Töluverð umræða hefur verið undanfarið um hundarækt til manneldis. Flestir segja bara: „Oj nei, ekki vil ég fara að éta hann Snata!" En það er ekki málið! Ég á ekki hund sjálfur en tveir vinir mínir eiga hunda og ekki hef ég neinn áhuga á að slátra þeim og leggja mér þá til munns! En ef einhver færi að rækta hunda í þeim einum tilgangi að éta þá liti málið öðruvísi við.

Tökum sem dæmi hestamenn, flestir éta þeir sennilega hrossakjöt þó svo að enginn þeirra gæti hugsað sér að éta Grána sinn eða Blesa! Og hvað með litla heimalinga (lömb) sem eru aldir upp inná sveitabæjunum (þ.e.a.s. inni, ekki útí fjárhúsi), þeir eru litlir og sætir og ekki beint eitthvað sem maður gæti hugsað sér að éta. Svo fer maður heim úr sveitinni og mánuði seinna er heimalingurinn mættur á diskinn hjá manni, og maður hugsar ekkert um það, þetta er bara kind!

Það er einmitt málið, það er ekki verið að biðja fólk um að slátra hundunum sínum og éta þá heldur á að fara að rækta hundana í þeim tilgangi einum að éta þá, og hvað er að því, ég bara spyr?
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _