Ég hef verið að gera tilraunir með að búa til hið fullkomna lasagna. Ótal tilraunir hafa verið gerðar til þess að fullkomna uppskriftina. Hér eru svo herlegheitin:
Kjötsósa:
1-2 msk. ólífuolía
1 laukur
2-3 gulrætur
1 stilkur sellery
500-1000 grömm gott nautahakk (ekki kúahakk)
1 glas hvítvín
Gott salt og nýmalaður pipar
3 dósir niðursoðnir heilir eða maukaðir tómatar
Aðferð:
Laukur + sellery + gulrætur saxaðar mjög smátt með hníf eða í matarvinnsluvél (ég nota matarvinnsluvél)
Olía sett í stóran og góðan pott og grænmetið “svitað” (steikt án þess þó að brúna) og saltað eftir smekk (ca 1-2 tsk). Á meðan grænmetið svitnar þá eru tómatarnir maukaðir vel í matarvinnsluvélinni.
Þegar grænmetið hefur svitnað hæfilega er hvítvíninu bætt út í og látið sjóða aðeins niður. Því næst er tómatgumsinu bætt út í og piprað eftir smekk.
Svo er kjötsósan látin krauma í 4 klst við lágan hita með loki á pottinum. Já, 4 klst. Ekki minna!
Mér finnst gott að setja 1 stk. lárviðarlauf í ca 1 klst. í sósuna.
Ostasósa:
ca 2-3 msk. smjörbolla (smjör og hveiti brætt saman í réttum hlutföllum eftir vigt).
1/2 - 1 ltr. nýmjólk
1-2 dl. rifinn parmesan ostur (ekta ostur, ekki gerfi í boxum takk fyrir)
Aðferð:
Smjörbolla útbúin í sósupotti. Mjólk hellt smám saman út í þar til hæfilegri þykkt er náð. Rifnum ostinum bætt útí og suða látin koma upp. Passa að þetta brenni ekki við!
Svo þarf náttúrulega lasagnaplötur. Best er að búa þær til sjálfur, þ.e. fletja út pastadeig mjög þunnt með kefli eða í pastavél, skera í hæfilega stærð og sjóða fyrir notkun.
Annars er líka mjög gott að nota ferskar plötur sem fást í flestum matvöruverslunum. Mæli þó með að þær séu flattar örlítið út fyrir notkun. Suða ekki nauðsinleg. Mæli ekki með þurrum plötum. Þær draga í sig of mikinn raka úr sósunum og lasagnað verður einfaldlega ekki eins gott.
Samsetning:
Stórt og gott fat er smurt með ólífuolíu.
Væn ausa af kjötsósu er helt í mitt fatið og svo jafnmikið af ostasósu þar ofaná. Dreift út með ausunni. Athugið að hafa alls ekki of mikið af sósu á milli laga, 5 mm er hæfilegt. Svo eru plötur settar ofaná og svo meiri sósa í sömu hlutföllum og áður. Svo er þetta gert koll af kolli þangað til fatið er fullt eða sósurnar búnar. Hjá mér verða þetta ca 5 lög af plötum.
Því næst er rifnum parmesan osti dreift yfir og bakað í 160-180 gr. heitum ofni þar til osturinn er orðinn dökkur.
Látið svo standa í 10-20 min áður en borið er fram.
Þetta verður æðislega gott lasagna. Mjög rjómakennt og bara yndislega gott!
Njótið!
There are only 10 types of people in the world: