunum út í. Læt þau malla í rúmlega fimm mínútur áður en ég saxa laukinn. Hita síðan olíu á pönnu og brúna laukinn aðeins. Læt renna af baununum og helli út á og hita þær létt. Helli kókosmjólkinni og jógúrtinni saman við og læt sjóða andartak.
Þegar drullumallið á pönnunni er farið að þykkna aðeins fer tómatpúrran, sojasósan og kryddið saman við. Mallast við vægan hita þangað til hrísgrjónin eru tilbúin (skv. leiðbeiningum á pakkanum).
Ég set hrísgrjónin saman við réttinn og ber þetta síðan fram í djúpri skál.
Ef menn eru ekki að elda þennan rétt í sparnaðarskyni þá passa naanbrauð og stökkt salat mjög vel með þessu.